03.11.1982
Neðri deild: 7. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

55. mál, orlof

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er auðvitað ljóst að við Alþfl.-menn styðjum efni þess frv., sem hér er til umr., um breytingu á lögum um orlof. Alþfl. hefur á þremur þingum lagt fram frv. sama efnis, en það hefur ekki hlotið afgreiðslu hér á Alþingi. Það er nú til meðferðar í Ed. Það er að vísu nokkru ítarlegra en það frv. sem ráðh. leggur hér fram. Það kveður á um enn frekari lengingu orlofs eftir ákveðinn starfstíma hjá sama atvinnurekanda og við munum að sjálfsögðu hugleiða hvort við munum þá ekki flytja brtt. við frv. ríkisstj. um þetta efni.

Ég hef lagt hér fram brtt., sem kveður á um að með reglugerð skuli heilbr.- og trmrh. hækka bætur almannatrygginga um 2% frá 1. des. n.k., auk þeirra hækkana sem leiðir af ákvæði 79. gr. almannatryggingalaganna.

Í grg. með frv. um orlof stendur að ástæðan fyrir flutningi frv. sé sú, að lenging orlofsins komi á móti þeirri skerðingu verðbóta sem á sér stað 1. des. því er auðvitað ástæða til, um leið og við ræðum þessi mál, að huga að því hvernig við ætlum að bæta bótaþegum almannatrygginga einnig þessa skerðingu.

Ráðh, talar um að sú brtt., sem ég legg hér fram, eigi ekki heima í orlofslögunum og lætur að því liggja að hér sé um formgalla á málinu að ræða. Út af fyrir sig er það rétt, að breytingar á almannatryggingalögunum eigi ekki heima í orlofslögunum. En það er engin nýlunda hér á þingi, og það ætti hæstv. ráðh. að vita, að breytt sé fleiri en einum lögum í einu og sama frv. Ráðh. hefur sjálfur staðið að slíkum breytingum. Ég minnist t.d. laga um breytingu á lögum vegna umbóta á opinberum byggingum á þágu fatlaðra. Þar var í einu og sama frv. lögð til breyting á fimm lagabálkum, lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um grunnskóla, lögum um byggingu og rekstur dagvistarheimila og lögum um félagsheimili. Þessu var öllu breytt með einu og sama frv. Það er því auðvitað engin nýlunda að slíkir bandormar sjáist á Alþingi.

Það er einnig rétt, sem fram kom hjá ráðh. áðan, að hann hefur heimild til að hækka bætur almannatrygginga ef launahækkanir verða í landinu. En í brbl. er um að ræða 10% skerðingu og það hefur engin yfirlýsing komið fram, hvorki hjá ráðh. né ríkisstj., fyrr en nú um að bæta eigi bótaþegum almannatrygginga þá kjaraskerðingu sem verður 1. des. Þess vegna er þessi brtt. lögð fram einmitt til að vekja athygli á því að ekki hefur verið hugað að þessu. Ég fagna auðvitað yfirlýsingu ráðh. þess efnis að hann muni beita sér fyrir því að bótaþegar almannatrygginga fái þessa skerðingu bætta. Ég taldi eðlilegt, einmitt vegna þess að við erum að ræða hér um skerðinguna 1. des., að leggja fram þessa brtt. einmitt í tengslum við frv., sem lagt er fram af ríkisstj. um orlof, sem ætlað er að milda þessa kjaraskerðingu lítils háttar.

Ráðh. talar um að bæta eigi bótaþegum þessa skerðingu, en hann upplýsti ekki hér í ræðustól að hvaða marki það eigi að verða.

Ég mun fá þetta mál í félmn. og ég tel rétt að brtt., sem ég hef hér lagt fram, verði athuguð í félmn. Ég mun óska eftir því við meðferð málsins í félmn. að ráðh. upplýsi nefndina um það, að hvaða marki eigi að bæta bótaþegum almannatrygginga þessa skerðingu. Fyrr en það liggur fyrir tel ég ekki ástæðu til að draga á einn eða annan hátt til baka þessa brtt. Ég mun óska eftir því, áður en málið verður afgreitt úr félmn. Nd., að þær upplýsingar liggi fyrir hjá ráðh. hvernig hann ætlar að bæta bótaþegunum þessa skerðingu.