02.03.1983
Neðri deild: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2427 í B-deild Alþingistíðinda. (2191)

221. mál, lánsfjárlög 1983

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég legg megináherslu á að málið fái hraða ferð til fjh.- og viðskn. deildarinnar og vil alls ekki bæta hér neinu við, sem vekur upp umr.

Það voru nokkrar spurningar sem hv. þm. Matthías Mathiesen kom með áðan og ég mundi vilja gera þeim skil í fjh.- og viðskn. ellegar við 2. umr. málsins.

Ég viðurkenni að á einum stað má sjá misprentun í frv., þ. e. í athugasemdum við 1. og 2. gr. Skýringin, sem hv. þm. Matthías Mathiesen gaf á þessu. er alveg rétt. Það var inni í frv. ákvæði sem sneri að lífeyrissjóðunum, en þetta ákvæði var tekið út. Það er yfirsjón að menn hafa ekki tekið eftir því að vísað er til þessa ákvæðis í þessari athugasemd. Ákvæðin sem eru í gildi í lögum í dag um lífeyrissjóðina voru talin fullnægjandi að svo stöddu og því er ekki neitt ákvæði um lífeyrissjóðina í frv. eins og það liggur hér fyrir.

Hv. þm. benti líka á að þarna væri visst ósamræmi í því sem kæmi fram í greinargerð um upphæð langra erlendra lána annars vegar miðað við þá upphæð sem fram kemur í töfluviðaukanum á fskj. 9. Ég hygg að þetta séu sömu tölurnar, sem þarna er um að ræða, en þær séu reiknaðar á svolítið mismunandi forsendum. Ég hef því miður ekki getað náð sambandi við þá Seðlabankamenn til að skýra þennan mun. Það má vel vera að hann liggi einmitt í því, sem kemur fram í grg., að 6% verðbólga í viðskiptalöndum okkar sé tekin þarna inn í myndina. En ég þori sem sagt ekki að gefa á þessu stigi nákvæma skýringu á þessu misræmi, sem ég hygg nú samt að breyti engu um þá ályktun sem dregin er í greinargerðinni.

Það er rétt, sem hv. þm. tók fram, að á árinu 1982 hefur verið nokkuð farið fram úr við lántökur erlendis miðað við þá lánsfjáráætlun sem afgreidd var á s. l. ári. en það er gefin mjög nákvæm skýrsla um þetta í skýrslu fjmrh. um ríkisfjármálin 1982, sem dreift hefur verið hér í þinginu, og sé ég því ekki ástæðu til að fjölyrða um það. Ég vil þó aðeins fá að skjóta því að í framhjáhlaupi, að mismunurinn liggur aðallega hjá þremur aðilum. Í fyrsta lagi virðist Landsvirkjun hafa farið fram úr í lántöku. Í öðru lagi hefur Járnblendifélagið tekið 66 millj. kr. lán, sem ekki voru með í lánsfjáráætlun. Og í þriðja lagi hafa hitaveiturnar tekið lán umfram lánsfjáráætlun upp á 181 millj. Samtals gerir þetta tæpar 400 millj.

Ég vil benda á, að eftir að lánsfjáráætlun var afgreidd á s. l. ári voru samþykktar hér heimildir til Landsvirkjunar til aukinnar lántöku umfram það sem lánsfjáráætlun gerði ráð fyrir, þótt ég verði hins vegar að viðurkenna að Landsvirkjun hefur greinilega farið fram úr þessum heimildum báðum tveimur, sennilega af illri nauðsyn vegna þess að menn voru að keppast við að ljúka við Hrauneyjafossvirkjun og hún hefur reynst dýrari en ráð var fyrir gert. Sama gildir um Járnblendifélagið. Þar er um að ræða lántöku sem var formlega samþykki hér í þinginu eftir að lánsfjárlögin voru afgreidd. Þannig þarf engum að koma á óvart þó að nokkuð hafi verið farið fram úr við framkvæmd lánsfjáráætlunar.

Hins vegar bendi ég á það, að ef litið er á lántökur ríkissjóðs er niðurstaðan heldur í plús. Ríkissjóður hefur sem sagt tekið 57 millj. kr. minni fjárhæð að láni í A-hluta framkvæmdir en átti að gera samkvæmt lánsfjáráætlun. Aftur á móti hefur hann tekið 28 millj. kr. meiri upphæð að láni í B-hluta framkvæmdir. Heildarniðurstaðan er því sú. að hann hefur tekið 29 millj. kr. minni lán en ráð var fyrir gert. Hann hefur því staðið nokkurn veginn við það sem gert var ráð fyrir. En munurinn kemur fyrst og fremst fram hjá þessum þremur aðilum, sem ég nefndi, Landsvirkjun. Járnblendifélaginu og hitaveitum og svo hygg ég að atvinnufyrirtæki hafi tekið allverulega miklu meiri lán gegnum langlánanefnd en ráð var fyrir gert.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en ætla að koma með upplýsingar um þau atriði önnur, sem spurt var um, í meðferð málsins í fjh.- og viðskn.