01.03.1983
Sameinað þing: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2368 í B-deild Alþingistíðinda. (2115)

Umræður utan dagskrár

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Mitt mat er það, að það séu ræður í þeim dúr sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson flutti hér áðan sem setja leiðinlegan svip á Alþingi, þegar þm. standa hér upp til að réttlæta að hér geti ekki farið fram umr. um mál sem er brennandi að svara í dag. (GGÞ: Hvar eru ráðherrar Alþb.?) Það er ekki verið að spyrja ráðh. Alþb. eða óska eftir umr. frá hendi ráðh. Alþb. á þessari stundu. (Gripið fram í.)

Hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson vissi í gærkvöld að óskað var eftir því að hann svaraði spurningum okkar um þetta mál hér í dag, og greinilegt var að það var nægilegur tími til að sinna þeim umr., sem til stóðu, á þeim tíma sem liðinn er frá setningu þessa fundar. En af einhverjum ástæðum taldi ráðh. æskilegra að hverfa af fundi og láta það eiga sig og bíða til fimmtudags að svara þeim beinu aðdróttunum sem hann hefur haft í frammi við okkur flugráðsmenn.

Það sem hv. þm. Albert Guðmundsson skýrði frá áðan og las upp úr blaðaviðtali við hæstv. ráðh. eru það miklar aðdróttanir að erfitt er að liggja undir þeim án þess að fram komi frekari skýringar innan stutts tíma.

Hæstv. ráðh. lét hafa það eftir sér í Morgunblaðinu að einn ráðsmaður hafi skrifað upp á tillögu fyrir fund ráðsins og látið síðan hina flugráðsmennina skrifa undir fyrir fundinn. Slík aðdróttun sem þessi, að einn flugráðsmaðurinn hafi haft í hendi sér hvernig afgreiðsla flugráðs yrði, er fyrir neðan allar hellur sem fullyrðing frá hæstv. ráðh.

Mér er vel kunnugt um hvernig unnið var að þessu máli. Það var á þann hátt að sjálfsagt er að skýra frá því nú hvernig undirbúningur Alberts Guðmundssonar, sem var sá maður sem undirbjó till. okkar flugráðsmanna til samþykktar í flugráði, var. Á miðjum þingfundi á miðvikudaginn var hittumst við Albert Guðmundsson og ræddum þessi mál og það kom í ljós að við vorum samherjar í þessu máli. Þá nefni ég við Albert Guðmundsson: Vilt þú ekki, vegna þess að ég hef ekki tíma til þess seinni partinn í dag að vera hér, gera uppkast að þessari till. Ég mun síðan skrifa undir þessa till. með þér þegar við komum á flugráðsfund. — Þannig var unnið að þessu máli. Og hver er óheiðarleikinn, en það er reynt að nota stimpil óheiðarleika á þessa gjörð með orðum hæstv. ráðh. í Morgunblaðinu?

Mér finnst óheiðarlegt að hæstv. ráðh. skuli ekki gefa sér tíma til að svara fyrir þær aðdróttanir nú þegar, sem hann hefur haft í frammi gagnvart okkur, heldur óska eftir því að sú umr. frestist til fimmtudags. Fram að þeim tíma liggjum við undir ámæli um óheiðarleg vinnubrögð í flugráði.