02.03.1983
Neðri deild: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2435 í B-deild Alþingistíðinda. (2196)

213. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það eru nokkur orð út af orðum hv. þm. Alexanders Stefánssonar, 1. þm. Vesturl. Ég vil ekki að það sé nokkur minnsti möguleiki á að mistúlka það sem ég sagði áðan og að það sé alveg skýrt hvað þar var átt við. Það er þetta:

Þegar möguleikar eru á að auka fjárframlög til fæðingarorlofs ber jafnframt að taka ákvörðun um hvert þeir peningar eiga fyrst og fremst að fara og hvert er nauðsynlegast að þeir fari. Það er um þrjá möguleika að ræða að mínu mati:

Sá fyrsti er sá hópur sem nefndur er hér, þ. e. heimavinnandi húsmæður. Annar er einstæðar mæður, sem eru útivinnandi. Ég tel að sá hópur hafi þarna algjöra sérstöðu vegna þess að staða hans sé erfiðari en flestra, ef ekki allra, annarra. Þriðji hópurinn er þær konur sem úti eru á hinum almenna vinnumarkaði. Ég er ekki að nefna þessi mál hér í mikilvægis röð, heldur bara til að undirstrika það, að þegar við tökum ákvörðun um að auka útgjöld til fæðingarorlofs eigum við að horfa á þessa mynd alla.

Í sambandi við það sem hér var rætt áðan og væntanlega í framsöguræðu hv. 1. þm. Vesturl., hvernig um framkvæmdina hefur tekist til, þá er það eins og gengur með nýjungar, að það tekur vafalaust tíma að koma þeim í sæmilegt lag og gera það þannig að skaplegt sé, og verður þó aldrei svo að öllum líki. M. a. hefur auðvitað verið rætt og deilt um með hvaða hætti þetta hefur verið framkvæmt, sérstaklega gagnvart bændakonum. En í þeim efnum hef ég lagt á það áherslu að haft væri samráð og samband við Stéttarsamband bænda. Við höfum reynt að meta þetta með svipuðum hætti og gert er ráð fyrir um vinnuframlag kvenna í verðlagsgrundvelli landbúnaðarins. Nú höfum við enga aðra heimild til viðmiðunar í þessu efni, en ég þekki það mætavel sjálfur að vinnuframlag bændakvenna er stórkostlega vanmetið í verðlagsgrundvelli landbúnaðarins. En þetta er sú eina opinbera heimild sem við í rauninni höfum í þessu efni til að styðjast við. Og þegar við eru að undirbúa setningu reglugerðar um þessi efni munum við leggja á það höfuðáherslu að taka alveg sérstakt tillit til þeirrar reynslu sem fengin er varðandi stöðu kvenna í sveitum, auk alls annars.

Ég fagna því alveg sérstaklega að þetta frv. og þessi mál eru hér til umr. Ég tel að það sé ákaflega þýðingarmikið að við ræðum þessi mál og reynum að fara mjög vandlega og samviskusamlega yfir þau í okkar hóp Ég dreg ekkert úr því. En ég vil aðeins að við reynum að lita yfir allt sviðið og áttum okkur á því, hvernig staðan er í heild í framkvæmd þessara mála, því að í þeim efnum liggja allar upplýsingar fyrir. Ég hef nýlega fengið skýrslu um framkvæmd fæðingarorlofs frá því að stofnað var til þess í upphafi samkv. núgildandi lögum, þannig að þar liggja allar upplýsingar fyrir í þessum efnum.

En, herra forseti, erindi mitt í stólinn að þessu sinni var aðeins að skýra það ögn betur, sem ég sagði hér áðan, vegna þess að mér fannst að hugsanlega hefði hv. flm. misskilið eitthvað af því. Til að koma í veg fyrir þann misskilning kvaddi ég mér hljóðs á nýjan leik.