01.03.1983
Sameinað þing: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2371 í B-deild Alþingistíðinda. (2118)

Um þingsköp

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt, sem ekki skal verða langt í þessari umr., með því að bera blak af mínum gamla flokki. Aumur kann hann að vera orðinn, en ekki svo aumur að hann þurfi málflutning af því tagi og málflytjanda af því tagi sem hér síðast kom í ræðustólinn. Og sé um slíkan óheiðarleika og slíkt siðleysi að ræða sem hann sennilega 20 sinnum endurtók í sinni ræðu áðan, geri ég ráð fyrir að þeir sem teldu sig eiga um sárt að binda mundu nálgast mig með ósk um að nefndarskipan væri breytt. En málið er einfaldlega að það hefur ekki verið gert. Ég vil lýsa því hér og nú, að ef um slíkar óskir hefði verið að ræða eða verður að ræða frá þeim 9, til viðbótar sjálfum mér, sem til þessara tveggja nefnda kusu verður breyting gerð.

Hæstv. forseti hefur lýst lagalegum forsendum. Mál af þessu tagi koma upp með ýmsum hætti. Þau koma t. d. upp með þeim hætti, að menn spyrja um alþm., hvern sem er, sem kosinn er til þings fyrir ein samtök, en segir sig úr þeim og jafnvel þannig að gengið er til liðs við önnur samtök: Á hann að segja af sér þingmennsku? Um þetta væri miklu eðlilegra að spyrja en um þau mál sem hv. þm. hefur spurt. Um þetta hefur verið spurt m. a. af opinberu fjölmiðlafólki. Því hefur verið svarað, og því hefur áður verið svarað af öðrum einstaklingum, sem staðið hafa í sömu sporum og ég hef staðið. Því hefur verið svarað með skírskotun í samviskuákvæði stjórnarskrárinnar, að þm. er umfram allt og ofar öðru bundinn samvisku sinni.

Sú kosning, sem fram fór, hvort sem um er að ræða alþingiskosningar í des. 1979 eða nefndarkosningar í okt. 1982, endurspeglar auðvitað stöðuna eins og hún þá var. Ég greiddi auðvitað atkv. allmörgum öðrum þm. úr Alþfl. til setu í nefndum. Þó að ég hafi síðan skipt um samtök hvarflar ekki að mér að fara að afturkalla atkv. mitt. Skárra væri það! Það atkv. gilti þá er það var greitt.

Hitt er svo annað mál, að ef til þess kæmi, og þá er ég aðeins að lýsa persónulegri skoðun minni, sem kemur auðvitað lagabókstaf ekkert við, ef til þess kæmi, sem ekki hefur komið til, að þeir hv. þm. í Nd., sem mundu þá vera sex og ég sá sjöundi, sem atkv. greiddu með þessum hætti, óskuðu eftir því að ég viki úr þeim nefndum, til þess að aðrir úr þeirra röðum gætu tekið þar sæti, þá væri það aldeilis sjálfgefið mál og sjálfsagt. En eftir slíku hefur ekki verið leitað. Þetta er kjarni málsins. Aumur kann Alþfl. að vera, en svo aumur er hann ekki að hann þurfi hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson til að tala sínu máli í þessu máli eða öðrum.

En ég vil, herra forseti, vekja athygli á því, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson er, eins og menn vita hér, maður sem hugsar smátt. Miklu stærri hugsun í þessu efni væri sú, að þm., sem talist hefur til samtaka og er kosinn á vegum samtaka, en segir skilið við samtökin og jafnvel gengur til liðs við önnur samtök, eins og gerst hefur í þessu tilfelli, segði af sér þingmennsku. Ef það væri rismeiri þm. sem spurt hefði utan dagskrár í dag hefði hann vitaskuld verið að spyrja slíkrar spurningar, en ekki þeirrar lítilfjörlegu og lágkúrulegu spurningar sem hann spurði þar sem hann taldi sér sæma að nota orðið siðleysi 20 sinnum. Þeirri spurningu. sem að vísu hefur ekki verið óskað svara við hér, væri miklu nær að svara. Kjarninn þar, eins og í öllum þessum efnum, er sá, að þm. er bundinn samvisku sinni fyrst og fremst og það er ofar skilningi á t. d. formlegum samtökum manna, sem raunar er ekki gert ráð fyrir í t. d. stjórnarskrá. En látum það allt vera.

Kjarni málsins er þessi: að vitaskuld, þó að hér sé um leynilegar kosningar að ræða, er það á vitorði allra að menn kjósa til þingnefnda eftir flokkum. Ég er auðvitað kosinn til þessara nefnda af hv. þm. Alþfl. ásamt sjálfum mér. Við höfum verið sjö hér í Nd. Ég kaus þá og þeir kusu mig eins og gengur. Atkvæðatölur sýna þetta ljóslega og eru niðurstöður þeirra kosninga sem fram fóru í okt., miðað við þær aðstæður sem þá voru. Ég óska ekki eftir því að mitt eigið atkv. verði dregið til baka eða ónýtt með einum eða öðrum hætti. Það féll eins og sjá má á þessum tíma, miðað við þær aðstæður sem þá voru. En óski þeir hv. þm. í þessari deild sem eftir eru í Alþfl. eftir því að ég dragi mig út úr þessum nefndum, þó að lagabókstafur geri ekki beinlínis ráð fyrir því, eins og hæstv. forseti hefur lýst, er það sjálfsagt.

Og eitt enn, hv. þm.: Þegar fólk hefur starfað í samtökum hygg ég að það þekkist það vel innbyrðis að það sé vitneskja um það á báða bóga að ef eftir breytingu á nefndum hefði verið leitað hefði samkomulag orðið um það. Það er kjarni málsins. En eftir slíku hefur ekki verið leitað, enda hefur ekki af breytingum orðið. Ég fer ekki að lýsa neinum almennum samskiptum að því er þessi nefndarstörf varðar, en ég hygg að báðir aðilar geti staðfest að þau hafi verið í lagi og ekkert við þau að athuga. En ef mínir fyrri félagar óska eftir því að ég víki úr þessum nefndum, alveg burtséð frá öllum lagabókstaf, enda er hann aukaatriði í þessum efnum, mun það vissulega verða.