01.03.1983
Sameinað þing: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2375 í B-deild Alþingistíðinda. (2123)

Um þingsköp

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vil aðeins andmæla því kröftuglega, sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér áðan, að hér væri um lítið mál að ræða. Hér er um prinsippmál að ræða og hér er auðvitað um samviskumál að ræða, sem við höfum heyrt. Hér er um það að ræða í stuttu máli, að maður er kjörinn til ákveðinna trúnaðarstarfa af ákveðnum samtökum. Hann segir síðan skilið við þau samtök. Þá hljótum við að spyrja: Hvaða rétt hefur hann þá til þeirra trúnaðarstarfa? Það má spyrja sem svo.

Og það er augljóst. Hann segir: Ég mun víkja úr þessum störfum ef eftir því verður leitað. Við höfðum ekki, sem erum í þingflokki Alþfl., frumkvæði um það að Vilmundur Gylfason hyrfi úr þingflokki Alþfl. Það hafði hann sjálfur. Þess vegna á auðvitað allt slíkt frumkvæði frá honum að koma. En það hefur komið í ljós, herra forseti, rækilega í þessum umr., að hv. þm. gerir töluvert aðrar kröfur í siðrænum efnum til annarra heldur en sjálfs sín.

Þessi hv. þm. sagði einu sinni setningu, sem varð fleyg og hefur oft verið vitnað til, að ákveðið athæfi væri löglegt en siðlaust. Það sem hann hefur gert í þessum efnum er auðvitað fullkomlega löglegt, en gjörsamlega siðlaust.