01.03.1983
Sameinað þing: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2367 í B-deild Alþingistíðinda. (2113)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vil að það komi alveg skýrt fram í þessari umr.samgrh. hefur ekki skorast undan því að gera grein fyrir sínum gerðum hér á þingi, langt í frá. Hann hefur hins vegar lýst sig fúsan til að gera það þegar á fimmtudag. Málshefjandi gerði eingöngu grein fyrir því í sínu máli, til að það lægi skýrt fyrir, að hann vildi koma því á framfæri að hann hefði óskað eftir umr. utan dagskrár, en hins vegar mundi hann ekki ræða þetta mál efnislega fyrr en ráðh. væri viðstaddur. Ég sé engan mun á því hvort þetta mál er rætt nú eða einum eða tveimur dögum seinna. Á því er enginn munur. Og það er algerlega ljóst að samgrh. er tilbúinn að ræða þetta mál í öllum atriðum og svara þeim spurningum sem hv. þm. óska eftir að koma með.

Hins vegar er það, og ég verð að segja það alveg eins og er, að mér blöskrar algerlega að hlusta á ræður eins og hv. 11. þm. Reykv. hefur flutt núna tvívegis. Það eru einmitt ræður í þessum dúr sem gera það að verkum að Alþingi Íslendinga setur niður. Samgrh. réð því engan veginn að utanrrh. ætti afmæli í dag. Hann réð því ekki heldur hvenær þessi veisla stæði. Hins vegar vita menn að utanrrh. hefur verið formaður Framsfl. um árabil og samgrh. er formaður flokksins nú. Menn vita að þar eru auðvitað ýmis tengsl á milli. Af þeim ástæðum vildi samgrh. vera viðstaddur þessa veislu. Hann fór fram á það við málshefjanda að þess vegna yrði þessu máli frestað. Þetta var algerlega eðlilegt og það var mannlegt, og ég trúi því ekki að það sé ofverk hv. 11. þm. Reykv. að skilja það.

Það er hins vegar orðhengilsháttur í þessum dúr sem setur virðingu þingsins niður. Ég fæ ekki séð að það sé nokkur ástæða til þess fyrir þennan hv. þm. að standa hér upp og flytja tvær þingræður til þess að koma höggi á samgrh. fjarstaddan í þessu máli. Þessar ræður gat hann flutt á fimmtudag en samgrh. er búinn að lýsa sig reiðubúinn að ræða þetta mál hér á þingi.

Ég skora á þm. að ræða mál almennt málefnalega, en reyna ekki, jafnvel þó að þeir séu að fara á taugum í einhverri kosningabaráttu, að hengja sig í formsatriði og reyna að koma höggi á félaga sína fjarstadda hér í þinginu, þegar tækifæri gefast í þessum dúr.

Ég vil ítreka það, svo að öllum sé það ljóst, sem hér eru inni, að hæstv. samgrh. er ekki að skorast undan því að ræða þetta mál. Hann hefur lýst sig fúsan til þess að ræða það, fúsan til að gera grein fyrir sínum gerðum og svara öllum fsp. sem um þetta koma fram á þinginu. Það mun hann gera í samráði við málshefjanda á fimmtudaginn. Umr. í þeim dúr, sem hér hafa farið fram af hálfu hv. 11. þm. Reykv., eru fyrir neðan virðingu þingsins — a. m. k. eins og ég met hana.