02.03.1983
Neðri deild: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2440 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Þar sem ég var einn af flm. þessa frv. og þar sem hv. 1. flm., Albert Guðmundsson 3. þm. Reykv., er fjarverandi og hefur lögmæt forföll vildi ég þakka fjh.- og viðskn. þessarar deildar sérstaklega fyrir hvað hún hefur brugðist skjótt við í þessu mikilvæga máli og hvað hún hefur afgreitt það á jákvæðan hátt. Sannleikurinn er sá, að hér er um að ræða stórmál. Ég hygg að flestir þm. hafi oft orðið varir við að það sækir mikill kvíði að eldra fólki þegar starfsævinni lýkur einmitt vegna skattamálanna, og það er enginn vafi á að það er stór hópur eldra fólks í þessu þjóðfélagi sem pínir sig til að vinna lengur en það raunverulega getur, einungis vegna áhyggna yfir því að það geti ekki lokið við að greiða skatta sína fyrir síðasta starfsárið. Þess vegna er hér um mikið réttlætismál að ræða.

Ég ítreka þakkir mínar til n. fyrir það, hve hún hefur brugðist skjótt við, og ég vænti þess, að við í þessari deild verðum sammála um að afgreiða þetta mál bæði skjótt og vel svo að það geti gengið til Ed. og orðið að lögum á þessu þingi.