02.03.1983
Neðri deild: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2445 í B-deild Alþingistíðinda. (2217)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Frsm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Við í menntmn. Nd. töldum að þörfin á slíkri lagasetningu væri svo brýn að við vildum með öllum hætti greiða fyrir því að málið næði fram að ganga.

Ég vil bæta því við, að ég sé engan tilgang í því að fara að setja lög til fimm ára eða svo, jafnvel þó að þau séu þess efnis sem þetta frv. er. Á þýðingu og gildi þessa frv. mun reyna stöðugt, og það er engin hætta á að þeir menn, sem hafa atvinnu af því að selja mönnum alls konar dægurkvikmyndir sér til framfæris, muni ekki vera vakandi ef þeim finnst að eftirlitið sé of strangt. Sömu sögu held ég að megi segja af samtökum listamanna, ef til þess kæmi að myndir sem teldust hafa listrænt gildi væru bannaðar. Ég held því að í praxís muni mjög reyna á þessi lög, þau verði mjög undir eftirliti.

Ég held líka að Alþingi hafi annað við tímann að gera en vera stöðugt að samþykkja sömu lagabálkana upp aftur og aftur á fimm ára fresti. Mér hefur aldrei fundist það virkilega sniðugt. En ef menn eru í þeim hugleiðingum að reyna að finna upp á einhverju nýju og vekja athygli á sér með þeim hætti er það alveg sársaukalaust af minni hálfu.