02.03.1983
Neðri deild: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2438 í B-deild Alþingistíðinda. (2207)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Guðmundur J. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir hönd fjh.- og viðskn. Nd. fyrir 208. máli, sem kemur fram á þskj. 369. en flm. eru Albert Guðmundsson og fríð sveit 12 þm. úr öllum flokkum, sem þar fylgir. Að vísu er þarna ekki fulltrúi frá Bandalagi jafnaðarmanna, en ég geri frekar ráð fyrir að það sé vegna þess að honum hafi ekki verið boðið að skrifa upp á till. eða mistök hafi orðið hvað það snertir en það standi á efnislegri afstöðu þess hv. þm.

Hvað er það svo sem þetta frv. fjallar um? Þetta frv. fjallar um það, að tekjuskattsstofn manna, segir í þskj. 369. sem látið hafa af störfum vegna aldurs. skuli lækkaður um helming við útreikning skatts af tekjum sem þeir hafa aflað sér síðustu 12 mánuði starfstíma síns. Þessu fylgir svo stutt grg.

Nefndin tók þetta mál fyrir og leitaði umsagnar manna sem ég hygg að séu algerlega óumdeildir, annars vegar deildarstjóra í fjmrn., Árna Kolbeinssonar, sem þykir manna vísastur í lögum, hvort sem eru skattalög eða önnur, og hins vegar ríkisskattstjóra. Í samráði við þá, og reyndar útbúið af þeim, er lagt til að orðalag frv. verði á annan veg, þó efnisatriði séu þau sömu. Þeir leggja til í samráði við nefndina, sem nefndin gerir síðan að sínu. að í staðinn fyrir að breyta tekjustofnalögum verði þessi breyting tekin inn í 30. gr. skattalaganna, sem fjallar um frádrátt manna frá tekjum utan atvinnureksturs, þ. e. þarna yrði miðað við atvinnutekjur, en ekki tekjur sem kæmu af atvinnurekstri eða öðru.

30. gr. er um frádráttarliði. Þetta er A-liður 30. gr., sem er löng og mikil grein. 1. liður er um að skyldusparnaður manna á aldrinum 16–25 ára o. s. frv. sé frádráttarbær frá skatti. Síðan eru talin upp átta atriði sem eru frádráttarbær frá tekjum utan atvinnurekstrar. Brtt. frá n. orðist svona:

„Við A-lið 1. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr tölul. er verði 9. tölul, og orðist svo:

Helming tekna samkv. 1. tölul. A-liðs 7. gr., þegar frá þeim hafa verið dregnar þær fjárhæðir sem um ræðir í 1.–6. tölul. þessa stafliðar. [þ. e. ef það væru aðrir lögbundnir frádrættir] sem maður hefur aflað á síðustu 12 starfsmánuðum sínum, áður en hann lætur af störfum vegna aldurs.

Menn, sem náð hafa 60 ára aldri eða öðlast rétt til eftirlauna eða ellilífeyris úr lífeyrissjóði á tekjuárinu, skulu á framtölum sínum tilgreina hvenær þeir telji sig láta af störfum vegna aldurs og skal frádráttur samkv. 1. mgr. þessa tölul. við það miðaður, enda kemur þessi frádráttur ekki til greina nema einu sinni fyrir hvern mann.

2. Á eftir 1. mgr. frv. komi tvær nýjar greinar er verði 2. og 3. gr. Jafnframt verði 2. gr. frv. 4, gr. þess. Greinarnar orðist svo:

a. (2. gr.) 1. málsl. 2. mgr. 30. gr. laganna orðist svo:

Í stað frádráttar samkv. D- og E-liðum 1. mgr. þessarar greinar má að vali manns draga 10% af tekjum samkv. 1. tl. A-liðs 7. gr. þegar frá þeim hafa verið dregnir þeir liðir sem um ræðir í 1.–6. og 9. tölul. A-liðs 1. mgr. þessarar greinar.

b. (3. gr.) 7. tölul. 1. mgr. 66. gr. laganna falli niður.“

Þetta þýðir að helmingur af atvinnutekjum þeirra manna, sem hætta störfum vegna aldurs. er dreginn frá. Síðan njóta þeir t. d. 10% skattafrádráttar að eigin vali, eftir að búið er að draga helming tekna þeirra frá.

Síðan kemur að sjálfsögðu 2. gr. í frv. óbreytt: „Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 1983 af tekjum ársins 1982.“

Breytingin er að felldur er niður 7. tl. 1. mgr. 66. gr. Þar skyldi taka til greina umsókn manna um skattalækkun. Eru taldir upp nokkrir liðir, veikindi o. s. frv., og síðast: „ef maður lætur af störfum vegna aldurs og gjaldþol hans skerðist verulega af þeim sökum.“

Þarna er verið að gera afdráttarlaust bindandi, skýrt og ákveðið, að helmingurinn af tekjum þeirra sem hætta störfum sökum aldurs skuli dreginn frá skatti.

Það þarf ekki að fara um þetta mörgum orðum. Menn þekkja þann vítahring sem menn komast í. Þetta er oft ærið kvíðvænlegt ár. Yfirleitt stórlækka tekjur manna þegar þeir komast á eftirlaun og ellilífeyri. Það er meginreglan.

Reynslan hefur verið sú af 66. gr., að þeir sem fyrst og fremst hafa notfært sér hana eru menn sem kunna verulega á skattakerfið. Ég er ekki að segja að heimildinni hafi ekki verið beitt ef sótt hefur verið um lækkun samkv. 66. gr., en ég hef orðið áberandi var við það meðal almennings, að menn sem ekki eru vel að sér í skattalögum hafa ekki athugað sinn rétt í þessu.

Í frv. og brtt. n. er skýrt og hreint helmingur af tekjum síðasta árs dreginn frá skattskyldum tekjum þegar menn láta af störfum, áður en lagt er á tekjurnar.

Nauðsyn ber til að þetta fljúgi í gegnum þingið, því að ríkisskattstjóri leggur á það áherslu að hann þurfi að auglýsa þessa breytingu mjög rækilega, þannig að menn sem látið hafa af störfum geti komið til viðkomandi skattstofu upplýsingum um að þeir hafi látið af störfum. Ef einhver vafi leikur á, maður fari kannske í annað starf, fæst þessi frádráttur ekki nema einu sinni.

Það sem unnið er með þessu er að þessi mál eru orðin hrein og skýr með samþykkt þessara tillagna. Það á ekki að vera efni í andvökunætur eða kvíðvænlegt að menn séu komnir í ákveðinn vítahring þegar þeir láta af störfum. Þeir eiga óskiptan og lagalegan rétt til að helmingur tekna þeirra sé dreginn frá. Aðra frádráttarliði, eins og 10%, eiga þeir að sjálfsögðu líka. Misnotkun á ekki að geta átt sér stað. vegna þess að það er bundið niður með þessum lagagreinum að maður eigi bara rétt á þessum frádrætti í eitt skipti og búið.

Ég vona og held að ég megi fullyrða að vilji þm. sé í þá átt að létta sköttum af mönnum þegar þeir láta af störfum, tekjur þeirra hrapa niður o. s. frv. Í þessum brtt., sem nefndin flytur, liggja fyrir lagagreinar samdar af færustu skattamönnum og þá þarf þetta ekki að orka tvímælis. Ég er sannfærður um að ríkisskattstjóri þarf að auglýsa þetta vel til að þetta komist til almennings. Ég er sannfærður um að meginþorra fólks finnst þetta réttlætismál og eðlilegt að slík ákvæði séu lögfest og séu lögfest á þann hátt að málin séu hrein og klár, það eigi ótvíræðan lagalegan rétt á að fá felldan niður helminginn al sínum tekjum til skatts síðasta starfsárið sem það vinnur. Ég vona að hv. þm. séu nefndinni sammála í að afgreiða þetta mál fljótt og vel.