02.03.1983
Neðri deild: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2419 í B-deild Alþingistíðinda. (2190)

221. mál, lánsfjárlög 1983

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég get fullyrt það, og þar með vonandi róað hæstv. ráðh., að það stendur ekkert á stjórnarandstöðunni að vinna að þessu máli og reyna að fá það afgreitt áður en til þingslita kemur. Meira að segja var í hádeginu í dag haldinn fundur í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar og sameiginlegur fundur nefnda beggja deilda til að hefja vinnu við þetta frv., sem lagt var fram á Alþingi í gær.

Mér reiknast til að frv. sé tæpum fimm mánuðum of seint á ferðinni. Það er, eins og hæstv. ráðh. sagði, vegna þess afbrigðilega ástands sem er í íslensku þjóðfélagi í dag. Vegna þess afbrigðilega ástands sem er í efnahagsmálum íslensku þjóðarinnar í dag, og það skal ég fúslega viðurkenna að er, tók það hæstv. ríkisstj. tæpa fimm mánuði, umfram þann tíma sem henni var ætlaður til þess, að leggja fram þetta frv. Og ef farið verður eftir því, sem heyrst hefur, að Alþingi ljúki störfum síðast í næstu viku, eru þm. ætlaðir tvisvar sinnum fimm dagar til að vinna að þessu máli, gera sér grein fyrir því og ræða það hér í þingi — málefni sem ríkisstj. þurfti, eins og ég sagði áðan, fimm mánuði til að koma sér saman um.

En þetta er ekki það eina sem þarf að víkja að þegar þetta frv. er rætt. Hæstv. ráðh. víkur að því að Alþingi muni vonandi vinna ötullega og koma þessu máli í gegn. Jafnvel hafi einn þm., hv. 1. þm. Vestf., haft orð á því að þm. yrðu að taka í taumana og semja frv. ef ríkisstj. ætlaði að heykjast á því. Ég vek athygli á því, að í lögum nr. 13 frá 1979, lögum um stjórn efnahagsmála o. fl., sem hæstv. fjmrh. stóð að að flutt var og samþykki, er eftirfarandi skýrt tekið fram. Í 7. gr. stendur, með leyfi forseta: „Með fjárlagafrv. ár hvert skal leggja fram áætlun, er lýsi í aðalatriðum meginstefnu í ríkisbúskapnum næstu þrjú árin eftir lok þess fjárhagsárs, sem fjárlagafrv. tekur til.“

Þá er ennfremur gert ráð fyrir að lögð skuli fram með fjárlagafrv. fjárfestingar- og lánsfjáráætlun og það frv. sem hér er til umr.

Á fundi fjh.- og viðskn. nú í hádeginu gerði ég fsp. til formannsins um það, hvort búast mætti við því að á meðan þetta frv. væri til umr. og umfjöllunar í fjh.- og viðskn. yrði lögð fram fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1983, eins og gert er ráð fyrir í þeirri grein sem ég vék að áðan. Formaður nefndarinnar gat ekki gert grein fyrir hvort fjárfestingar- og lánsfjáráætlun yrði lögð fram. Ég leyfi mér því að víkja þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvort búast megi við að það verði farið að lögum, eins og ég vék hér að áðan, og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1983 verði lögð fram.

Hæstv. ráðh. vék að vísu að því áðan að það væri dálítið erfitt að spá. Það er auðvitað alveg rétt að alltaf er erfitt að spá, og eins og maðurinn sagði: sér í lagi inn í framtíðina. Ég tala nú ekki um þegar önnur eins óvissa, óstjórn og stefnuleysi er í öllum málum hjá þjóðinni og er í dag. Út af fyrir sig er skiljanlegt að hæstv. ráðh. eða ríkisstj. treysti sér ekki til að leggja fram þessa fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, einfaldlega vegna þess að ríkisstj. veit ekki hvað í slíkri áætlun ætti að standa og hefur þess vegna tekið þann kostinn að leggja hana ekki fram.

Ég vek athygli á því, að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun var fyrst lögð fram í því formi sem hún er og hefur verið að undanförnu í desembermánuði 1975, þegar afgreiðsla fjárl. fyrir árið 1976 fór fram, og þá var jafnframt lagt fram frv. til lánsfjárlaga og það samþykkt áður en fjárlögin voru samþykkt. Ég beitti mér fyrir þessu þá sem fjmrh. Ég viðurkenndi fúslega hversu seint þessi áætlun væri fram komin og beitti mér fyrir því að á árinu 1977, þegar fjárlög fyrir árið 1978 voru til umr. á Alþingi, tókst að koma þessari áætlun fram við 2. umr. fjárl. þannig að þm. höfðu þó nokkurn tíma til þess að fjalla um þessi mál. Þetta var enn gagnrýnt. Til að staðfesta réttmæti þessarar gagnrýni aðila sem m. a. sitja í núv. ríkisstj. beitti ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar sér fyrir því á útmánuðunum 1979 — hún hafði þá ekki lagt fram fjárfestingar- og lánsfjáráætlun — að lögfest var að lánsfjáráætlun skyldi nú ekki lögð fram svona seint eins og í desembermánuði og hafði gerst í tíð ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar í höndum þess fjmrh. sem þá var. Nú skyldu vinnubrögðin verða allt önnur.

Það er fljótt hægt að fara yfir sögu. Lánsfjárlög hafa ekki verið afgreidd með fjárlögum síðan haustið 1977 og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ekki verið lögð fram fyrr en komið er fram á fjárlagaárið, að undanskildu því sem viðkom fjárlögum í fyrra. Og á þessu ári sýnist ráðh. telja skynsamlegra að gefa ekki út fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrr en árið er liðið, það sé miklu skynsamlegra, til þess að fá ekki einhverja lánsfjáráætlun sem ekkert sé að marka og ekkert hægt að byggja á, að gefa hana þá heldur út sem sögulegt plagg um það, hvílík þróun hefur verið í fjármálum þjóðarinnar og þá verði áætlunin fremur sögulegt plagg en stjórnunartæki fyrir þá sem fara með fjármál og efnahagsmál þjóðarinnar. Vonandi verður þetta ekki í framtíðinni niðurstaðan. Vonandi verður um að ræða breytingu á þessu og áframhald á því, sem ætlað var, að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun verði það stjórnunartæki sem til var ætlast og tókst að hafa á árunum 1976 og 1977 og árið 1978 að hluta til, þannig að hægt verði á sama tíma og fjárlög eru afgreidd að afgreiða frv. til lánsfjárlaga byggt á fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir sama fjárlagaár.

Þegar svo þetta frv., sem hæstv. ráðh. talaði fyrir áðan, er lagt fram, þá víkur ráðh. að því og segir að hér sé um að ræða frv. sem sé nokkuð vel unnið, það verði því kannske lítið um hækkanir á þessu frv. frá því að það hefur verið lagt fram og þess vegna megi nú búast við að hér séu vinnubrögð sem séu til fyrirmyndar. Þegar þetta frv. er hins vegar skoðað verð ég að segja það alveg eins og er að ég get ekki með nokkru móti skilið hvernig menn eru reiðubúnir að láta frá sér fara annað eins pappírsgagn og þetta er, með öðrum eins vitleysum og villum og í þessu frv. felast. Það mátti heyra í ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan að hann las upp úr aths. við frv. tölur sem ekki fá með nokkru móti staðist, jafnvel þegar komið er allt aftur á næstöftustu síðu þessa frv., þ. e. í fskj. 9 á bls. 15. Hann er sjálfur búinn að leggja fram skýrslu sem sýnir að það sem hann var að segja er löngu úrelt.

Ég vil vekja athygli ráðh. á því t. d., að hann er að lesa upp úr aths. að erlendar lántökur miðist við að skuldir aukist ekki að raungildi á árinu 1983. Hann segir: Föst erlend lán voru á meðalgengi 13 milljarðar 630 kr. á árinu 1982. Ef við flettum svo upp á töflu á bls. 15 stendur þar að löng erlend lán samkv. skýrslum Seðlabankans séu 14 milljarðar 700 millj. kr. Og ef við lesum skýrslu, sem kom frá Seðlabankanum, sem er dagsett 1. febr., er skýrt tekið fram að löng erlend lán í lok ársins 1982 færð á meðalgengi ársins 1982 séu 14 milljarðar 700 millj. kr. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvernig í þessu liggur að öðru leyti en því, að sá texti, sem hér er saminn, sé saminn fyrir svo löngu að aths. og uppgjör Seðlabankans sem hefur komið eftir áramótin, hafi bara ekki verið skoðað af þeim ágætu ráðherrum sem um þetta mál hafa fjallað og menn geri sér þar af leiðandi ekki grein fyrir því hvað hér er um að ræða.

Grundvallað á því sem segir í aths., þar sem talað er um 13 milljarða 630 og gert ráð fyrir 6% verðbólgu í viðskiptalöndum okkar, væri samsvarandi upphæð 14 milljarðar 448 millj. kr. Þegar hér er um að ræða 14 milljarða og 700 millj. geta menn reiknað út hvað 6% af því eru og þá breytist að sjálfsögðu heildartalan í samræmi við það.

Líka er hér sagt að heildarfjárhæðin, sem þetta frv. gerir ráð fyrir að verði tekin að láni á árinu 1983, sé 3 milljarðar 388.6 millj. samkv. fskj. 7, og þá er verið að tala um að í lánsfjárlögum fyrir árið 1982 var hliðstæð tala 2 milljarðar 255.7 millj. kr. og er hækkunin því 50.2% á milli ára. Ef enn er lesið í skýrslu Seðlabankans frá 1. febr. er þar tekið fram að alls er talið að innkomin löng lán hafi numið 3 milljörðum 550 millj. kr. og afborganir hafi verið 1 milljarður 270 millj., þannig að nettóaukning langra lána hafi verið 2280 millj. á meðalgengi ársins 1982 á móti 1720 árið 1981 reiknað á sama gengi. Þá spyr ég: Er í frv. þessu verið að tala um nettólántökur á árinu 1983? Samkv. því sem gert er ráð fyrir um ráðstöfun fjármagns í fskj. 7 er ekki gert ráð fyrir að þessar 3388.6 millj. kr. fari að neinu leyti til að greiða niður lán. Erlendar lántökur á árinu 1983 hljóta því að verða þessi upphæð plús allt sem þarf til að greiða niður lán og borga vexti.

Hér er um að ræða gersamlega ósambærilegar tölur. Þetta frv. leggur til að teknar séu að láni 3388.6 millj. Hér er um að ræða frv. til lánsfjárlaga. Við göngum út frá því að hér sé um að ræða nettólántöku, en ekki lántöku sem gerir ráð fyrir að greiða af lánum afborganir og vexti. Þá er borið saman við lánsfjárlögin 1982, sem áttu að sjálfsögðu að verða nettólántaka. Frv. verður að sjálfsögðu að bera saman við frv. sem ríkisstj. lagði fram á s. l. ári. Það hækkaði í meðförum Alþingis um hvorki meira né minna en 200 millj. kr. Þar er um að ræða 10% hækkun frá því að frv. er lagt fram og þar til það er afgreitt. Það var afgreitt nógu seint til þess að hægt væri að taka allt inn í það sem fjárlögin gerðu ráð fyrir. En ég spyr þess vegna hæstv. ráðh.: Er hér um að ræða frv. sem ríkisstj. hefur samþykkt? Ráðh. gefur mér strax merki um að svo sé.

Mér er ljóst af því sem í þessu frv. stendur og ég mun víkja að síðar að það er mjög óraunhæft. Ég gæti vel látið mér detta í hug að á meðan það væri til umfjöllunar í fjh.- og viðskn. ættum við nm. eftir að fá heimsóknir eins og á s. l. ári, þegar næstum hver einasti aðili, sem þurfti á aðstoð eða einhverju því fé að halda sem þetta frv. gerði ráð fyrir, kom til þess að leita eftir einhverri leiðréttingu og lagfæringu. Þá var á pappírnum ekki samþykki að hækka niðurstöðutölurnar nema um 200 millj., en þegar við svo fáum greinargerð Seðlabankans um innkomin erlend lán á s. l. ári er ekki um að ræða 2255.7 millj., heldur 350 millj. kr.

Allar þessar tölur eru grundvallaðar á sömu reikniforsendu og fjárlagafrv., þ. e. 42% verðbreytingu, sem gerði ráð fyrir að verðbólgan frá upphafi til loka yrði ekki nema um 32–33%. Nú stöndum við frammi fyrir því, eins og auðvitað hafði verið bent á af stjórnarandstöðunni á sínum tíma, að hér er um óraunhæfar forsendur að ræða, eins og áður hefur verið, enda alveg hægt að reyna að móta sér stefnu og gera síðan breytingar á milli ára á grundvelli stefnunnar, því að við erum að fjalla um 70% verðbólgu frá upphafi árs, þ. e. 100% meiri verðbólgu en reikniforsenda fjárl. gerði ráð fyrir. Nú eru þessar lántökuheimildir, sem hér er verið að sækja um heimild fyrir, byggðar á þessum tölum, sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir, og þá gert ráð fyrir verðbólgu upp á 30–35%. Þessar forsendur eru þegar löngu orðnar úreltar. Það er nánast verið að búa til skjal sem verði innan ramma þeirrar stefnu, sem reynt var að kynna á sínum tíma í stjórnarsáttmálanum, en menn eru að sjálfsögðu löngu búnir að gefast upp á að halda.

Í aths. frv. er talað um að að mati Þjóðhagsstofnunar gæti fjármunamyndun 1983 numið 25–26% af vergri þjóðarframleiðslu. Þetta liggur strax fyrir að getur ekki staðist. Það liggur í augum uppi þegar allar tölur eru byggðar á 35% verðbólgu, sem síðan verður 70%, á sama tíma og það er vitað að þjóðarframleiðslan dregst nokkuð saman.

Í lokaorðum almennra aths. við þetta frv. segir, með leyfiforseta:

„Staða þjóðarbúsins vegna skulda og greiðslubyrðarinnar veldur því m. a. að nauðsynlegt er að fjárfestingu 1983 verði stillt í hóf.“

Þegar þannig stillt er í hóf, með hvaða aðferðum er það gert? Það er ekki gert með því að taka raunhæft á málum, koma hlutum þannig fyrir að ekki verði um að ræða of mikla fjárfestingu. Það er ekki gert með því að taka þau verkefni, sem nauðsynlegust eru, og setja þau í fyrirrúm. Nei, það er einfaldlega gert með því, eins og ráðh. lýsti réttilega áðan, að beiðnir stofnana eru skornar niður. Tölurnar eru ýmist skornar niður um þriðjung eða um helming og þá skiptir engu máli þó um sé að ræða framkvæmdir sem þegar er búið að gera samninga um. Það skiptir heldur engu máli hvort um er að ræða yfirlýsingar eða loforð, sem ríkisstj. er búin að gefa, menn hafa byggt á og eru byrjaðir á framkvæmdum samkvæmt, heldur aðeins reynt að sýna að lántakan á næsta ári sé ekki að verðmæti meiri en lántakan á s. l. ári. Þessar tölur eru skornar niður og ramminn í útgjöldunum fenginn einfaldlega út frá, eins og hæstv. ráðh. sagði, 3500 millj., þegar vitað er að erlendar lántökur á árinu 1982 voru 3550 millj. kr., eins og kemur frá Seðlabankanum.

Ég get vikið hér að ýmsum atriðum í sambandi við fjármögnun með erlendum lántökum. Það væri mjög við hæfi að spyrja að því, hvort erlend lántaka vegna skipa upp á 190 millj. kr. væri nægjanleg til þess að standa við þá samninga sem þegar hafa verið gerðir. Ég gæti miklu frekar ímyndað mér að tvöfalda þyrfti töluna til þess að dæmið gæti gengið upp. Mér er ljóst að það er verið að veita ábyrgðir til innlendrar skipasmíði og ábyrgðirnar verða ekki veittar öðruvísi en menn fái tækifæri til að taka erlend lán til að halda þeirri vinnu og þeim framkvæmdum áfram sem í gangi eru. Ég gæti ímyndað mér að til innlendrar skipasmíði, sem hér er ætluð til erlend lántaka upp á 200 millj.. þyrfti ekki minna en 350 millj. til þess að standa við það sem þegar er búið að ákveða. Og þannig gæti ég horft á þau atriði, sem hér eru talin upp, á þau verkefni sem þegar er búið að ákveða, og þá gæti ég vel ímyndað mér að í staðinn fyrir 600 millj. í erlendri lántöku sé um að ræða ekki 700, ekki 800, heldur megi nálgast tvöföldun þegar raunhæft er horft á dæmið. Og þegar svona tölur eru settar niður á pappírinn verða menn að gera ráðstafanir til að stöðva eða til að breyta, en ekki setja niður tölu og segja að samkv. útreikningi með 6% verðbólgu erlendis verði lántakan samkv. þessum tölum innan þess ramma sem talið sé óhætt að miða við.

Við skulum gera okkur grein fyrir að erlendar lántökur á árinu 1982 voru með þeim hætti að svo er nú komið að nær 50% af þjóðarframleiðslunni eru í erlendum lánum og greiðslur afborgana og vaxta af löngum lánum voru á árinu 1983 24.5%. En hvað er nú þetta miðað við það sem hæstv. ríkisstj. ætlaði sér að gera í upphafi, ef við lesum nú stjórnarsáttmálann, sem gefinn var út 8. febr. 1980 og mér var afhentur einu sinni sér í ræðustólinn af hæstv. forsrh. árituðum af honum, auðvitað til þess að geta nú borið virkilega saman. þegar væri komið að leiðarlokum. við það sem sagt var í upphafi, þ. e. orð og efndir. Mig langar til að lesa, með leyfi forseta, upp úr 5. tölul. á bls. 6. Þar stendur um erlendar lántökur:

„Erlendar lántökur verði takmarkaðar eins og kostur er og að því stefnt, að greiðslubyrði af erlendum skuldum fari ekki fram úr um það bil“ — en það er víða sem það stendur í þessum stjórnarsáttmála — „15% af útflutningstekjum þjóðarinnar á næstu árum.“

Við deildum um þetta, forsrh. og ég, skömmu eftir að fyrsta fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. var lögð fram. Ég benti á að þá þegar væri byrjað að sveigja af og ekki gert ráð fyrir 25% í fjárfestingar, heldur 27%. Þá benti hæstv. forsrh. á að hér stæði „um það bil“ og það vissi náttúrlega hver maður að það gæti þýtt 10% af eða á og út frá því ætti þetta að vera 27. Við skulum bæta þessum 10% við og segja 16.5. því að um það bil 15 séu líka 16.5. Það hefði líka geta orðið 13.5 á hinn veginn, en er 16.5. Þegar hér er vikið að því að greiðslubyrðin er um 25% er orðinn nokkuð mikill munur. Við erum farin að nálgast tvöföldum á því hlutfalli af útflutningstekjum þjóðarinnar sem ríkisstj. taldi í upphafi að væri það æskilega og stefnt skyldi að af hennar hálfu.

Þetta hlutfall, sem ég er hér um að ræða, 24.5, er það hæsta sem um getur nokkurn tíma og kemur fram í grg. Seðlabankans að það var áður hæst árið 1969, 16.7%, og 1981, 16.4. Eru þær tölur þó ekki sambærilegar því að kringumstæður 1967, 1968 og 1969, þegar mikill samdráttur varð, voru allt aðrar en árið 1981.

Ég hef hér vikið að raunhæfni þeirri sem í þessu frv. er varðandi erlendar lántökur. Það sýnir okkur auðvitað að hér er stefnt í miklu hærri erlendar lántökur en stendur á pappírnum.

Þá er hin hlið málsins. Það er innlenda fjáröflunin. Með hvaða hætti er að henni staðið og hvernig eru þær tölur fundnar út?

Það kemur mér dálítið spánski fyrir sjónir, þegar ég les þetta frv., hvað stendur efst á bls. 6. en stór hluti af innlendu fjármögnuninni er í sambandi við skuldabréfakaup lífeyrissjóða. Það er gert ráð fyrir hvað varðar innlenda fjáröflun að um sé að ræða útgáfu á spariskírteinum upp á 200 millj. kr. Ég get látið mér detta í hug af reynslu 1982 að hér sé um töluvert mikla ofætlun í spariskírteinasölu að ræða. Um innheimtu umfram innlausn á endurlánuðum spariskírteinum má segja nákvæmlega það sama. Hér gæti því verið um að ræða allt að 100 millj. kr. mismun ef koma á dæminu saman. Til þess að halda erlendu lántökunum niðri í orði kveðnu eru þessar tölur hækkaðar. Hvað varðar verðbréfakaup bankakerfisins og viðlagatryggingar er ég líka sannfærður um að þar er um mikla ofáætlun að ræða.

Í fskj. 4 er rætt um skuldabréfakaup lífeyrissjóða og þar gert ráð fyrir að kaup lífeyrissjóðanna á skuldabréfum verði um 860 millj. Ég á von á að útkoma ársins 1983 sýni að þar sé um að ræða 200 millj. kr. minni skuldabréfakaup en gert er ráð fyrir.

Það sem ég hef vikið að er um það bil mismunur upp á 1 milljarð í sambandi við erlendar lántökur og í sambandi við kaup og fjármögnun á innanlandsfjármagnsmarkaði. Það væri ekki úr vegi að líta svo á, að þessi lánsfjárlög séu sett þannig saman að það sé 1 milljarður sem á skorti í raun, auk þess sem það skorti á heimildir til lántöku til að greiða niður afborganir og vexti, eins og gerðist á s. l. ári. En það vekur furðu mína, og ég vildi gjarnan spyrja ráðh. að því, sem hér stendur neðst á bls. 5, þar sem fjallað er um skuldabréfakaup lífeyrissjóða:

„Alls er stefnt að fjáröflun hjá lífeyrissjóðum að fjárhæð 860 millj. kr., þar af koma 85 millj. í hlut ríkissjóðs.“ — En svo kemur það sem ég vildi spyrja ráðh. um: „en fjallað er um skuldabréfakaup lífeyrissjóða í umfjöllun um 27. gr.“ Ég var að spyrja ráðh. um efstu línuna á bls. 6, „en fjallað er um skuldabréfakaup lífeyrissjóða í umfjöllun um 27. gr.“ Þegar svo umfjöllun um 27. gr. á næstu síðu neðst er lesin er ekki vikið einu einasta orði að skuldabréfakaupum lífeyrissjóða. Ég mundi gjarnan vilja spyrja ráðh. hvort það væri einhvers staðar annars staðar fjallað um skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna. Ég sé það að vísu ekki í umfjölluninni þarna. (Fjmrh.: Það er prentvilla þarna.) Þetta er prentvilla, segir ráðh. Þá eru margar prentvillur samankomnar í einni setningu.

Skýringin er sjálfsagt sú, sem lesa má út úr öllum textanum og tölunum, þegar þær eru bornar saman, að hér hefur verið ætlað að skýra hversu stórt hlutfall af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna ætti að ganga til ríkissjóðs. Á s. l. ári var talað um að lögfesta 40% , en af því sem ég hef lesið mig til grunar mig að það hafi ekki átt að láta sér nægja 40%, heldur hafi verið hugsunin að það skyldu verða tekin 45% af lífeyrissjóðnum til þess að fjármagna það sem annars er hér sagt á pappírnum. (GJG: Ýmsir borga 45.) Ýmsir borga 45, segir hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson. Það má vel vera að einhverjir geri það, og það er út af fyrir sig að mínum dómi ekki röng fjárfesting, nema síður sé, fyrir lífeyrissjóðina. En hitt kemur glögglega fram í þessari grg., að fjmrn. hefur nú átt í einhverjum erfiðleikum samt sem áður við að fá ráðstöfunarfé þessara sjóða. Það má vel vera að ræðumaður kannist við það. En grunur minn er nú sá, að hér eins og áður hafi menn ætlað að lögfesta slíkt. Ég tel að þá hafi verið skynsamlegt að taka grein út og skýra heldur þessa línu sem prentvillu. eins og ráðh. gerði áðan.

Mér er fullkomlega ljóst að þó að einstaka aðilar séu reiðubúnir að ávaxta fé í verðtryggðum bréfum frá ríkissjóði hefur samt sem áður verið og er tilhneiging sjóðanna sjálfra að ráðstafa fénu með nokkrum öðrum hætti. Á sínum tíma þótti töluvert í ráðist. 1977 að mig minnir, þegar ég beitti mér fyrir skyldu sjóðanna til að ráðstafa fjármagninu þannig að um verðtryggð útlán væri að ræða. Þá stóðu hér upp ýmsir þeir sem nú mæta með því sem hér er að gerast og mótmæltu slíku harkalega. Ég man m. a. eftir forvera hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, 7. þm. Reykv., sem þá sat hér á þingi, formanni verkamannafélagsins Dagsbrúnar, þegar hann stóð hér upp til að mótmæla því, sem þá var sett inn, að sjóðirnir skyldu ávaxta sitt fé með þessum hætti, en engin skylda hjá hverjum. Á þessu er töluvert mikill munur. Í fyrra tilfellinu var verið að tryggja fjármuni, í síðara tilfellinu er verið að gera kröfu til þess og lögfesta hver eigi að hafa forréttindi til þess fjármagns sem þarna er. Ég held þess vegna að sú tala, sem hér stendur. um skuldabréfakaup lífeyrissjóða, ég held að sú tala sem hér stendur um kaup á spariskírteinum og ég held líka að önnur fjáröflun á innlendum fjármagnsmarkaði standist ekki að fenginni reynslu 1982.

Ég hef hér vikið að þeim atriðum sem við fyrstu yfirsýn koma upp í huga minn þegar þetta mál er til umr. Hér stendur í fjölmörgum greinum: þrátt fyrir ákvæði þessara laga og þrátt fyrir ákvæði annarra laga. Það er skoðun mín að öll þessi ákvæði ættu heima inni í öðru frv. en lánsfjárlagafrv., einfaldlega til þess að menn geri sér grein fyrir að hér sé um að ræða frv. til lánsfjárlaga, en ekki frv. um undanþágur frá lagaákvæðum vítt og breitt um íslenska löggjöf.

Þá tölu um löng erlend lán, sem ég vék hér að áðan, er líka að finna í skýrslu fjmrh. um ríkisfjármálin 1982, sem hefði vissulega verið eðlilegt að taka til umfjöllunar að einhverju leyti. En ég vil taka fram, að mér finnst gott að sú skýrsla liggur fyrir til þess að alþm. fái tækifæri til að fjalla um og fá upplýsingar um ríkisfjármálin áður en ríkisreikningur kemur, sem oft kemur ekki fram fyrr en liðið er á árið, og þeirri venju, sem upp var tekin 1977, sé haldið.

Það er ljóst að samkv. þessu frv. er ætlað að afgreiða óraunhæfari lánsfjárlög en nokkru sinni fyrr. Það er í samræmi við önnur vinnubrögð núv. hæstv. ríkisstj. Ríkisstj. treystir sér ekki til að leggja fram fjárfestingar- og lánsfjáráætlun eins og lög gera ráð fyrir og því er þetta frv. gersamlega stefnulaust. Það eru engin markmið sett. Öllum fyrri yfirlýsingum hæstv. ríkisstj., einstakra ráðh.. í efnahags- og fjármálum er kastað fyrir róða og er kannske búið að kasta fyrir róða fyrir löngu. Það eru óraunhæft skornar niður á pappírnum erlendar lántökur. Sumar hverjar eru beinlínis samningsbundnar eða hefðu orðið að vera vegna fyrri loforða ríkisstj. Það er óraunhæft áætlað um innlenda fjármögnun til að ná þessu dæmi saman á pappírnum. Allar eru þessar tölur þar að auki grundvallaðar á röngum forsendum eins og fjárlögin, og veldur það að sjálfsögðu áframhaldandi óðaverðbólgu. Þær eru aðeins settar fram til að ná fram ákveðnu hlutfalli í fjármunamyndun af þjóðarframleiðslu og fá hagstæðari útreikning á greiðslubyrði svo og erlendum lánum, sem hlutfalli af þjóðarframleiðslu. Ríkisstj. er hér að fara fram á lántökuheimild til að láta kerfið sitt snúast í nokkrar vikur eða nokkra mánuði í viðbót, en treystist ekki til að setja fram stefnu í efnahags- og fjármálum, sem lög gera ráð fyrir og átti fyrir löngu að vera komin fram.

Það má vera, eins og ég gat um í upphafi, að þeir ráðherrar sem nú sitja í ríkisstj. hugsi sér að snúa dæminu við og áætlanir verði ekki lagðar fram af þeirra hálfu fyrr en árið sé liðið, þeir treysti sér ekki til að gera það fyrr. Eins og ég gat um í upphafi hefði hæstv. ríkisstj. átt að hafa tíma til að vinna þannig að þessum málum að hér á þingi þyrftu menn ekki kannske marga daga til að fá upplýsingar og fá vitneskju í sambandi við fjárfestingar- og lánsfjáráætlun og lánsfjárlög. En á fjh.- og viðskn.-fundi í hádeginu óskuðu þm. að sjálfsögðu eftir því að þeir aðilar sem annaðhvort hafa fjallað um þessi lánsfjárlög eða hafa þar einhverra hagsmuna að gæta væru beðnir að koma til viðtals við nefndina til þess að menn geti séð og sannreynt það, sem ég hér hef sagt, að um er að ræða óraunhæfasta lánsfjárlagafrv. sem lagt hefur verið fram af þessari ríkisstj. allar götur síðan 1978.