02.03.1983
Neðri deild: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2437 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

211. mál, lán vegna björgunar skipsins Het Wapen

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls bar ég fram fsp. til hv. 1. flm. þessa frv. varðandi það, hvort ekki kæmi til greina að hollensk stjórnvöld tækju á sig hluta af þeirri peningalegu ábyrgð sem hér um ræðir. Mér finnst ennþá, eins og mér fannst þá, að hérna sé á ferðinni talsvert hættuspil, þegar ríkisvaldið ætlar að leggja fram ríkisábyrgð fyrir 50 millj. kr. og veðið sem er tekið er í skipi sem er á kafi í sandi.

Ég bar fram þessa fsp. að gefnu tilefni og ég spurði þá einnig — og fékk að hluta til svör — um það, hvernig væri háttað þeim tryggingamálum, sem getið er í grg. með frv., þar sem er sagt að það sé unnt að tryggja alla verkframkvæmdina hjá Lloyd's í London, og minnkar það áhættuna verulega, eins og það er orðað í grg. Ég hef ekki fengið fullnægjandi upplýsingar um það, hversu langt þessar tryggingar ná. Eru þær fyrir slysum og skakkaföllum eða er það raunverulega tryggt, eins og mætti ætla í grg., að ef ekkert skipið fyndist nú hefðu menn tryggingu fyrir því að fá skaðann bættan að einhverju leyti? Ég bar þessar fsp. fram.

Ég held, herra forseti, að mönnum finnist nóg um í þjóðfélagi sem er þjakað af slæmu ástandi efnahagsmála, þyki það nokkuð stór biti að kyngja, að Alþingi samþykki á síðustu dögum sínum þessa ábyrgð án þess að leitað sé leiða til að draga úr því fjármagni sem ábyrgðin er veitt fyrir. Þess vegna bar ég fram þessa fsp. og ég óska eftir að henni verði svarað, þ. e. hvort það komi ekki til greina að hollensk stjórnvöld beri þó ekki væri nema um helming þess kostnaðar sem áætlað er að sé við að grafa skipið upp.