02.03.1983
Neðri deild: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2447 í B-deild Alþingistíðinda. (2223)

14. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég óskaði eftir því að fjmrh. yrði við til að svara spurningum, sem til hans yrði beint vegna þessa máls, en hann hefur nú kosið að víkja af fundi. (Forseti: Má ég leggja tillögu fyrir hv. ræðumann? Við 3. umr. verður þess sérstaklega gætt, og hv. deild fær tíma kl. 2 á morgun, að hæstv. fjmrh. verði við og hv. þm. fái svör við fyrirspurnum sínum.)

Ég mun verða við tilmælum forseta og halda áfram ræðu minni. En þær spurningar sem vakna við lestur þessa frv. eru: Í fyrsta lagi hvort það sé eðlilegra að ákvæði um stuðning við tannviðgerðir séu í skattalögum eða almannatryggingalögum. Hér er út af fyrir sig um grundvallarspurningu að ræða. Það hlýtur að vakna hjá hverjum manni sú hugsun, hvort það sé sanngjarnt að þeir sem greiða tekjuskatt skuli sleppa betur við greiðslur gagnvart tanntæknakostnaði en þeir sem minna mega sín í þjóðfélaginu og greiða ekki tekjuskatt. Ég held þess vegna að það hljóti að vera eðlilegt að það viðhorf fjmrh. komi fram hér, hvort hann telur að sá háttur, sem lagt er til að sé á hafður. sé sá rétti í þessum efnum.

Ég minnist þess, að í umr. á Alþingi á liðnum vetri. þegar rætt var um undanþáguheimild gagnvart þeim sem þurfa að leggja í sérstakan kostnað til að koma nemendum í skóla á grunnskólastigi, kom það fram hjá ráðh. að hann lagðist mjög harkalega gegn því að undanþáguákvæðin yrðu notuð, og í viðræðum við hann hefur komið fram að hann telur að það eigi frekar að greiða kostnað þennan beint úr ríkissjóði, þannig að allir njóti. hvort sem þeir greiða tekjuskatt eða ekki. Mér sýnist að hér hljóti að gilda það sama. Ef samfélagið tekur þá ákvörðun að það eigi að taka þátt í greiðslu tannlæknakostnaðar fæ ég ekki séð að það sé eðlilegt að það mál verði afgreitt á þann veg að samfélagið taki aðeins þátt í greiðslu tannlæknakostnaðar ef menn greiða tekjuskatt, en sá hópur, sem er fyrir neðan skattamarkið, greiði tannlæknakostnað sjálfur.

Ég óska eindregið eftir því að fjmrh. svari þessum spurningum áður en þetta mál fer út úr sölum þingsins.