03.11.1982
Neðri deild: 7. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

28. mál, málefni aldraðra

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en vegna ummæla hæstv. heilbr.- og trmrh. við umr. um frv. um málefni aldraðra þann 1.11. s.l., þar sem hann taldi að ég hefði vefengt rétt hans til að undirrita reglur um að 10% af fjármagni Framkvæmdasjóðs færu til íbúðabygginga fyrir aldraða, þá vil ég aðeins segja að ég hef aldrei vefengt rétt hæstv. ráðh. til að setja reglur. Hins vegar sagði ég í framhaldi þess rökstuðnings, að fjvn. hefði ekki haft nægjanlegar upplýsingar og tíma til að fjalla um fyrstu tillögu sjóðsstjórnar til 5 ára, sem fjvn. mælti ekki með, og að umræddar reglur ráðh. um 10% ráðstöfun hefði átt að ræða við fjvn. áður en frá þeim yrði gengið. Þessa skoðun mína ítreka ég hér enn, þó ég hafi hins vegar séð í dagblöðum í gær að búið er að birta umsóknir til sjóðstjórnar eftir reglum sem undirritaðar hafa verið.

Ég sagði ennfremur að ég teldi að þessi úthlutun gilti aðeins fyrir árið í ár, 1982, en tillögur stjórnar fyrir árin 1983–1986 ættu að koma til endurskoðunar í samráði við fjvn. Hvort það heitir tillaga næstu 5 ár eða 4 ár skiptir ekki meginmáli. Aðalatriðið er, að mínu mati, að fullt samkomulag sé um meðferð þessa mikilvæga máls. Á það vil ég leggja þunga áherslu.

Eins og ég tók fram við umr. 27. okt. s.l. gekk fjvn. ekki frá umsögnum um tillögu sjóðsstjórnar frá því í apríl 1982, heldur sendu einstökum nm. aths. sínar til heilbrmrn Á fyrsta fundi fjvn. nú í haust var óskað eftir upplýsingum um úthlutun úr sjóðnum í ár. Sjóðurinn sendi umbeðnar upplýsingar til fjvn. 21. okt. s.l. Segir í bréfi stjórnar sjóðsins: „Hjálögð er umbeðin skrá yfir úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra á árinu 1982. Rétt er að taka fram, að nú er ljóst að ráðstöfunarfé sjóðsins verður minna en áætlað var þannig að hluti af framlagi til B-álmu flyst yfir á næsta ár. Að öðru leyti hefur sjóðurinn nú þegar staðið við allar skuldbindingar sínar.“

Það kemur fram í þessu yfirliti að sjóðurinn hefur úthlutað til 16 aðila, en synjað 13 aðilum eins og áður hefur komið fram við þessar umr.

Ég vil enn undirstrika mikilvægi Framkvæmdasjóðs aldraðra og einnig að ég er sammála þeirri stefnu, að vissan forgang að fjármagni úr sjóðnum þurfi B-álman við Borgarspítalann að hafa og hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Þar er þörfin brýnust og þar þarf að ljúka framkvæmdum sem fyrst. En ég vil að gefnu tilefni vitna til 6. og 7. gr. reglugerðar um sjóðinn, sem undirrituð er af hæstv. ráðh. 3. febr. 1982. Í 6. gr. stendur:

„Dvalarstofnanir fyrir aldraða samkv. reglugerð þessari eru:

a) Hjúkrunarheimili til langdvalar og/eða dagvist fyrir aldraða.

b) Sjúkradeildir með aðstöðu fyrir öldrunarlækningar og göngudeildir hannaðar á hliðstæðan hátt og almennar sjúkradeildir.

c) Íbúðir, sérhannaðar fyrir þarfir aldraðra, byggðar á félagslegum grundvelli.

d) Dvalarheimili aldraðra með íbúðarherbergjum og snyrtingu ásamt aðstöðu fyrir tómstunda- og félagsstarfsemi fyrir vistmenn.“

Hlutverk sjóðsins samkv. 7. gr. reglugerðarinnar er að „fjármagna byggingar ríkisins vegna stofnana fyrir aldraða, sbr. 6. gr. stafliði a), b) og d).

2) Að veita sveitarfélögum framlög til að kaupa eða byggja húsnæði fyrir aldraða, sbr. 6. gr. stafl. c) og d).

3. Að greiða hlutdeild ríkissjóðs, sbr. 34. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 57/1978, í byggingum sveitarfélaga á stofnunum fyrir aldraða, sbr. 6. gr. stafl. a) og b), enda greiði ríkissjóður framlag beint í Framkvæmdasjóð, sbr. 2. tölul. 5. gr.

4. Að veita framlög til samtaka eða einstaklinga vegna bygginga fyrir aldraða, sbr. 6. gr. stafl. a), b), c) og d).“ Þessu til viðbótar má geta þess, að í 8. gr. reglugerðarinnar stendur:

„Ráðh. gerir í samráði við fjvn. Alþingis og stjórn sjóðsins 5 ára framkvæmdaáætlun samkv. 1. gr.“ Herra forseti. Ég undirstrika það sem ég sagði í ræðu minni 27. okt. s.l. og las úr bréfi sem ég sendi rn., dags. 6. maí 1982. Ég tel að öll kjördæmi landsins eigi að vera inni í slíkri 5 ára framkvæmdaáætlun Framkvæmdasjóðs, þar sem augljóst er að alls staðar er knýjandi þörf og framkvæmdir fyrirhugaðar eða í gangi í svo til öllum kjördæmum til lausnar vistunarmálum aldraðra. Enn fremur tel ég að sveitarfélög, sem ekki eru í beinum tengslum við sjúkrahús, en eru að leysa vistunarmál aldraðra með byggingu sameiginlegra íbúða með þjónustuaðstöðu og í tengslum við heilsugæslustöð á staðnum, eigi að hafa nokkurn forgang að fjármagni úr sjóðnum.

Ég endurtek nauðsyn þess, að góð samstaða takist um skynsamlega og réttláta nýtingu þessa fjármagns í þágu . hinna öldruðu. Það er kjarni málsins. Að öðru leyti vil ég ítreka stuðning minn við þetta frv. í heild.