02.03.1983
Efri deild: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2395 í B-deild Alþingistíðinda. (2155)

155. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, frsm. meiri hl. í n., reifaði þetta mál allítarlega, en ég tel samt rétt að fara um það nokkrum orðum til viðbótar.

Eins og kemur fram í nál., sem dreift hefur verið, komu fram tvö atriði að því er varðar þetta frv. sem greinilega virðast þurfa við lagfæringar. Hv. frsm. meiri hl. n. taldi að hér væri um flókið mál að ræða. Ég tel í rauninni að svo sé ekki. Ég tel að þegar Alþingi kemur auga á missmíð á lögum eða lagafrv. hljóti það að vera skylda Alþingis að taka á þeirri missmíð alveg án tillits til þess hvernig það lagafrv. hefur orðið til og hvort um það hafi verið gert eitthvert samkomulag milli aðila úti í þjóðfélaginu. Það hlýtur að vera hlutverk Alþingis að sjá til þess að réttsýni sé gætt.

Það kom greinilega fram í umfjöllun um þetta mál að forustumenn í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja margir hverjir, stór meiri hl. þeirra, töldu sig ekki geta svarað fsp. um breytinga öðruvísi en þannig, að þeir vildu láta það samkomulag standa sem þeir höfðu gert á sínum tíma. E. t. v. áttu þeir erfitt um vik að svara því öðruvísi en þannig, því að ef þeir hefðu svarað því játandi að þeir vildu gera breytingar hefði það náttúrlega þýtt að þeir samningar, sem þeir hefðu staðið í við fjmrh., héldu ekki að öllu leyti og fjmrh. gæti haldið því fram að þeir vildu ekki standa við gert samkomulag.

Þau atriði, sem hér um ræðir, varða annars vegar rétt fólks, sem hefur verið og er í sjóðnum, sem fram kemur í lagafrv. að mundi skerðast ef frv. yrði að lögum. Hins vegar varðar þetta mál greiðslu á lífeyri, þegar dráttur hefur orðið á greiðslu hans, og ég ætla að leyfa mér að rekja eilítið dæmi um þann þáttinn fyrst.

Önnur brtt. sem ég flyt varðar þetta atriði. Það er fyrri brtt. Hún er þannig:

„Verði óeðlilegur dráttur á greiðslu lífeyris eða leiðréttingum á greiðslu lífeyris skal lífeyrissjóðurinn greiða það sem á vantar með verðtryggingu. Skal verðtryggingin miðuð við hækkun á lánskjaravísitölu frá þeim tíma er upplýsingar, sem réttur lífeyrisgreiðslna byggist á, hefðu fyrst getað komið í hendur sjóðsins og til þess tíma er greiðsla fer fram.“

Það var eitt dæmi, sem rak á fjörur mínar, sem varð til þess að ég taldi nauðsynlegt að flytja nú þessa till. um breytingar á lögum um lífeyrissjóð: Hjá tilteknum einstaklingi kom það í ljós í nóv. eða des, s. l. að honum hafði verið vangreiddur lífeyrir allt frá 1. júlí 1977 eða yfir 51/2 árs tímabil. Þessi vangreiddi lífeyrir var greiddur að hluta þegar þetta upplýstist, þ. e. þannig, að hver sú krónutala, sem hafði verið vangreidd á hverjum tíma, var greidd með óbreyttri krónutölu. Mér reiknaðist svo til, að með þessum uppgjörshætti væri vegna verðgildisrýrnunar verið að hafa 90 aura af hverri krónu, sem vangreidd var frá því í júlímánuði 1977. Sú króna, sem menn skulduðu þessari öldnu konu frá 1977, var í rauninni greidd með tíeyringi vegna þess að ekki var tekið tillit til verðgildisrýrnunar. Og sú króna, sem menn skulduðu þessari konu frá því 1978, frá miðju ári, var greidd með 25 aurum.

Þegar uppgjörshátturinn er þessi, og það var sá uppgjörsháttur sem sjóðurinn tíðkaði, er augljóst að það er stórlega verið að hlunnfara aldrað fólk sem á þarna lífeyrisrétt. Svona óréttlæti er vitaskuld ekki hægt að líða.

Það sem meira er: Þegar lífeyrissjóður vangreiðir með þessum hætti hefur hann í rauninni meira ráðstöfunarfé, sem hann getur ávaxtað, en hann hefði ella. Augljóslega hefur hann meira ráðstöfunarfé en ella til ávöxtunar ef hann vangreiðir á einhverjum tíma, eins og átti sér stað í þessu dæmi.

Nú er það svo, að lífeyrissjóðir kaupa verðtryggð skuldabréf ríkissjóðs. Það er því eðlilegt að álykta, að þessi vangreiddi lífeyrir hafi verið ávaxtaður með einmitt kaupum á verðtryggðum skuldabréfum ríkissjóðs. Má reyndar líta svo á, að það væri vanræksla af hálfu sjóðsstjórnar ef hún ávaxtaði ekki ráðstöfunarfé sitt einmitt með þessum bestu kjörum, sem mögulegt er að hafa, þannig að það er ekki einungis, að hinn aldraði hafi verið stórlega hlunnfarinn, eins og í þessu dæmi, þar sem hann fékk tíeyring fyrir hverja krónu sem hafði verið vangreidd, heldur hefur lífeyrissjóðurinn með þessum uppgjörshætti beinlínis verið að hagnast á kostnað þessarar öldruðu konu, sem átti þennan lífeyrisrétt. Það er til þess að svona lagað komi ekki fyrir sem flutt er brtt. um verðtryggingu á lífeyri, sem vangreiddur er, og verðtryggingin sé miðuð við lánskjaravísitölu. Mér dettur ekki í hug að þetta sé stórmál fyrir lífeyrissjóðinn, en þetta getur verið stórmál fyrir þá sem lenda í því að lífeyririnn sé vangreiddur. Ég held satt best að segja að allir nm. hafi verið sammála því að þessa leiðréttingu væri eðlilegt að gera. Það leiðréttist þá ef svo er ekki.

Um hinn þátt málsins er það að segja, að það kemur fram í aths. við 2. gr. lagafrv. að um einhvern hluta þeirra, sem lífeyrisrétt eiga hjá opinberum starfsmönnum, muni eiga við að hag þeirra verði verr borgið með þeirri breytingu sem hér er lögð til. Það kemur beinlínis fram f grg. með frv. að hag ákveðins hóps opinberra starfsmanna muni vera verr borgið, hagur þess hóps muni verða lakari eftir samþykkt þessa frv. Þetta vekur menn vitaskuld til umhugsunar. Er það ekki svo, að einhver, sem hefur ráðið sig til ríkisins samkv. gildandi lögum um lífeyrisrétt, geti litið svo á að hann hafi gert samning við ríkið um að þiggja tiltölulega lág laun sem opinber starfsmaður gegn því að eiga nokkuð tryggan lífeyrisrétt? Gerir hann ekki ráð fyrir að þær reglur gildi sem eru og hafa verið í gildi þegar hann hóf sitt starf?

Nú hefur það verið framkvæmt svo í 20 ár, hvað sem lagastoðinni líður, að menn hafa hlotið lífeyrisrétt í samræmi við laun sín þegar þeir létu af störfum. Ég skal ekki fara nákvæmlega út í hvort það er miðað við seinustu vikuna, mánuðina eða árið, en auðvitað hefur það vakið tortryggni að menn gætu hækkað í launum, hækkað um launaflokk seint á starfsævinni og það hækkaði eftirlaunahlutfall. Það er engin brtt. gerð um það. Menn geta eftir sem áður, þrátt fyrir samþykkt þessa frv. hér, hækkað í launaflokki skömmu áður en þeir hætta störfum og fengið hærri lífeyrisgreiðslur út á það. Það hafa menn talað um sem gat í framkvæmdinni. Það er ekkert gert til þess að loka því gati í því frv. sem hér er til umr.

Frv. fjallar um það, að ef menn hafi verið í hálfum störfum einhvern hluta starfsævinnar, en fari síðan t. d. í fullt starf eða auki við sig starfshlutfalli á seinni hluta starfsævinnar, þá skuli mönnum ekki reiknast það, eins og hefur verið gert. Það er mjög auðvelt að búa til dæmi um hjúkrunarkonu, kennara eða einhvern annan opinberan starfsmann sem hefur verið 30 ár í störfum og er nú að nálgast það að fá eftirlaun. Við skulum segja að hann hafi verið 30 ár í störfum. Fyrstu 15 árin, til að hafa þetta einfalt, hafi hann verið í hálfu starfi. Þetta var kannske kennari, sem þurfti að hugsa um heimilið að einhverju leyti. Margar kennslukonur hafa nú haft þá reynslu og eru þess vegna í hálfu starfi til að byrja með. Síðan hækkar starfshlutfallið í fullt starfshlutfall. Við getum sagt að það hafi gerst fyrir 15 árum. Þessi aðili er við það að taka eftirlaun núna, t. d. um sextugt, 62 ára eða eitthvað slíkt. Nú gerist það á einni nóttu með samþykkt þessa lagafrv. að lífeyrisrétturinn verður ekki miðaður við þetta, sem hann hefur lifað við öll þessi 30 ár, sem hann hefur búist við öll þessi 30 ár eða a. m. k. 20 ár af þessum 30 árum, heldur lækkar úr því sem hann bjóst við og gerir ráð fyrir að fá, miðað við það starf sem hann er búinn að vera í í 15 ár, um fjórðung, lækkar um 25%. Nú á að taka starfshlutfallið yfir alla starfsævina. Það þýðir að eftirlaunagreiðslan til þessa aðila lækkar um fjórðung við samþykkt þessa lagafrv. (Gripið fram í.) Nei, það er ekki tekið fram. Það tel ég að menn verði að athuga og þess vegna verði menn að fara fram með gát í þessum málum.

Það er verið að skerða rétt sem menn hafa haft í 20 ár. Menn geta auðvitað deilt um það núna, hvort það eru réttar lagalegar forsendur undir því. En aðdragandinn var, eins og hv. formaður nefndarinnar lýsti, sá, að starfsmenn fjmrn. vildu ekki túlka lögin með þessum hætti, en opinberir starfsmenn vildu gera það og það var gert í 20 ár. Svo og svo margir opinberir starfsmenn hafa ráðið sig til starfa og haft réttindi í samræmi við þessa framkvæmd í 20 ár. Samkv. frv. eins og það liggur fyrir er með einu pennastriki strikað yfir þann rétt. Menn geta haft allar skoðanir á því hvað sé sanngjarnt eða réttlátt í þessum efnum, en sá starfsmaður, sem hefur búið við þetta í 20 ár, hlýtur að geta haldið því fram að það sé í rauninni verið að brjóta á honum samning, hann hafi ráðið sig við þessi skilyrði, hann hafi gert ráð fyrir þessu. Sumir tala um að þetta sé að sumu leyti hliðstætt vátryggingarsamning. Ekki getur vátryggingarfélagið bara breytt iðgjaldinu, þegar þú ert búinn að borga iðgjald í þetta og þetta mörg ár, jafnvel þó að iðgjöldin hafi verið of lág hjá vátryggingarfélaginu, sem mundi þá vera það sem hér ætti við.

Það hafa líka komið fram efasemdir um það í nefndinni, og það var reyndar hjá hæstv. forsrh., að það stæðist lagalega að taka af mönnum rétt sem til hafi verið stofnað og hafi gilt í svona langan tíma. Ég skal ekki fjalla um lagalega hlið málsins. Ég ætla bara að fjalla um það sem manni virðist eðlilegt og sanngjarnt og hvernig þetta kemur niður á fólki. Ég horfi t. d. á mann sem á ekkert langt í að fara að taka lífeyri. Síðan er lífeyririnn, sem hann býst við að fá, lækkaður um t. d. 25%, eins og auðvelt er að búa til dæmi um, og það er hægt að búa til dæmi um hverja aðra prósentu sem manni sýnist, og þá finnst mér að menn hljóti a. m. k. að fara fram með mikilli gát.

Það er af þessum sökum sem ég flyt brtt. um ákvæði til bráðabirgða. Kannske er það ekki nógu strangt, en það er um aðlögunartíma upp á sjö ár. Fyrsta setningin er orðuð svo:

„Þeir, sem orðnir voru sjóðfélagar fyrir gildistöku laga þessara og eiga betri lífeyrisrétt samkv. eldri ákvæðum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, skulu halda honum.“

Þetta var í rauninni það sem fulltrúar starfshópa af þessu tagi, eins og stjórn Kennarasambands Íslands, samþykktu að óska eftir með öllum atkv. gegn einu, gegn atkvæði þess manns sem var búinn að binda sig í stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja við samningagerðina við ríkið. Þetta vildu þeir fá, að þeir sem fengju réttinn fengju að halda honum. En ég geng að vísu ekki alveg svona langt, því að í næstu setningu segir:

„Það telst ekki skapa rétt samkv. eldri lögum í þessu sambandi, að starfshlutfall sjóðfélaga hækki eftir að 7 ár eru liðin frá gildistöku laga þessara.“ — Það er sem sagt sjö ára aðlögunartími.

Hugmyndin er líka sú, að eftir að sjö ár eru liðin og menn hafa lifað við að þetta væri svona væri mönnum auðveldara að greiða þá upp lífeyrisrétt aftur fyrir sig eða eitthvað slíkt, menn hefðu fengið að aðlaga sig hinum nýju aðstæðum.

Mér finnst þetta alls ekki flókið mál. Mér finnst það liggja beint við hvað í frv. felst. Það stendur í því sjálfu í aths. að það eigi að taka rétt af mönnum, þeir muni standa verr. Ég tel að það sé nauðsynlegt að fara fram með gát og þess vegna þurfi aðlögunartíma, sem hér er lagt til að sé sjö ár.

Mér finnst þetta heldur ekkert flókið gagnvart Alþingi. Þegar það uppgötvar að einhvers staðar í þjóðfélaginu hefur verið gert samkomulag, sem er svona gallað, hlýtur Alþingi ekki bara að beina athyglinni á stjórn þess sjóðs, forustumennina, sem gerði þetta samkomulag, það hlýtur að taka allan hópinn með í reikninginn, hlýtur að horfa á fólkið, sem verður fyrir þessu áfalli, ef lögin verða samþykkt óbreytt. Alþingi hlýtur að taka tillit til fólksins, sem verður fyrir þessu áfalli, ef frv. yrði samþykkt óbreytt, og reyna að vernda rétt þess og skapa ekki vandræði í þjóðfélaginu út af því.

Ég hef rætt við fulltrúa þessa hóps, og þó að hér sé ekki gengið eins langt og hann leggur til hef ég trú á því að þetta muni verða ásættanlegt fyrir þann hóp fólks. Það þarf enginn að segja mér að BSRB ætli bara að hafna þessu samkomulagi, ef þessar tvær leiðréttingar eru gerðar. Það þarf enginn að segja mér það. Þess vegna legg ég eindregið til að þessar tvær breytingar verði gerðar og þar með verndaður réttur þessa gamla fólks, sem er á leiðinni að taka lífeyri og hefur búið við það að þessi ákvæði giltu, og hins vegar þess hóps, sem ég gat um í upphafi að verður fyrir því að lífeyrir er vangreiddur eins og framkvæmdin er núna. Það verði hætt að borga mönnum með tíeyringi t. d. fyrir krónu, sem menn skulda, og vangreiðsla sé verðtryggð, það sem vanrækt er að greiða sé þó a. m. k. verðtryggt. Það er ekki einu sinni farið fram á vexti.