01.03.1983
Sameinað þing: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2369 í B-deild Alþingistíðinda. (2116)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs um þingsköp vegna þess að hér á Alþingi hefur í annað sinn á undanförnum vikum komið fram aths. við að hv. þm. Vilmundur Gylfason situr áfram í tveimur nefndum þingsins þótt hann hafi verið kosinn fulltrúi í þessum nefndum af lista Alþfl.

Eins og hv. þm. er kunnugt eru þingnefndir samstarfsvettvangur fulltrúa flokkanna og er kosið í þær af sérstökum listum. Þá setja flokkarnir sína fulltrúa í nefndir til að tryggja að flokkarnir hafi möguleika til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og fá þær upplýsingar, sem embættismenn, fulltrúar hagsmunasamtaka og aðrir sérfræðingar utan þings láta í té.

Nú hefur það gerst, eins og öllum er kunnugt, að hv. þm. Vilmundur Gylfason hefur sagt sig úr Alþfl. Hann hefur stofnað sérstakan stjórnmálaflokk, Bandalag jafnaðarmanna, og verið valinn þar formaður. Þess vegna er ljóst að Alþfl. á ekki lengur fulltrúa í þeim tveimur nefndum þingsins. sem hv. þm. Vilmundur Gylfason situr í, menntmn. Nd. og allshn. Nd., en Bandalag jafnaðarmanna hefur hins vegar tekið sér þessi nefndarsæti og nýtir þau flokknum til framdráttar.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason talaði um það fyrir nokkrum vikum að flokkar tækju sér ránsfeng, og var í því sambandi að ræða um undirbúning kjördæmamálsins. Ég held að það liggi fá skýrari dæmi fyrir í þingstörfum um ránsfeng frá öðrum flokkum en ef þm., sem sagt hefur sig úr lögum við félaga sína, gengið formlega úr flokki þeirra, telur sér sæma að gegna ennþá nefndarstörfum sem fulltrúar flokksins völdu hann til og færir þessi nefndarstörf með sér sem ránsfeng yfir í Bandalag jafnaðarmanna. Ég tel að það sé grundvallaratriði í störfum þingsins hvort einstakir þm. sem segja sig úr þingflokknum, geti engu að síður setið eftir með fulltrúastöður, sem sá flokkur valdi þá til hér innan þings, og haldið þeim fulltrúastöðum fyrir flokknum. Það má vel vera, og ég mun koma að því eftir augnablik, að þennan verknað Vilmundar Gylfasonar sé hægt með lagakrókum að telja löglegan, en hann er hins vegar siðlaus. Hann er algerlega siðlaus vegna þess að hv. þm. Vilmundur Gylfason hefur sagt upp trúnaði við Alþfl. formlega. (Forseti: Ég vil biðja ræðumann að stytta mál sitt af því að þetta er um þingsköp.) Já, ég er að koma að því, herra forseti. Hann hefur hins vegar ekki haft manndóm í sér til að segja af sér þessum nefndarstörfum, heldur situr uppi með þau sem sinn ránsfeng.

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég hef kvatt mér hér hljóðs er að biðja hæstv. forseta að upplýsa hv. Alþingi um það, á hvaða lagaskilningi það er byggt að þm., sem kosinn er í nefnd sem fulltrúi flokks af lista þess flokks, getur, ef honum sjálfum þykir það henta, setið áfram heilt þing í þessum sömu nefndum. Flokkurinn, sem valdi hann til þess í góðri trú og fullum heiðarleika og með fullum heilindum, hefur þá ekki möguleika á því að eiga neinn fulltrúa í þeirri nefnd.

Þetta er ekki bara mál sem snertir siðlausa framkomu hv. þm. Vilmundar Gylfasonar. Þetta er ekki bara einkamál hans. Þetta er ekki bara mál um hans eigin ránfeng, sem hann vill sitja uppi með. Þetta er ekki bara einkamál um hvernig hv. þm. misnotar sér aðstöðu sína hér á Alþingi og treður þannig á félögum sínum. Þetta er grundvallarspurning um störf hér á Alþingi, hvort einstakir þm. geta haldið sætum í nefndum þingsins eftir að þeir hafa sagt skilið við þá flokka sem völdu þá til þeirra sæta, en flokkarnir hafa síðan enga möguleika til þess að velja sér nýja fulltrúa í þessar nefndir fyrr en þá á nýju þingi.

Ég vil, herra forseti, vegna þessa fordæmis um persónulegt siðleysi, en hins vegar hugsanlega löglegt atferli, fá það skýrt fram frá hæstv. forseta Sþ., annaðhvort hér á eftir eða í upphafi næsta fundar, á grundvelli hvaða lagagreina þetta siðleysi viðgengst. Hvar er að finna þær lagagreinar sem hv. þm. Vilmundur Gylfason getur byggt þetta siðlausa atferli sitt á? Ég tel að ef þær eru fyrir hendi skýrar og greinilegar sé nauðsynlegt að flytja hér á Alþingi frv. þar sem þingsköpum eða öðrum lögum er breytt á þann veg að koma í veg fyrir að einstakir þm. geti stundað siðlaust athæfi af þessu tagi, til að koma í veg fyrir að menn, sem hafa sagt sig úr lögum við flokka, sitji uppi með sem ránsfeng þær trúnaðarstöður og fulltrúastöður í nefndum þingsins sem þessir flokkar hafa valið þá til.

Þegar þm. eru það manndómslausir og það siðlausir að þeir hafa ekki þann heiðarleika til að bera að segja af sér þessum nefndarstörfum um leið og þeir ganga úr viðkomandi þingflokki er nauðsynlegt að tryggja rétt þeirra sem völdu þá til setu í nefndunum. Það getur skapað hættulegt fordæmi á Alþingi ef það verður látið viðgangast í krafti túlkana á tilteknum lagagreinum að þm. geti komið fram með þessum hætti.

Formaður þingflokks Alþfl. vék athygli Alþingis að þessu fyrir nokkrum vikum. Það hefur verið gert aftur hér í dag. Að athuguðu máli tel ég nauðsynlegt, vegna þeirra fordæma sem siðlaust atferli af þessu tagi kann að skapa, að hæstv. forseti upplýsi Alþingi skýrt um það, á hvaða lagagreinum þessi óheiðarleiki viðgengst. Á grundvelli hvaða lagagreina getur hv. þm. Vilmundur Gylfason haldið uppi þessu siðleysi, svo að við hinir, sem viljum heiðarlegri vinnubrögð hér í þinginu, sem viljum heiðarlegri vinnubrögð hver gagnvart öðrum, sem viljum hafa á hreinu hverjir eru fulltrúar hvers, getum þá búið okkur undir að flytja frv. um breytingar á þessum tilteknu lagagreinum?