03.11.1982
Neðri deild: 7. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

55. mál, orlof

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Eins og hv. síðasti ræðumaður á ég sæti í hv. félmn. Nd. og hef þar tækifæri til þess að fjalla efnislega um þetta mál. Ég sé þó ástæðu til að fara nokkrum orðum um þetta frv., án þess þó að ræða það að marki efnislega.

Það er ástæða til þess að rifja það upp og taka undir með hv. 1. þm. Vestf., þegar hann minntist á það réttilega, að það frv. sem hér er til meðferðar hefur verið kallað fylgifrv. Það er hæstv. ríkisstj. sem hefur kallað þetta fylgifrv. með brbl., einfaldlega vegna þess að frv. er samið í tengslum við brbl., sem sett voru af hæstv. ríkisstj. í ágúst s.l. og auðvitað er ætlunin að þetta frv. fylgi öðrum frv., bæði frv. um láglaunabætur og vísitöluviðmiðun auk staðfestingarfrv. um brbl. Það er þess vegna réttmæt ábending eða gagnrýni, sem kom fram í máli hv. 1. þm. Vestf., þegar hann benti á að það sé harla einkennilegt að sjá þetta frv. lagt fram í hv. Nd. án þess að nokkuð sjáist til hinna fylgifrv. né heldur sjálfs staðfestingarfrv. vegna brbl. Það væri miklu frekar ástæða til að spyrjast fyrir um það hvers vegna frv. um láglaunabætur kemur ekki fram. Öllum er ljóst að slíkt frv. þarf að samþykkja fyrir 1. des. En af einhverjum ástæðum sér hæstv. fjmrh., sem hefur forræði þess máls, ekki ástæðu til að kynna það á hv. Alþingi. (Gripið fram í.) Um láglaunabætur. Virðist það þurfa frekari skýringar við.

Eins og menn muna var gengið frá verðbótaskerðingu launa miðað við 1. des. n.k. í efnahagsráðstöfunum ríkisstj. í sumar. Stærsta og öflugasta framlag hæstv. ríkisstj. til þess að bjarga atvinnuvegum, sem eru í klemmu, var að lækka laun launþega sem nemur líklega um það bil 10% af þeim verðbótum sem launþegar eiga að fá 1. des. n.k. Það vekur þess vegna athygli og furðu að sú hin sama hæstv. ríkisstj. skuli leggja til með þessu frv. að atvinnuvegirnir greiði lengra orlof en hér hefur verið um mörg undanfarin ár. Á undanförnum dögum hefur talsvert verið rætt um vaxtamál. Ýmsir málsvarar hæstv. ríkisstj., þar á meðal sumir hæstv. ráðh., hafa haldið því fram að ekki væri hægt að hækka vexti vegna þess að fyrirtækin í landinu þyldu ekki þann kostnað, þau útgjöld sem slíkt mundi hafa í för með sér. Það er óskiljanlegt hvernig þeir hinir sömu hæstv. ráðh. fara að skýra það út fyrir okkur og þjóðinni allri að atvinnuvegirnir geti fremur þolað þá útgjaldaaukningu sem óhjákvæmilega mun hljótast af lengingu orlofs.

Hæstv. félmrh. minntist á það í sinni framsöguræðu að gerðir hefðu verið samningar við opinbera starfsmenn um lengra orlof. Það er ósköp auðvelt fyrir hæstv. ríkisstj. að gera slíka samninga því að auðvitað eru það skattgreiðendur, þar á meðal fyrirtæki auk einstaklinga, sem koma til með að standa undir kostnaðinum af þeirri orlofslengingu. Enn á því atvinnureksturinn og skattþjáðir einstaklingar að standa undir auknum útgjöldum ríkisins vegna þessara samninga, sem fólu í sér ákvæði um réttindabætur til viðbótar þeim sem gilda á hinum almenna vinnumarkaði.

Það kom jafnframt fram hjá hæstv. félmrh. að Sóknarkonur hefðu samið um lengra orlof í síðustu kjarasamningum. Ég endurtek: Sóknarkonur sömdu um aukið orlof. Það þýðir í raun og veru, eins og margoft hefur verið bent á, að Sóknarkonur kusu að fá lengra orlof og það hefur ugglaust leitt af sér að þær náðu ekki fram hærri launakröfum en raun ber vitni. Þær urðu sem sagt að fórna launahækkun fyrir lengingu orlofs. Nú kemur hæstv. félmrh. og leggur til að lengja skuli orlof með breytingum á orlofslögum, þar sem fjallað er um lágmarksorlof. Ég veit ekki hvort hæstv. ríkisstj. ætlar með þessu að framfylgja þeirri stefnuyfirlýsingu, sem fylgdi brbl., að auka skuli framleiðsluna í landinu. Það kann að vera að svo sé. Og þá þarf það auðvitað skýringar við hvernig lengra orlof getur aukið framleiðsluna. Það þarf líka að fá skýr svör við því hvort ekki sé möguleiki fyrir launþegana sjálfa að velja á milli þess að fá lengra orlof eða minni verðbótaskerðingu. Er það hugsanlegt, hæstv. félmrh., að þú sért tilbúinn til þess að semja um það við verkalýðshreyfinguna að draga úr verðbótaskerðingunni, þessari síðustu af þeim 13 sem hæstv. ráðh. hefur staðið að, er hugsanlegt að hæstv. ráðh. geti tekið upp samninga um þetta atriði í stað þess að lækka launin, eins og hann hefur í hyggju að gera og hefur reyndar ákveðið með ákvæði í brbl.? Þessu verður hæstv. ráðh. auðvitað að svara, einmitt vegna þess að orlofslenging hefur ætíð a.m.k. á síðasta áratug þar sem reyndar er heldur litið um orlofslengingar en örlitlar breytingar á orlofslögum — verið samningamál á milli launþega og atvinnurekenda. (Gripið fram í.) Ég kem að því síðar, því að þá ætla ég að vitna til hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, sem hefur einmitt sagt þetta sem ég var nú að segja.

Það er almennur skilningur bæði launþegaforustunnar og forustu vinnuveitenda að orlofsmál séu kjarasamningamál. Það hefur komið fram í kjarasamningum á undanförnum árum og mun ég, eins og ég sagði áður, vísa til ummæla þess efnis síðar í minni ræðu. Nú hefur það komið fram í þessu máli að annar samningsaðilinn á hinum almenna vinnumarkaði, Vinnuveitendasamband Íslands, hefur lýst því yfir að það sé andstætt þessu lagafrv. vegna þess að í því fellst útgjaldaauki upp á 1,9% —2,7%, eftir því hvernig það er reiknað ofan á heildarlaunakostnað fyrirtækjanna. Við getum slegið því föstu að útgjaldaaukinn yrði a.m.k. 2%, til þess að notast við einhverja tölu, sem við getum komið okkur saman um og ég held að þurfi ekki að vera ásteytingsefni á milli mín og annarra hv. þdm. Í umsögn sinni um þetta frv., sem Vinnuveitendasambandið hefur sent hv. alþm., eru færð rök fyrir þessu. Þar kemur fram að þeir telja að með fjölgun frídaganna megi búast við að þetta þýði 2,18% samdrátt í vinnuframlagi landsmanna. Og þeir spyrja þeirrar eðlilegu spurningar hvort þetta sé líklegt til þess að stuðla að aukinni þjóðarframleiðslu.

Þeir sýna jafnframt fram á með fullum rökum að líklegt sé að kaupmáttarskerðing samsvari um 0,4%, verði þetta frv. að lögum. Stafar þetta m.a. af því að aukavinna fellur óhjákvæmilega niður á áformuðum frídögum. Sé hins vegar gert ráð fyrir því að lengingu orlofs verði mætt með lengri vinnudegi þeirra sem vinna þegar aðrir eru í orlofi má búast við því að útgjaldaaukinn fari upp í 2,9%, eins og ég hef áður minnst á í minni ræðu.

Ég tel ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um útreikninga Vinnuveitendasambandsins. Þá hafa hv. þm. hjá sér til glöggvunar og ég hef ekki enn heyrt að þeim rökum, sem þar koma fram, hafi verið hafnað af þeim ræðumönnum sem tekið hafa til máls í þessari umr. En í lok þessarar grg. lýsir Vinnuveitendasambandið því yfir, að það vari mjög eindregið við samþykkt frv. ríkisstj. um lengingu orlofs og fjölgun frídaga, og áréttar að orlofsmál séu viðfangsefni samninga á frjálsum vinnumarkaði.

Nú er það opinbert leyndarmál í landinu og varðar þetta atriði, sem fylgdi brbl. í sumar þegar ríkisstj. loksins eftir væran blund í marga mánuði vaknaði til lífsins og tók til að koma fram efnahagsaðgerðum, að einn stuðningsmanna ríkisstj. var ekki staddur á landinu. Hann hafði tekið sér frí, sem var ósköp eðlilegt, að koma sér frá landinu undir þeirri stjórn sem þar er, og stakk af til Evrópu eins og títt er um ýmsa landsmenn.

Þessi hv. alþm., sem hér er staddur í salnum, ætlaðist greinilega til, ef marka má hvernig að var staðið, að hann fyndist ekki í útlöndum fyrr en ríkisstj. væri búin að ganga frá efnahagsráðstöfununum. En svo óheppilega vildi til að duglegir blaðamenn á Morgunblaðinu uppgötvuðu það að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hafði komið til Lúxemborgar degi áður. Til hans var hringt og undir hann voru borin ýmis mál, sem komu fram á forsíðu Morgunblaðsins, reyndar forsíðum tvo daga í röð. Hv. þm. var fundinn, útilegumaðurinn var fundinn, og formaður þingflokksins skipaði honum að koma heim og taka þátt í þeim umr. sem þá fóru fram um brbl.

Nú var erfitt fyrir hv. þm. Hann gat ekki stungið af til Stykkishólms, hann var kominn heim, heim til sín í sitt hús, jafnvel þótt þar væri ekki húsgagn að finna svo að hann varð að sofa á gólfinu, eftir því sem hann sagði sjálfur í blöðum, en þarna var hann berskjaldaður og varð auðvitað að segja sitt álit á bráðabirgðaráðstöfununum. En hann þráaðist við. Loksins eftir langa mæðu gerðist það að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson sagðist mundu a.m.k. þegja um afstöðu sína til brbl. ef hann fengi inn í efnahagsráðstafanirnar ákvæði um að orlof lengdist. Það væri skilyrði af hans hálfu. Og það er meginskýringin á því að þetta frv. er komið fram nú, á undan öðrum fylgifrv. Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson segir nefnilega sínum flokksbræðrum, foringjum flokksins, þar á meðal hæstv. félmrh., að hann sé ekki tilbúinn að styðja staðfestingarfrv. brbl. nema því aðeins að tryggt sé að launþegar í landinu fái lengra orlof.

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambands Íslands, formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, kærir sig ekki um að fá hærri laun — eða minni verðbótaskerðingu skyldi maður frekar kalla það. Hann telur eðlilegt að semja sjálfur við ríkisstj. um að lengja fremur orlof í staðinn. Hv. þm. formaður Verkamannasambandsins, stendur fyrir því, að taka þennan samningsrétt af sínum umbjóðendum og sem ja sjálfur innan flokksins yfir borðið í þingflokksherbergi Alþb. um þetta mál. Þetta er sannleikurinn í þessu máli. Ég skora á hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson að koma hér upp á eftir og svara því skýrt og skorinort hvort hann sé tilbúinn að samþykkja staðfestingarfrv. með brbl. ef þetta frv. fer ekki í gegn. Ég skora á hann að koma hingað og gera hreint fyrir sinum dyrum. Honum verður ekki kápan úr því klæðinu, ef ég þekki hann rétt.

Ég ætla að rifja hér upp í lokin, herra forseti, að í fyrravor var til umr. hér í hv. deild frv., sem nú hefur nýlega verið endurflutt af nokkrum hv. þm., um breytingu á orlofslögunum, reyndar lítils háttar breytingu, um að taka skuli meira tillit til viðhorfa starfsmanna, þegar þeir taka sitt orlof á þeim tímum orlofstímabilsins sem ekki er yfir hásumarið. Þetta mál fór til Ed. eftir smávægilega breytingu í Nd. Ed. breytti frv. og sendi aftur til Nd. Þegar málið var athugað þar kom hv. félmn. Nd. sér saman um það að ekki væri tímabært að afgreiða slíkt frv., enda væri um að ræða samningamál og yfir stæðu viðkvæmir kjarasamningar sem slíkt frv., ef samþykkt yrði, gæti haft áhrif á. Á þetta minni ég vegna þess að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson á sæti og átti sæti í hv. félmn. Nd. og við vorum fyllilega sammála um þessi viðhorf á þeim tíma.

Í nál., sem hv. félmn. Nd. sendi frá sér um þetta mál og var rökstuðningur fyrir till. um rökstudda dagskrá, kom fram eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Komið hefur fram að aðilar vinnumarkaðarins áttu aðild að samningu orlofslaganna nr. 87/1971. Engin ósk hefur komið frá þeim um að lögunum verði breytt. Kjarasamningar standa yfir milli aðila og þar eru orlofsmál m.a. á dagskrá. Samþykkt þessa frv. gæti haft óeðlileg áhrif á þá samninga. Af framangreindum ástæðum leggur meiri hl. félmn. til að málið verði nú afgreitt með rökstuddri dagskrá.“

Undir þetta rita hv. þm. Alexander Stefánsson, sá sem hér stendur, Guðmundur J. Guðmundsson, Steinþór Gestsson, Jóhann Einvarðsson og Eggert Haukdal. Hv. nýkjörinn formaður félmn., Jóhanna Sigurðardóttir, skilaði séráliti.

Hvað felst í þessu? Í þessu felst að það er álit þeirra manna, sem undir þetta rita, að þetta séu samningamál milli launþega og vinnuveitenda. Og það kemur skýrt fram að ekki er ástæða til að breyta þessari löggjöf, sem er samningamál í eðli sínu á milli þessara aðila, nema óskir komi fram frá þeim sjálfum. Síðar um sumarið fóru fram kjarasamningar. Í þeim kjarasamningum var samið um hærri laun — og reyndar um kjaraskerðingu, sem átti sér stað síðan 1. sept., og er einsdæmi að launþegasamtökin skuli viðurkenna nauðsyn á slíkri verðbótaskerðingu sem þá varð um 2.9%. En þeir sem eru í forsvari fyrir verkalýðshreyfinguna kusu að fá fremur meiri launahækkun eða minni skerðingu en lengingu orlofs. Það var þeirra mat á þessum tíma, sem þá fóru með völd, og um það var samið. Nú stendur hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson fyrir því að hann sjálfur geri sérsamning við hæstv. félmrh., fyrir hönd hæstv. ríkisstj., um að breyta þessum samningum, að breyta grundvellinum fyrir þeim kjarasamningum sem gerðir voru í sumar. Og það lætur hæstv, ríkisstj. sig hafa, enda þótt hún hafi með tillögum um verðbótaskerðingu 1. des. viðurkennt að atvinnuvegirnir gætu ekki staðið undir þeim launakostnaði sem um var samið í þessum sömu kjarasamningum. Sem sagt, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson stendur að málinu með þessum hætti, sker sig úr sínum samstarfsmönnum og leggur til að gengið verði á svig við þá samninga sem gerðir voru.

Nú vill svo til, og það ber mér skylda til að taka fram, að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson var ekki staddur í þessari hv. þd. þegar umr. fóru fram um þetta mál. Í þeim umr. voru gerðar á hann ýmsar árásir fyrst og fremst af hálfu hv. Alþfl.- manna í þessari deild. Hv. þm. gat ekki verið hér staddur því að hann þurfti að skreppa út í bæ og láta kjósa sig formann Verkamannasambandsins, ef ég man rétt, og það er auðvitað löggilt afsökun fyrir fjarvistum. Ég skal líka taka það skýrt fram að ég er mjög hrifinn af hv. þm. sem forustumanni í þeim félagssamtökum, enda er hann maður vörpulegur og myndarlegur í alla staði, jafnt heima hjá sér sem annars staðar, jafnt heima hjá sér án húsgagna eða með húsgögnum.

En hæstv. ráðh. var hér og hann bar blak af hv. þm. og sagði honum til varnar, með leyfi forseta:

„Það er í rauninni alveg ástæðulaust að vera með neinar getsakir uppi í þeim efnum“. Hann var að svara hv. þm. Vilmundi Gylfasyni. „Í nál. segir að orlofsmál séu á dagskrá í kjarasamningunum sem nú standa yfir. Það er mat þeirra aðila, sem að kjarasamningunum standa, að samþykkt af þeim toga sem hér er gerð till. um gæti orðið til þess að trufla niðurstöður kjarasamninganna og valda þar erfiðleikum. Af þeim ástæðum er það að menn standa að þessari rökstuddu dagskrá, sem gerð er till. um hér, þar á meðal hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson. Ég tel að þar sem hann er beinn aðili að kjarasamningunum og stendur í þeim miðjum sjálfur sé á engan hátt óeðlilegt að hann taki afstöðu af því tagi sem hér hefur verið lýst“.

Hér er hæstv. félmrh. að bera blak af hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni um það efni sem hann sjálfur, nú eftir kjarasamningana, gerir sérsamning um við hæstv. félmrh.

Herra forseti. Það er ekki ástæða fyrir mig að orðlengja meira um þetta að sinni. Ég vil gefa hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni tækifæri til að svara þeim ásökunum sem á hann hafa verið bornar, þeirri gagnrýni sem hann hefur orðið fyrir á þessum fundi, svo að hann geti gefið skýringar. Og ef hann gefur haldbærar skýringar er ugglaust hægt að fella sig við það. En hann kemst ekki hjá því að svara þeirri spurningu hvort hann vilji heldur lengingu orlofs eða minni viðbótaskerðingu á laun. Hann kemst ekki heldur hjá að svara því hvort hann sé tilbúinn til þess að standa að brbl., sem ríkisstj. setti í sumar, burtséð frá því hvort þetta frv. eða önnur fylgifrv. ná fram að ganga. Þjóðin á heimtingu á því að hv. þm. geri hreint fyrir sínum dyrum.

Að lokum sé ég ekki annað en þau einustu orlofsmál, sem ættu að vera til umr. hér í þessari hv. þd., væru þau að hæstv. ríkisstj. fái sér langt orlof. Það er mesta hagsmunamál þjóðarinnar.