01.03.1983
Sameinað þing: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2379 í B-deild Alþingistíðinda. (2131)

115. mál, nýting rekaviðar

Flm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Á þskj. 118 hef ég leyft mér ásamt þeim hv. alþm. Páli Péturssyni og Sigurgeir Bóassyni að flytja till. til þál. um nýtingu og úrvinnslu rekaviðar og úrgangstimburs. Okkur flm. er að sjálfsögðu ljóst að till. þessi, ef samþykkt verður, veldur ekki neinum straumhvörfum í íslensku þjóðlífi eða skiptir sköpum fyrir það efnahagsástand sem hér ríkir og mörg mál. sem fjallað er um á hinu háa Alþingi, að sjálfsögðu þýðingarmeiri. Engu að síður teljum við að hér sé um þarft mál að ræða og engu síður athygli vert en margt annað sem hér ber á góma. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta framkvæma athugun á nýtingu og úrvinnslu rekaviðar og úrgangstimburs til iðnaðar og orkusparnaðar.“

Okkur flm. þessarar till. til þál. finnst fyllilega tímabært að fram fari ítarleg athugun á því, með hvaða hætti megi nýta rekavið og úrgangstimbur með tilliti til orkusparnaðar, aukinnar fjölbreytni í atvinnulífi, einkum til sveita, tekjuöflunar og gjaldeyrissparnaðar. Í grg. með þáltill. hefur því miður fallið niður brot úr setningu í prentun, þar sem við ræðum um að við flm. teljum eðlilegt að athugun þessi sé unnin sameiginlega á vegum landbrn. og iðnrn. Það er ekki getið um iðnrn. í grg. En við teljum eðlilegt að þessi tvö rn. vinni að einhverju leyti saman að þessari athugun, sem hér er lögð til, þar sem reki er í flestum tilfellum talinn til hlunninda á bújörðum og frekari nýting hans ætti að geta létt undir með landbúnaðinum, en á hinn bóginn getur einnig verið um verulegan orkusparnað að ræða og nýtingu á hráefni til iðnaðar.

Við allar byggingarframkvæmdir, stórar og smáar, þar sem hafður er sá hefðbundni byggingarmáli að slá upp steypumótum úr mótatimbri, fellur til meira og minna af úrgangstimbri sem að lokum hafnar á sorpeyðingarstöðum og er þar ýmist urðað eða brennt, oftast með ærnum tilkostnaði og til lítils gagns eða hagsbóta. Sömu sögu má sjálfsagt einnig segja hvað varðar úrgang frá hinum ýmsu trésmíðaverkstæðum. Þó er vitað að hluti þess úrgangs er þegar nýttur, og ánægjulegar eru þær fréttir að einstakar trésmiðjur hafa ekki þurft að kaupa orku til upphitunar um áraraðir.

Einhver rekahlunnindi munu vera á meiri hluta jarða er liggja að sjó. Um árabil hafa helstu afurðir úr rekaviði verið girðingarstaurar, en ekki nokkur vafi á að mikið af þessu rekatimbri er úrvalsviður sem efna má niður í planka og borðvið og nota síðan til smíða og hvers konar iðnaðar. — Þetta hef ég orðið var við á ferðum mínum um mitt kjördæmi, Norðurl. e., einkum á Melrakkasléttu. Þar hafa menn töluvert notað sér þessi hlunnindi og unnið þar ýmislegt úr rekaviði.

Einnig má nefna orkusparnað í þessu sambandi. Á því sviði er okkur nauðsynlegt að leita allra leiða og nýta alla þá möguleika sem tiltækir eru. Svonefndir trjálurkakatlar, sem brenna úrgangsreka, morviði og öðru slíku eldsneyti, eru nú að koma í umferð hér á landi. Þetta eru danskir katlar og eru 18–20 slíkir þegar í notkun hér og allmargir væntanlegir. Hefur notkun þeirra gefið mjög góða raun og líkað vel einmitt á þeim svæðum þar sem erfitt er um aðra orku jafnvel ekki rafmagn til staðar og menn hafa þurft að kynda upp með olíu. Þar spara þessir katlar nú þegar mikið fjármagn.

Því miður liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um magn rekaviðar á strandlengju landsins, hversu mikið rekur hér á land árlega, hversu mikil verðmæti hér er um að ræða, ef vel væri um hirt, hversu mikil hitaorka er fólgin í reka svo og úrgangi trésmíðaverkstæða, sorpi og fleira sem nýta mætti til upphitunar sveitabýla og fjarvarmaveitna í þéttbýli. Athugun sú, sem þáltill. gerir ráð fyrir, þarf að veita svör við þessum spurningum. Eðlilegt er að slík rannsókn eða upplýsingaöflun sé unnin af opinberum aðilum og í samráði við hagsmuna- og áhugaaðila. Margir þeirra hafa þegar sýnt þessum málum mikinn áhuga, svo sem Búnaðarfélag Íslands, einstök búnaðarsambönd og búnaðarfélög. Kaupfélag Norður-Þingeyinga á Kópaskeri og hreppsnefnd Presthólahrepps og fleiri aðilar hafa lýst áhuga á að taka þátt í frumkönnun á úrvinnslu rekaviðar á félagslegum grunni.

Þá hefur Búnaðarþing 1981 og fyrr ályktað um nýtingu rekaviðar. Hlunnindaráðunautur Búnaðarfélagsins, Árni G. Pétursson, hefur unnið mikið að þessum málum, safnað upplýsingum og hvatt til betri nýtingar þessara verðmæta.

Einstakir bændur hafa komið sér upp sögunaraðstöðu, í flestum tilfellum í mjög einfaldri útfærslu, og varla nokkurs staðar mun vera um fullnaðarúrvinnslu að ræða. Hitt er aftur á móti algengast, að engin sögun sé fáanleg í héraði og því drabbast niður reki í hrönnum á strandlengju landsins. Til athugunar kæmi að fá einstaklinga eða félagasamtök bænda til að taka að sér sögun og úrvinnslu í héraði. Má hér benda á að einfaldur sögunarbúnaður er ekki meira fyrirtæki en jarðvinnsluvélar ýmiss konar, og má því allt eins keyra um með sagarblað á milli bæja eins og herfi, plóg eða tætara.

Þetta hefur verið gert í smáum stíl. Ég veit dæmi um bændur austur á Héraði sem smíðað hafa slíkar hjólsagir og nota þær á dráttarvélum og einnig veit ég dæmi um að menn hafa verið að kaupa sér fullkomnari vélar til að geta unnið og nýtt þetta rekatimbur ennþá betur.

En ég vil í því sambandi minna á mikilvægi þess, að einnig verði samþykkt þáltill. nokkurra þm. Framsfl. um rafvæðingu dreifbýlis. Það er einmitt á ýmsum sömu stöðum og raforku vantar mest magn rekaviðar, t. d. á Melrakkasléttu, sem ég hef áður nefnt, en raforkan mundi auðvelda að nota aðra og betri tækni og auka möguleikana á því að nýta rekatimbrið og vinna ennþá meira úr því en nú er gert.

Samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið frá Iðntæknistofnun, hafa starfsmenn þar í þó nokkrum tilvikum fjallað um hugsanlega nýtingu úrgangstimburs. Langar mig í því sambandi að vitna í tvær skýrslur, sem ég fékk frá þeirri stofnun, þar sem fjallað er um hvernig hugsanlega megi nýta úrgangstimbur og rekavið til iðnaðarframleiðslu. Önnur þessi skýrsla fjallar um vinnslu grillkola. Þar segir í kaflanum um könnun hráefna, með leyfi forseta:

„Hráefni til grillkolagerðar eru hvers konar timbur, bæði harðviður og mýkri viður. Nota má allt niður í litla búta, sag og spæni til framleiðslunnar.

Árið 1981 voru flutt inn til landsins ca. 130 tonn af grillkolum. Til framleiðslu á því magni grillkola með 15–20% nýtingu þarf um 700–900 tonn af hráefni, trjáviði. Ef gert er ráð fyrir að markaðurinn á ári sé rúm 160 tonn má gera ráð fyrir að hráefnisþörfin verði 1000 tonn með 15% nýtingu. Þetta er það magn sem könnun okkar gengur út frá að þurfi til framleiðslunnar.

Við öflun hráefnis koma til greina þrjár leiðir: í fyrsta lagi afgangsviður verkstæða o. fl. af stór-Reykjavíkursvæðinu, í öðru lagi innlendur trjáviður úr skógum og í þriðja lagi innfluttur trjáviður.

Afgangsviður verkstæða. Við könnun á þessum hluta verkefnisins höfðum við samband við nokkur stærstu trésmíðaverkstæðin og trésmiðjurnar á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöður könnunarinnar eru að sex stærstu aðilarnir hafa ca. 400 tonn í grófum afgangsviði og sennilega má fá hjá þeim helmingi meira magn af fínna afsagi, sagi og spónum, ca. 800 tonn. Við gátum okkur þess til, að a. m. k. 35 minni fyrirtæki þessarar tegundar væru á höfuðborgarsvæðinu og magn afgangsviðar hjá þeim í heild væri um 1050 tonn af grófari tegundinni og helmingi meira af fínna afsagi eða ca. 2100 tonn. Við getum því reiknað með því að nægilegt hráefni fáist á þennan hátt.

Helstu ókostir hráefnisöflunar eru í fyrsta lagi þeir, að hráefnið, en það er að mestu leyti flutt sem sorp á haugana, er óflokkað eftir grófleika og yrði flokkun þess sennilega talsvert kostnaðarsöm.

Í öðru lagi má e. t. v. líta svo á, að söfnun hráefnis hjá hinum ýmsu aðilum um Reykjavík og Kópavog gæti orðið talsvert stór kostnaðarliður í hráefnisöfluninni. Að því er virðist væri hægt að afla um 1200 tonna af hráefninu hjá sex stærstu aðilunum og miðað við núverandi markað mundi þetta magn nægja til framleiðslunnar, en þessi leið mundi krefjast geymsluhúsnæðis vegna söfnunar hráefnis allan ársins hring.

Í skýrslu útgefinni af Reykjavíkurborg og hagsýslustofnun kemur fram að mikið magn af timbri, sennilega aðallega mótatimbri, safnast á haugana í Gufunesi ár hvert. Hægt er að gera ráð fyrir að heildarmagn þess timburs sé 2000–2500 tonn. Þetta magn er því nóg til að framleiða það magn af viðarkolum sem íslenskur markaður þarfnast. Sennilegast yllu þó naglar, vírar og aðrir aðskotahlutir og önnur efni, eins og sement og málning, ófyrirsjáanlegum erfiðleikum í sambandi við nýtingu á þess kyns hráefni.

Til greina kemur að nota innlendan trjávið til framleiðslunnar, og kemur þá til með að verða notaður viður sem fæst við grisjun á stærstu skógum landsins.“

Ég las hér tilvitnun í skýrslu Iðntæknistofnunar um vinnslu á grillkolum á Íslandi. Mig langar að vitna stuttlega í aðra skýrslu frá Iðntæknistofnun, sem fjallar um þilplötuverksmiðju á Suðurlandi, sem að vísu er ekki alveg ný, frá 1975, en þar kemur einnig fram að nýta mætti úrgangstimbur ýmiss konar í slíkri verksmiðju. Segir þar, með leyfi forseta:

„Ekki ættu að vera vandkvæði á því að ná því timburmagni saman sem til þarf. Miklu magni af timburúrgangi er árlega brennt eða hent. Er helst um að ræða spæni og afsögun frá trésmíðaverkstæðum, ónýtt mótatimbur, úr sér gengna bita og timburhús, grisjun á skógum, umbúðakassa og jafnvel rekatimbur.“

Ég vildi nefna þessar tvær skýrslur frá Iðntæknistofnun í sambandi við þessa þáltill., sem við flytjum hér, til þess að vekja athygli á að það eru örugglega ýmsir möguleikar sem til greina koma.

Samkv. samtali, sem ég hef átt við starfsmann stofnunarinnar, Hörð Jónsson, hefur hann greint mér frá athugunum stofnunarinnar á þessum iðnaðarkostum og ýmsum öðrum sem til greina kæmu við nýtingu úrgangstimburs. M. a. nefndi hann til viðbótar við það, sem áður er nefnt, svokallaðar hálmsementsplötur, sem bæði yrðu notaðar til milliveggjagerðar og hljóðeinangrunar. Í stað hálms væri hugsanlega einnig hægt að nota úrgangstimbur hvers konar.

Þessar rannsóknir Iðntæknistofnunar hafa sýnt að ýmsir nýtingarmöguleikar eru fyrir hendi. Það magn úrgangstimburs sem hér fellur til er miklu meira en þyrfti í þessar tvær framleiðslugreinar, sem ég hef sérstaklega gert að umræðuefni, og sýnir að möguleikarnir eru miklir.

Einnig mætti aðeins nefna það hér að væntanleg er skýrsla um trjákvoðuverksmiðju, sem einkum hefur verið nefnd í sambandi við Húsavík. vegna þess hversu Húsvíkingar hafa haft mikið frumkvæði um alla þá rannsókn og athugun í samráði við iðnrn. Er hugsanlegt að eitthvað af þessu timbri, sem til fellur hér hjá okkur. og rekavið eða rekatimbri mætti einnig nota eða nýta í sambandi við þá verksmiðju.

Herra forseti. Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þessa till. Ég vonast til þess að hún fái skjóta afgreiðslu hér í þingi því að alllangt er síðan hún var lögð fram, en ýmislegt orðið til þess að það hefur dregist að mæta fyrir henni. Ég vil að lokinni þessari umr. mælast til þess að till. verði vísað til hv. atvmn.