01.03.1983
Sameinað þing: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2373 í B-deild Alþingistíðinda. (2120)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það hefur verið vakin athygli á því af hæstv. forseta að í lögum um þingsköp er ekki að finna neitt ákvæði sem heimilar þm., sem sagt hefur sig úr þingflokki, að sitja áfram í nefndum fyrir hönd þess þingflokks. En það er heldur ekkert ákvæði sem bannar slíkt. Hér er því um gat í þingsköpum að ræða sem verður að laga. Það er merkilegt að í skjóli þess að þetta gat er fyrir hendi situr hv. þm. Vilmundur Gylfason áfram í þessum tveimur nefndum. Hann skákar í skjóli þessa tómarúms í lögunum og hefur hertekið nefndarstörfin á grundvelli þess.

Ég vil minna hv. þm. Vilmund Gylfason á það, að hér kom fram í þingsalnum í áheyrn alls þingsins fyrir nokkru síðan formleg ósk frá formanni þingflokks Alþfl. til hv. þm. Vilmundar Gylfasonar, að hann léti þingflokki Alþfl, í té öll þau gögn og allar þær upplýsingar og allar þær frásagnir um meðferð mála í þessum nefndum sem þar kæmu fram. Þetta heyrði allur hv. þingheimur. Nú spyr ég hv. þm. Vilmund Gylfason: Hefur hann gert það? Fyrst hann gerði það að sinni meginvörn hér áðan að engar óskir hefðu komið fram frá þingflokki Alþfl. til sín um þessi efni, þá vil ég minna hann á það, að hér var í þingsalnum borin fram sú formlega ósk, að hann léti Alþfl. í té öll þau gögn og upplýsingar sem fram kæmu á fundum þessara nefnda.

Nú má vel vera að ekki hafi verið haldnir margir fundir í þessum nefndum. Það skal ég ekkert um segja. En það væri fróðlegt að vita hvort hv. þm. hefur nú á þessari stundu látið Alþfl. í té þessi gögn.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson sagði hér áðan — (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að stytta mál sitt.) Já, ég skal gera það, hæstv. forseti, — að hv. þm. geri það upp við sjálfan sig, hvort hann nýtir sér þá lagakróka sem hér eru fyrir hendi. Það hefur verið upplýst að það er í skjóli þess að Alþfl. treystir á samvisku hv. þm. Ekki hefur siðgæði nokkurs manns verið jafnauglýst af honum sjálfum á undanförnum árum á Íslandi eins og hið svokallaða eigin siðgæði hv. þm. Vilmundar Gylfasonar. Þingflokkur Alþfl. hefur, eins og formaður Alþfl. hefur hér upplýst, greinilega treyst á það að hv. þm. ætlaði sjálfum sér það sama siðgæði og hann krefst af öðrum.

Þær upplýsingar sem hæstv. forseti gaf hér áðan gera það óhjákvæmilegt að athugað verði að flytja breytingar á lögum um þingsköp sem koma í veg fyrir það að þm. sem hafa ekki heiðarleika til að stíga skrefið til fulls, hv. þm. sem hafa ekki manndóm til þess, um leið og þeir segja skilið við flokk, að segja skilið við þær trúnaðarstöður sem þeir hafa verið kosnir í af viðkomandi flokki, geti hagnýtt sér heilt þing setu sína í nefndum þingsins og þannig komið í veg fyrir það að viðkomandi flokkur eigi þar nokkurn aðgang. Ég vona að þessi umr. hafi orðið hv. þm. Vilmundi Gylfasyni tilefni til umhugsunar um það, að þeir sem ætla sér að breyta siðgæði þjóðar ættu kannske að byrja á sjálfum sér.