03.11.1982
Neðri deild: 7. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

55. mál, orlof

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þau eru undarleg vinnubrögð þessarar hæstv. ríkisstj. og þó undrast enginn maður lengur. Meira að segja saklausustu þm. stjórnarliðsins eru hættir að undrast. Ríkisstj. gefur út brbl. og lætur fylgja þeim yfirlýsingu vegna aðgerða í efnahagsmálum. Brbl. fjalla um stórkostlega skerðingu verðbóta á laun frá 1. des. og að auka hraða verðbólgunnar með hækkun skatta, með hækkun vörugjalds. Þessi brbl. voru til umræðu í blöðum og manna á milli allt fram til þess tíma að Alþingi kom saman. Þá bjuggust allir við því að með fyrsta frv. sem yrðu lögð fram hér á hv. Alþingi yrðu þessi brbl., sem eru móðurskip þeirra aðgerða sem ríkisstj. boðaði. En í staðinn fyrir að hænan komi inn í þingsalinn, þá er hún að dreita úr sér eggjum og nýlega útsprungnum ungum, hverju frv. á fætur öðru. Það sem skiptir mestu máli kemur ekki fram.

Hvað á að verða um veslings hænuna? Hver liggur á henni? Hér ber nýrra við! Hænur lágu á ungum hér áður fyrr, en nú eru alls konar gaukar farnir að liggja á hænum og það sínum eigin hænum og það fæst ekkert svar við neinu. Ef það á að fara að tala um alvarleg mál, þá flýja þeir ráðh. sem helst eiga að ræða þau og láta ekki sjá sig. Hvað á það að þýða hjá hæstv. félmrh. að flytja hér frv. um breyt. á lögum um orlof og fara fjálglegum orðum um hvað verið sé að gera stórkostlega breytingu, því að nú sé laugardagurinn ekki talinn lengur með sem vinnudagur, það sé lengt orlof sem nemi laugardögum, en það á að sleppa því að ræða um verðbótaskerðinguna? Ég spyr: Hvað kemur fólki frekast að gagni? Vill það fá lengingu á orlofi um þessar mundir, þegar svo er skert ráðstöfunarfé heimilanna að fólk hefur ekki ráð á því að taka sér þá orlofsdaga sem kostur er á? Hvort vill launamaðurinn frekar fá lengingu orlofs eða minni verðbótaskerðingu á laun? Er ekki rétt að aðalhænan komi fyrst fram þannig að þingið fái tíma til að fjalla um málið, spyrja aðila vinnumarkaðarins, spyrja hagsmunahópana, launþegana alla í landinu: Hvort viljið þið heldur lengingu orlofs, svona pappírslengingu, eins og ástandið er núna á frv. félmrh., eða stórfellda verðbótaskerðingu á laun, sem á að taka gildi eftir 1. des.? Ég býst við því að flestir muni núna svara á þennan veg: Okkur veitir ekki af að fá uppiborið meira við þá erfiðleika sem eru á rekstri heimilanna. Við teljum það meira virði, hygg ég að flestir muni segja. — En hér er sami leikurinn viðhafður og er alltaf leikinn hjá vinstri stjórnum, þ.e. að vera með eitthvað svona „fiff“ en láta alvarlega hluti bara liggja einhvers staðar, fela þá. Það þarf auðvitað að reyna að sætta suma menn við það. Það er ekki auðvelt að láta menn gleypa verðbótaskerðingu og það svona gífurlega skerðingu. En þá var boðin dúsa sumum mönnum, sem var lenging orlofsins, og þá áttu þeir eitthvað betra með að~leypa hina miklu verðbótaskerðingu launa.

Ég er þeirrar skoðunar, og ég hef talað við marga sem segja hið sama, að þetta frv. sé einskis virði á við að ekki væru skertar svo verðbætur á laun. Það er okkur miklu meira virði þegar ástandið batnar í þ jóðfélaginu, sem við skulum vona að verði fljótlega, ef þessi ríkisstj. klárar að drepast alveg, en hangir ekki svona meðvitundarlaus mánuð eftir mánuð, að þá verði farið að taka til hendinni í þjóðfélaginu eftir þessa aðgerðarlausu menn. Þá verða menn að ætla að eitthvað lagist og þá verði farið að tala af alvöru um þjóðmál en ekki um vinnubrögð eins og hér eru viðhöfð.

Það vantaði ekki að forsrh. var kotroskinn fyrr á árinu í stefnuræðunni og í fjölmörgum öðrum ræðum, þegar hann talaði um að það þyrfti að gera hér margvíslegar breytingar. Það var ekki nóg að gera þessar ákveðnu aðgerðir í efnahagsmálum og launamálum. — Eins og fram kemur í yfirlýsingu ríkisstj.: „Að undangengnum frekari viðræðum við aðila vinnumarkaðarins verði tekið upp nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun með hliðsjón af hugmyndum viðræðunefndar um vísitölumál þannig að verðbætur á laun verði greiddar samkv. nýju viðmiðunarkerfi eftir 1. des. 1982.“

Það er nauðsynlegt að frv. um þetta sjái dagsins ljós. Þó ekki endilega eftir 1. des. Það er ekkert síður nauðsynlegt að það sjái dagsins ljós fyrir 1. des. Við í stjórnarandstöðunni bíðum spenntir eftir þessu frv. Þetta er mikilvægt mál, sem skiptir miklu máli og við erum mjög opnir að ganga til samstarfs um þegar við sjáum það mál, ef það fær þær lyktir sem til er ætlast. En þetta hefur verið pókerspil á milli Alþb. og Framsfl. frá því löngu áður en brbl. voru gefin út. Annars vegar var Svavar Gestsson félmrh. með orlofslögin og láglaunabæturnar. Hins vegar voru Framsfl. og forsrh. með sína meðreiðarsveina með undirbúning að frv. um nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun. Alþb. neitaði að vinna í nefndinni um viðmiðunarkerfi á laun og þá svaraði Framsókn: Þá tökum við ekki þátt í undirbúningi að frv. um orlof og láglaunabætur. —– Og þannig stóð. En Alþb. sneri Framsókn niður eins og það gerir alltaf, því að Alþb. er sterki aðilinn í þessari ríkisstj., en Framsókn grútmáttlaus, lætur kreista sig og pína og kvelja. Það er rétt að maður heyrir frá þeim smávein öðru hvoru. Þeir gengu frá öllu sínu. Þeir hafa látið fara svona með sig þarna. Svo koma þeir fram á hátíðisdögum og segja, að niðurtalningin hafi bara gengið vel í fyrra, en dálitið verr núna í ár. Já, það verður ekki komið fleiri bótum á framsóknarflíkina. Það rúmast ekki fleiri. Svo gatslitin er hún og stagbætt að það væri synd að fara að koma þar einni bótinni á.

Ekki hefur verið betra ástandið síðustu dagana í vaxtamálum. Formaður bankaráðs Seðlabankans leggur blessun sína yfir vaxtahækkunina. Svo fer hann á þingflokksfund hjá Páli Péturssyni og þar samþykkir hann mótmæli gegn vaxtahækkuninni, sem hann hafði samþykkt, með Páli. Ráðh. vita og það vita allir, að Seðlabankinn verður að hlýða ríkisvaldinu í vaxtamálum. Svo koma þeir hver á fætur öðrum upp í Alþingi og segja: Ja, við vissum eiginlega ekkert um þetta, Seðlabankinn tók bara völdin af okkur og hann ræður. Í Suður-Ameríku og víðar er hafður her til þess að ræna völdunum, en hér virðist það ætla að verða Seðlabanki í staðinn. Það þarf engan her. Það dugar Seðlabankinn til þess, eftir því sem þeir sjálfir lýsa þessum aðgerðum, stjórnarliðarnir, bæði framsóknarmenn og Alþb.-menn. Ætli nokkur ríkisstjórn í lýðfrjálsu landi hafi sýnt jafnmikið geðleysi og aumingjaskap og þessi ríkisstj.? Ég held að hún finnist ekki. Ég held að það sé útilokað að finna hana.

Fjmrh., sem á að sitja í embætti, segir: Ég er á móti vaxtastefnu sem er í landinu. Og hann situr áfram. Hver getur ráðið því? Ræður seðlabankastjóri því hverjir eiga sæti í ríkisstj.? Nei, ekki aldeilis. En ríkisstj. getur ráðið hvort seðlabankastjórar sitja áfram, ef þeir hafa brotið af sér. (Gripið fram í: Hvað á þá að gera Matthías, reka þá úr bankanum?) Það á að láta þá hlýða. Hins vegar hefur Seðlabankinn ekkert gert annað en það sem er rétt í þessum málum og það vita allir. En geðleysi ráðh. er svo mikið að þeir þræta fyrir sínar eigin gerðir. Þeir eru búnir að hafa þessa tillögur Seðlabankans vikum saman. Þeir hafa alveg vitað hvað hefur verið að gerast. Síðan tekur Seðlabankinn ákvörðun. Þegar þeir finna hvernig á þessum málum er tekið verða þeir logandi hræddir, fara hver um annan þveran í sjónvarp og þræta fyrir barnið. Það er ekki stórmannlegt. Það á hver og einn að kannast við sin eigin börn, jafnvel þó þeir sitji í núv. ríkisstj.

Ég held að nú loksins sé mönnum farið að lærast að þessi stjórn er dauð, steindauð, en jarðarförin hefur ekki farið fram. Og það eru lög til um hvað lík mega standa lengi uppi. Það heyrir undir heilbrigðismál og hollustuvernd. (Gripið fram í.) Það er vika eða 8 dagar minnir mig. Þarna er ágætis burðarmaður, þó að ég leggi ekki endilega til að jarðarförin fari fram í Reykholti.

Hvað er það sem hefur skeð í þessu landi? Gengið hefur verið falsað allan tímann. Þeir ákváðu seinni part gamlársdags 1980 að nú skyldi verðbólga vera ákveðið prósentustig á árinu 1981 og því ekki tekið neitt tillit til hvað framleiðslukostnaður hækkaði á árinu. Þetta var ákveðið í kaffi seinni part gamlársdags. Og mikið gekk á og auðvitað voru gerðar nokkrar leiðréttingar. Það endaði á því að fresta varð upptöku á ræðu forsrh. tvisvar og svo var tímaskorturinn mikil'. að forsrh. varð að stytta ræðuna um helming, hann talaði ekki nema hálfan tímann. — Það var besta ræðan sem hefur verið haldin á vegum þessarar ríkisstj.

Áfram heldur þessi skekkja. Röng stefna í gengismálum leiðir af sér að ekki er hægt að taka upp rétta stefnu í vaxtamálum. Þar skilur á milli feigs og ófeigs. Seðlabankinn verður að skilja að vaxtabreytingin, sem átti sér stað núna undir rangri gengisstefnu, er verðbólguhvetjandi og ekkert annað og því eru þær aðgerðir í sambandi við verðbólgu sem talað er um í yfirlýsingu ríkisstj. gagnslausar á meðan hægri hendin veit ekki hvað sú vinstri gerir.

Ég tel að þetta frv. sé útilokað að afgreiða á undan hinum svokölluðu brbl. eða ráðstöfunum um efnahagsmál. Það frv. verður fyrst að koma fram hér í þingi, fá þinglega afgreiðslu. Það verður að meta það og vega. Er ekki réttara að draga úr skerðingu verðbóta á laun, en falla aftur á móti frá lengingu orlofs í bili til þess að launþegar í landinu fái meira á milli handanna við þær aðstæður sem núna eru í þjóðfélaginu? Um þetta vil ég ekki fullyrða neitt á þessu stigi, en ég vil að þetta sé metið og vegið mjög nákvæmlega og haft samráð við launþega almennt í landinu eða samtök þeirra. Því hefði verið nauðsynlegt að leggja lögin um ráðstafanir í efnahagsmálum fram strax eftir að þing kom saman. Það er útilokað annað en að þau lög verði þó nokkurn tíma til umfjöllunar hér í þingi og hafa verði samráð við fjölda aðila í þjóðfélaginu áður en Alþingi segir sitt síðasta orð í þeim efnum, ef menn vilja frið, ef menn vilja stefna að því að taka upp heilbrigða stefnu.

Þá langar mig að segja aðeins þessi orð að lokum: „Efnahagsástandið er svo alvarlegt, að áhrifamiklar aðgerðir af hálfu þings og stjórnar eru óhjákvæmilegar nú á næstunni. Árangur þeirra veltur ekki síður á framkvæmd en lagasetningu. Núverandi stjórnarsamsteypa er með öllu óhæf til að leysa þennan vanda og verður að fara frá. Þegar svo er komið, mun Sjálfstfl. tilbúinn að takast á við efnahagsvandann og skorast ekki undan ábyrgð á ráðstöfunum sem reynast nauðsynlegar.

Það var frá upphafi vega ljóst, að verulegur veikleiki var gagnvart efnahagsmálum með núv. ríkisstj. og stjórnarflokkum. Þessi veikleiki hefur hvað eftir annað komið fram. Í áramótagrein hæstv. forsrh. minntist hann á efnahagsvandann, sem fram undan væri, og taldi æskilegt, ef ekki nauðsynlegt, að sterk stjórn tækist á við þann vanda. Öllum er ljóst að núv. stjórn hvorki var né er sterk stjórn.“

Þetta er ekki mín ræða. Þessi kafli er úr ræðu eftir forsrh. Gunnar Thoroddsen, sem hann flutti 3. maí 1974, þegar vinstri stjórnin var að geispa golunni. Einkavinur forsrh., hv. 7. landsk. þm., gaf mér þessa ræðu um daginn. Því nefni ég þetta hér að ég minni á hvar þessi sami maður stendur nú. Hann stendur í þeim sporum að glíma við ennþá erfiðari aðstæður en vinstri stjórnin í maíbyrjun 1974. En hvað hefur breyst? Ja, mikið gerir ellin að.