02.03.1983
Efri deild: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2402 í B-deild Alþingistíðinda. (2158)

30. mál, heilbrigðisþjónusta

Helgi Seljan:

Herra forseti. Í örstuttu máli vil ég gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hef hér á. Af eðlilegum ástæðum treystir nefndin sér ekki til að hreyfa við þeirri viðkvæmu grein sem snertir heilsugæsluumdæmi og stöðvar umfram það sem í frv. var gert. Ég skil þá afstöðu, enda var ég í þeirri nefnd sem undirbjó frv. og þekki vel að þar er vandi nokkru um að þoka. Sjálfur hef ég ásamt öðrum þm. Austurl. flutt frv. hér aftur og aftur um tveggja lækna stöð á Eskifirði. Í þessu frv. er það ákvæði komið inn. Því ber að fagna. Í grg. segir svo um þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Gert er ráð fyrir H2 stöð á Eskifirði í stað Hl, enda fólksfjöldi á svæðinu orðinn það mikill að spurningin er um það hvort gera eigi Reyðarfjörð að H1 eða Eskifjörð að H2 í stað Hl, en seinni leiðin er valin hér.“

Með tilliti til þessa óskuðu Reyðfirðingar eftir breytingu í samræmi við síðasta hlutann sem þarna var í vitnað, þ. e, að H1 stöð verði á báðum stöðunum, Eskifirði og Reyðarfirði. Ég skil þessa ósk mætavel því ævinlega hefur framkvæmdin varðandi H2 stöð á Eskifirði verið bundin því í hugum Reyðfirðinga að annar læknir stöðvarinnar væri búsettur á Reyðarfirði, enda sjálfsagt öryggis- og réttlætissjónarmið. Það atriði var líka jafnan lagt til grundvallar og tekið skýrt fram í frv. flutningi okkar þm. Austurl. hér í þessari hv. deild. Nú óttast sveitungar mínir auðvitað að þrátt fyrir ákvæði um tveggja lækna stöð á Eskifirði verði hvorugur læknirinn búsettur á Reyðarfirði, auk þess sem þeir óttast að uppbygging nauðsynlegrar aðstöðu á Reyðarfirði geti dregist lengur fyrir bragðið.

Minn fyrirvari nú er þessu tengdur. Og ég hygg að ég tali fyrir munn allra þm. Austurl. þegar ég áskil mér allan rétt til að taka þetta mál upp að nýju í ljósi reynslunnar. Í fyrsta lagi hvort búseta annars læknisins eftir breytinguna verður á Reyðarfirði, svo sem ég tel sjálfsagt, og eins hvernig til tekst með uppbyggingu mannvirkja í heilsugæsluumdæminu.

Svo sem fram kom í n. þarf einnig að nást sem víðtækust eining heima fyrir um þessi mál, því vissulega er tregða á því að fjölga heilsugæslustöðvum þar sem fjarlægðir eru ekki meiri en þarna eru á milli staða. Ég skil afstöðu n. mætavel, m. a. með tilliti til ýmissa atriða annars staðar ef við verður hreyft á einum stað, en ítreka það að við þm. Austurl. teljum okkur skylt að fylgjast fast með framkvæmd og taka málið upp að nýju hvenær sem er, ef ekki er tryggt að sem best jafnræði ríki á milli íbúa þessara staða hvað varðar öryggi og þjónustu alla svo og um nauðsynlega aðstöðu.

Ég geri hins vegar ekki á þessu stigi till. um breytingu á frv. og tel þar vissulega um mikinn áfanga að ræða, ef framkvæmd verður á þann veg sem ævinlega hefur verið efst í öllum tillöguflutningi okkar þm. Austurl. og sá tillöguflutningur hefur byggst á, þ. e. búseta annars læknisins á Reyðarfirði og eðlileg aðstöðuuppbygging Þar einnig. Á slíka framkvæmd skal treyst, en annars verður að taka málið upp á ný.