02.03.1983
Neðri deild: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2433 í B-deild Alþingistíðinda. (2195)

213. mál, almannatryggingar

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja örfá orð í sambandi við frv. um fæðingarorlof, sem ég mælti hér fyrir.

Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir það sem hann sagði í þessum umr. Ég legg áherslu á það, að ég vona að ég hafi ekki misskilið hæstv. ráðh. og hann sé á sama máli og flm. um að það þurfi að gera leiðréttingu á þessum lögum og það sé ekki óeðlilegt að sú leiðrétting, sem gert er ráð fyrir, felist í þessu frv.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara að tefja þinghald með því að halda langa ræðu um þetta frekar en ég gerði í framsögu minni. Það er sannfæring mín og hefur verið frá fyrsta degi að þetta mál kom inn á Alþingi, 1980, eftir yfirlýsingu ríkisstj. í sambandi við kjarasamninga við verkalýðshreyfinguna, að hér væri um að ræða mál sem væri þess eðlis að leiðrétta þyrfti og það væri í hæsta máta óeðlilegt að allar konur hér á landi hefðu ekki sama rétt á fæðingarorlofi, bæði að tímalengd og upphæð fæðingarstyrks eða fæðingarorlofs. Þetta er bjargföst trú mín og ég hélt því fram við umr. 1980. Síðan hef ég verið að fylgjast með framkvæmd þessara mála.

Eins og ég rakti hér í framsögu hef ég fengið upplýsingar um hvernig þetta hefur verið í framkvæmd. Það hefur sífellt aukist óánægja í landinu með framkvæmd þessara mála jafnhliða því að Tryggingastofnun ríkisins, sem annast framkvæmd þessara laga. kvartar undan því og er í sífelldum vandræðum út af því. hvernig á að úrskurða ýmis deilumál, sem upp koma um réttindi fólks við þessa orlofstöku, sem er nákvæm staðfesting á þeirri gagnrýni sem ég hélt fram við lagasetninguna 1980.

Ég gæti rakið mörg dæmi um þetta, sem ég þekki. Persónulega hef ég fylgst með hvernig þetta óréttlæti virkar. Ég hef sjálfur fylgst með konu sem vann úti. Húm átti tvö börn. Hún sá að hún gat ekki samvisku sinnar vegna annað en verið heima og annast um uppeldi þeirra og hætti þess vegna í vel launuðu starfi á vinnumarkaðinum og fór heim og annaðist sín böru og sitt heimili. Síðan átti hún þriðja barnið. Þá fékk hún, eins og lögin gera ráð fyrir, aðeins 1/3 orlofsgreiðslu. Í sama stigagangi var önnur kona — vinkona hennar — sem hafði hinn háttinn á. Hún vann áfram úti, ekki fullt starf heldur óreglulegt starf, og setti sín börn á dagvistarstofnun. Hún átti einnig barn um svipað leyti og hin og tók sitt orlofsfrí, en fékk fulla greiðslu. eins og lögin gera ráð fyrir. Þarna var strax komið sláandi dæmi um þetta atriði málsins.

Ég tel ekki ástæðu til að rökstyðja þetta nánar. Ég er búinn að gera það í minni framsögu. Það kemur raunar fram í frv. Það kemur fram í tilgangi laganna. Það kemur fram í þeim rökstuðningi sem ég hef fylgt fram í sambandi við málið.

Ég hef einnig ástæðu til vegna orða hæstv. félmrh. að undirstrika þær hugleiðingar mínar, sem ég lýsti og eru til umhugsunar, um áhrif slíkra félagslegra aðgerða á þann óhugnanlega fjölda fóstureyðinga sem skýrslur t. d, s. l. árs sýna að fara fram hér á landi. Upplýst er að á s. l. ári voru framkvæmdar yfir 600 fóstureyðingar. Ég hefði talið eðlilegt að sami réttur til fæðingarorlofs mundi e. t. v. draga eitthvað úr þessari þróun. Ég stend fast við að það er mín skoðun að svo geti orðið. Að sjálfsögðu er ég ekki með þessu að segja að það eigi að banna fóstureyðingar eða fara í þær umr. Ég lagði þetta aðeins fram sem hugleiðingu um að aukinn félagslegur réttur á þessu sviði mundi leiða til góðs á öðrum sviðum, sbr. þetta atriði sérstaklega.

Ég vil svo segja það eins og er, að auðvitað er mér ljóst að þetta eykur útgjöld Tryggingastofnunarinnar eða það þarf aukið fjármagn til að gera þessa réttarbót.

Ég hef rætt það í umr. um fjárlög ríkisins eða fjárlagagerðina að mér hefur fundist og finnst að það sé ástæða til að hugleiða á hvern hátt er hægt að gera upplýsingastreymi í gegnum Tryggingastofnun ríkisins meira, betra og nákvæmara en er í dag. Ég sagði frá því við fjárlagagerð 1982 að okkur var tjáð í fjvn. að ekki væri hægt að gefa upplýsingar frá mánuði til mánaðar um alla þætti í útgjöldum Tryggingastofnunar ríkisins vegna þeirrar einföldu ástæðu að upplýsingar um t. d. fjárhag eða fjárstreymi sjúkrasamlaga landsins kæmu ekki inn í Tryggingastofnunina fyrr en mörgum mánuðum á eftir, þannig að þessar upplýsingar lægju alls ekki á borðinu. Ég hafði hins vegar fljótlega fengið upplýsingar um það sem ég rakti hér í framsögu í sambandi við útgjöld vegna fæðingarorlofs 1982. (Gripið fram í.) Ég get upplýst hv. fyrirspyrjanda um þetta atriði, hv. 7. þm. Reykv. Ég fór inn í Tryggingastofnun ríkisins, fór beint í tölvudeild stofnunarinnar, og fékk þessar upplýsingar nákvæmar. Það tók mig ekki nema 15 mínútur.

Hins vegar ætlaði ég að fá aðrar upplýsingar. sem mér þóttu forvitniverðar í sambandi við þetta stóra mál. Ég ætlaði að fá upplýsingar um hvað mikið fjármagn hefði komið inn í Tryggingastofnun ríkisins samkv. 20. gr, almannatryggingalaga, þ. e. út úr því framlagi sem atvinnureksturinn í landinu greiðir í lífeyristryggingarnar, 2% af greiddum vinnulaunum. Þessar upplýsingar gat ég ekki fengið, en mér var vísað í fjmrn. Í gærdag og aftur í morgun óskaði ég eftir því við fjmrn. að fá þessar upplýsingar. Ríkisbókhaldið var ekki með þessar upplýsingar á reiðum höndum. Þess vegna get ég ekki sagt það, sem ég ætlaði að segja hér, hvað þessar tekjur eru miklar eða gegnumstreymið í lífeyrisdeild trygginganna, en það mundi varpa ljósi á hvað hér er um mikið fjármagn að ræða. Ríkissjóður er skyldugur til að greiða það sem á vantar. Skilgreining á þessari fjárhæð er mjög nauðsynleg þegar við ræðum um svona mikilvægan útgjaldaþátt í almannatryggingum.

Samt sem áður tel ég að hér sé um það mikið réttlætismál að ræða að ég get ekki fallist á að það sé neitt óeðlilegt við að við tökum upp umr. um það hér á Alþingi að leiðrétta óréttlætið. sem raunverulega allir ættu að vera sammála um. Þess vegna legg ég svo ríka áherslu á að þetta mál fái framgang hér á hv. Alþingi. Hér er verið að gera leiðréttingu á óréttlæti sem hefur alvarlegar afleiðingar. Við eigum að stuðla að því að efla fjölskyldulífið og við eigum að stuðla að því að gera hlut heimilanna og þá um leið heimavinnandi mæðra, húsmæðra á Íslandi, stærri, skapa þeim þann sess sem þeim ber í þjóðfélaginu og þær verða að hafa í þjóðfélaginu. Það hefur það mikið uppeldislegt gildi fyrir börn okkar að ekki verður metið til fjár.