02.03.1983
Efri deild: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2392 í B-deild Alþingistíðinda. (2154)

155. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. meiri hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Í þessu frv. er lagt til að gerðar séu ýmsar breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þetta frv. er liður í endurskoðun sem fram fer á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Það var ákvörðun stjórnar lífeyrissjóðsins, sem skipuð er fulltrúum starfsfólks og hins opinbera, að gera tillögur um að þessar breytingar næðu fram að ganga áður en heildarendurskoðun væri lokið.

Í nefndinni komu fram upplýsingar um að stjórn lífeyrissjóðsins mælir öll með því að frv. sé samþykkt óbreytt og stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. að frátöldum einum stjórnarmanni, mælir einnig með því að frv. sé samþykkt óbreytt. Það kom hins vegar fram við umfjöllun nefndarinnar um málið að ein grein í þessu frv. er verulegt ágreiningsefni innan raða opinberra starfsmanna og þeirra sem að lífeyrissjóðnum standa.

Forsaga þess ágreinings er á þann veg, að eftir að lögin um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna tóku gildi 1963 kom fljótlega fram sú túlkun að lífeyrisgreiðslur skyldu miðast við það starf sem félagi gegndi á lokadögum starfsferils síns. Þessi skilningur hafði í för með sér t. d., að væri maður í hálfu starfi jafnvel í áratugi, en væri síðasta árið, jafnvel síðustu vikurnar, og e. t. v. síðustu dagana, á starfsferli sínum fluttur í fullt starf, þótt greiðslur hans í lífeyrissjóðinn hefðu í áratugi eingöngu miðast við hálft starf, skyldi hann engu að síður fá greitt eins og hann hefði verið í fullu starfi allan tímann. Á sama hátt hafði þessi skilningur í för með sér, að væri starfsframlag minnkað við lok starfsferils, t. d. síðasta árið í hlutastarf, mundu lífeyrisgreiðslur minnka að sama skapi.

Rétt er að geta þess, að þegar þessi skilningur kom fram fyrir um það bil tveimur áratugum munu fulltrúar fjmrn. hafa talið hann óeðlilegan á grundvelli lagagreinanna. Til nefndarinnar hafa einnig borist sjónarmið frá forsvarsmönnum eins af aðildarfélögum BSRB, Starfsmannafélagi ríkisstofnana. Þeir telja að í texta laganna sé ekki hægt að finna orðalag sem réttlæti þennan skilning. Engu að síður er það staðreynd, að um áraraðir hefur þessi skilningur verið framkvæmdur í reynd af stjórn sjóðsins. Þeir fulltrúar stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sem komu á fund nefndarinnar og mæltu eindregið með því að frv. yrði samþykkt óbreytt töldu að þessi skilningur fæli í sér gat í lagatextanum sem skapaði möguleika á því að menn nýttu sér möguleika sem væru í sjálfu sér óeðlilegir, vegna þess að lífeyrisgreiðslur ættu fyrst og fremst að miðast við það fjármagn sem greiðandi hefði látið í té á starfsferli sínum, það væri óeðlilegt að einstaklingur, sem greitt hefði t. d. hálft gjald í sjóðinn í áratugi, gæti með því að fá sig færðan, jafnvel síðustu vikurnar á starfsferli sínum, í fullt starf fengið fullar lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum. Það sjónarmið kom fram, að þessi skilningur væri mjög óheppilegur fyrir orðstír sjóðsins og álit opinberra starfsmanna og byði heim ásökunum um misnotkun þeirra á lífeyrisréttindum.

Á hinn bóginn kom það sjónarmið einnig fram hjá þeim, sem skipaði minni hl. í stjórn BSRB og nefndin kallaði einnig á sinn fund, að innan samtakanna væru starfandi margir einstaklingar, sem hefðu farið að líta á þennan skilning á lögunum sem réttindi. Þeir gætu undir lok starfsferils síns breytt starfsframlagi sínu í fullt starf og fengið lífeyrisgreiðslur í samræmi við það. Hér væri einkum um að ræða starfsmenn í stétt kennara og hjúkrunarfólks, sem æðimargir eru á starfsferli sinum í hálfu starfi um lengri tíma, sérstaklega á fyrri hluta og um miðbik starfsferils síns, en flytja sig svo í fullt starf á seinni hluta, jafnvel síðustu árum, starfsferils síns. Með þeim ákvæðum sem í frv. væru töldu þessir talsmenn að réttur væri tekinn af þessu fólki, sem það hefði reiknað með að hafa. Til nefndarinnar bárust ályktanir frá stjórn Kennarasambands Íslands og frá jafnréttisnefnd BSRB, þar sem því var mótmælt að þessi breyting yrði gerð á þessu tiltekna atriði og lagt til að tekið yrði inn í frv. ákvæði á þann veg að lögin mundu ekki breyta rétti sem eldri lög hefðu gefið.

Sá skilningur var látinn í ljós á þessari tillögu Kennarasambandsins og jafnréttisnefndarinnar, að hún gæti haft í för með sér að einstaklingar, segjum í kringum þrítugt nú, sem væru í hálfu starfi, ættu að halda þeim rétti jafnvel 35 ár í viðbót eða fram yfir árið 2010 að geta þá flutt sig í fullt starf og notið lífeyrisréttinda í samræmi við það. Aðrir töldu hins vegar að skapa þyrfti umþóttunartíma, þar sem þessi réttindi giltu um skamma hríð, en yrðu síðan afnumin.

Herra forseti. Ég hef hér rakið í stuttu máli þau mismunandi sjónarmið, sem bárust til nefndarinnar varðandi þetta eina atriði í frv. Um öll önnur atriði virtist vera samstaða þeirra aðila sem þau snerta og enginn ágreiningur. Ég hef hins vegar fjallað ítarlega um þetta atriði eitt vegna þess að nefndin var sett í þá erfiðu stöðu að hér er lagt fram frv. sem er niðurstaða samkomulags sem gert hefur verið í Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna og fulltrúar starfsfólks og ríkisvaldsins hafa báðir samþykkt. En til nefndarinnar berast eindregnar óskir og tillögur frá tilteknum aðilum innan BSRB um að breyta því samkomulagi, sem gert var í sjóðsstjórninni, á tiltekinn hátt. Nefndin kaus að senda þessar tillögur til stjórnar lífeyrissjóðsins. Okkur barst til baka svar frá stjórn lífeyrissjóðsins, þar sem hún leggur eindregið til að frv. sé samþykki óbreytt.

Niðurstaða nefndarinnar var sú, eins og fram kemur hér á þskj., að meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt, en áskilur sér rétt að flytja eða fylgja einstökum brtt., en minni hl. n., Kjartan Jóhannsson, skilar séráliti og flytur tvær brtt., sem hann mun gera grein fyrir hér á eftir. Önnur þeirra snertir þetta atriði, sem ég hef verið að fjalla um, en hin tengist ákveðnum galla í framkvæmd lífeyrisgreiðslna, sem flm. mun reifa.

Niðurstaða nefndarinnar var því sú, að meiri hl. hennar tók sem slíkur ekki formlega afstöðu til þess hvort hann vildi fylgja frv. óbreyttu eða styðja brtt. við þetta eina atriði, sem deiluatriði virtist vera innan samtakanna. Meiri hl. n. fannst erfitt að kveða formlega upp úr með það, hvort nefndin ætti að taka sér fyrir hendur að breyta hér á þinginu samkomulagi sjóðsaðila, sem þeir hafa gert samning um, eða verða við óskum tveggja aðila innan BSRB, jafnvel þótt ljóst sé að ýmsir aðrir aðilar innan samtakanna eru þar andvígir. Þess vegna varð niðurstaða n. að einstakir nm. hefðu óbundnar hendur um það sem og aðrir hv. alþm. í þessari deild.

Það er ljóst að verið getur mjög flókið mál fyrir Alþingi að taka til meðferðar samkomulag aðila úti í þjóðfélaginu um stofnanir eins og lífeyrissjóði, sem formlegir stjórnaraðilar í sjóðnum eru allir sammála um, og gera á því breytingar. Og það er ljóst, og ég tel mér skylt að geta þess hér að ýmsir forráðamenn BSRB hafa beðið mig að koma því á framfæri, að slíkt gæti skapað fordæmi, sem gæti í senn verið opinberum starfsmönnum til tjóns eða góðs og skapað vinnureglur í stjórnun lífeyrissjóða, sem á ýmsan hátt gæti gert samkomulag milli sjóðsaðila erfiðara.

Herra forseti. Það efni, sem ég hef' hér reifað, er því á margan hátt flókið. Það er flókið vegna þess að því er haldið fram, að sá skilningur, sem ríkt hefur í reynd, eigi sér ekki stoð í upphaflegum lögum, en hafi þó skapað rétt sem margir telji sig hafa gagnvart lögunum í dag. Það er verulegur ágreiningur innan samtaka opinberra starfsmanna um það, hvort þessi réttur eigi að haldast áfram um langan eða skemmri tíma eða hvort hann eigi að leggjast af með samþykki þessa frv. Eins og oft er í mörgum tilfellum er réttur eins tap annars í uppgjöri af þessu tagi.

Herra forseti. Meiri hl. fjh.- og viðskn. Ed. leggur til að frv. verði samþykkt, en í atkvgr. um brtt. hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til að fylgja þeim ýmist eða vera á móti.