03.11.1982
Neðri deild: 7. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

55. mál, orlof

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. þm. Friðrik Sophusson hefur allmiklar áhyggjur af minni afstöðu og mínu prinsipleysi og jafnvel áhyggjur af mínum verslunarháttum. Ég vildi nú biðja hann að snúa sér til síns nýja stuðningsmanns í andstöðu við ríkisstj. í sambandi við verslunarhætti. (FrS: Það er lengi von á einum.) Já, ég held að þm. verði fyrir vonbrigðum með það. En við skulum fyrst fara örlítið yfir orlofsmálin.

Sannleikurinn er bara sá, og það vill oft brenna við í þessu landi, að almennt verkafólk hefur haft stysta orlofið. Samningar fjölmargra stétta kveða á um miklu rýmri orlofsrétt. Það hefur stundum náðst fram með samningum en, oft og tíðum hefur orðið að ná því fram með lögum að sett væru ákveðin lágmarksákvæði um orlof. Og það vill nú verða svo, að þrátt fyrir það að vinna almenns verkafólks í ýmsum starfsgreinum útheimti kannske miklu frekar að það hafi á ýmsum sviðum rýmra orlof, þá er það yfirleitt uppi á teningnum að í allflestum tilfellum hefur það stysta orlofið.

Nú er svo komið að opinberir starfsmenn hafa ekki einungis laugardagana, þessa fjóra daga, og frídag verslunarmanna, sem verkamenn og verkakonur verða að vinna fyrir í dagvinnu, en allir hugsanlegir aðilar aðrir hafa í sinum samningum sem helgidag í orlofi. Bankamenn og fjölmargar stéttir hafa hvort tveggja, Þeir hafa laugardaginn og síðan hafa þeir vaxandi orlof eftir starfsaldri. Að vísu skal það viðurkennt að í einstaka greinum hjá almennu verkafólki gildir þetta. Hvað er það sem verið er að gera hér? Það er verið að samræma þetta. Það er verið að tryggja þessu almenna verkafólki svipaðan rétt — og nægir þó ekki til. (Gripið fram í: Langt í frá) Langt í frá, já. Víða er það langt í frá því miður. Það er ósköp eðlilegt að maðurinn, sem lætur sér svo annt um kjör almenns verkafólks, skuli nú vera algerlega miður sín yfir því að almennt verkafólk skuli eiga að fá sömu réttindi og annað fólk í þjóðfélaginu. Ja, þvílíkt og annað eins. Nú er hann miður sín yfir atvinnurekstrinum. Um daginn var hann miður sín yfir verkafólkinu. Það er verið að skerða kaup þess um 8 eða 10%. Nú er hann miður sín yfir því að þarna sé lagfært hjá almennu verkafólki til samræmis við aðra um 2%, og hefur stórar áhyggjur af atvinnurekstri í landinu. Ja, trúi nú hver sem vill. Ef pólitísk tilviljun og ógæfa þjóðarinnar yrði nú sú, að Sjálfstfl. kæmist í ríkisstj., þá yrði þessi indæli hv. þm. sennilega ráðh. Sá yrði gæfulegur með þessum málflutningi, sá yrði gæfulegur.

Ég ætla að bregða aðeins út af venju minni og upplýsa hér gamanmál sem hér hefur títt verið nefnt í þingsölum. Það eru ferðalög mín til Stykkishólms. (Gripið fram í: Er þetta gamanmál?) Það er rétt að upplýsa þetta mál. Ég voná samt að það verði skemmtiefni. Mér er annt um að menn hafi eitthvað til að gleðjast yfir, hafi einhver gamanmál. (Forseti: Var þetta orlofsmál?) Já, herra forseti. Hv. 10. þm. Reykv. var meira en í orlofi. Hann geisaði vítt og breitt um Evrópu og tilkynnti að fréttamenn Morgunblaðsins hefðu haft upp á mér. Og hæstv. forseti, sem er réttsýnn og góður forseti, gerði ekki athugasemdir um orlofsmál. En þetta var hreinn ágreiningur. Þetta var ágreiningur um það að ég tel að beinir skattar á almennum launþegum séu of háir. Mér tókst í viðræðum og þjarki að fá það nokkuð niður, en ekki nægjanlega, og ég lýsti því yfir að ég mundi ekki styðja það frv. sem þar kæmi fram. Ég þurfti að boða fagnaðarerindi í Stykkishólmi 1. maí. Það tókst vel. Frv. fór í gegn, sjálfstæðismenn sáu um það. Þetta eru nú þessi grunnatriði með orlofsmálin.

Hitt má jafnágætur maður og hv. þm. Friðrik Sophusson ekki gera, að fara að blanda saman ákaflega ólíkum málum eins og frv. Vilmundar Gylfasonar. Það var þess eðlis, ekki væri heimilt að senda verkafólk í orlof í maímánuði eða septembermánuði nema með samþykki þess. Ég vona að ég fari rétt með. Efnislega var það á þessa leið. Ég taldi að þessi krafa væri eðlileg, en hún hefði aldrei að mínu viti fram komið frá verkalýðsfélögunum, og ég teldi eðlilegt að hún kæmi þá fram í samningum áður en hún væri lögfest. Víst skal það viðurkennt að þessi stutti orlofstími er nokkurt vandamál hjá fyrirtækjum. En það hefur margt komið á dagskrá, t.d. að breyta einhverjum hluta þess í vetrarfrí o.s.frv. og sums staðar hefur það verið gert. Hins vegar hefur lenging orlofs verið krafa verkalýðssamtaka í þó nokkuð langan tíma. Samninga eftir samninga hafa þessar kröfur komið fram. Ég var ekki að lýsa mig andvígan till. hv. þm. Vilmundur Gylfasonar sem slíkri, um að ekki mætti senda verkafólk í orlof í maí eða sept. nema með samþykki þess, ég taldi hins vegar eðlilegt að áður hefðu komið fram tilmæli um það við atvinnurekendur. En í þessu tilfelli hafa tillögurnar, sem lagabreytingin gerir ráð fyrir, komið fram samninga eftir samninga. Og af því að hv. þm. á inngengt í Vinnuveitendasambandið, þó að ást hans á launþegum sé rík og sterk, gæti hann fengið upplýsingar þar að lútandi.

Hitt er nokkuð umdeilt í sambandi við orlof — ég ætla nú ekki að fara að flytja neinn fyrirlestur um það sumir eru á því að ekki beri að lengja orlof, heldur beri að greiða hærri prósentu, burtséð frá öllum brbl. og hænunni hans Matthíasar. (Gripið fram í.) Jæja, sem þú varst að tala um — sleppum því öllu. Það eru nokkrir á því að í stað þess að lengja orlof beri að greiða hærri orlofsprósentu, vegna þess að það sé mun dýrara að vera í orlofi en í vinnu, þá leggur fólk í kostnað með ferðalög o.s.frv. Þessar skoðanir eru nokkuð skiptar, en þær stefna báðar að sama markinu, þær hækka orlofsprósentuna.

Síðan kemur nú aðalbomban. — Ég vil aðeins skjóta því inn og vona að forseti gefi mér ekki áminningu. — Ég skal viðurkenna að blaðamenn Morgunblaðsins eru langsamlega duglegustu blaðamenn allra blaða að afla upplýsinga og frétta, því miður. Engu að síður voru það ekki blaðamenn Morgunblaðsins heldur var það ég, sem hafði samband við formann þingflokks Alþb., og hafði það fyrr um daginn. En það voru vart liðnir nokkrir klukkutímar þangað til Morgunblaðið hafði frétt af þessu samtali. En það er ekki í þessu máli.

Í sambandi við hvort ég muni styðja brbl. ef orlofsmálið verði fellt eða ýmis fylgifrv., þá hef ég áður lýst því yfir að ég telji óhjákvæmilegt að ýmsir fylgifiskar þessara brbl. nái fram að ganga. Hins vegar mun ég — þegar ríkisstj. sér sér fært að leggja fram þessi brbl., og ég skal viðurkenna að ég er ekkert undrandi á hv. 1. þm. Vestf. þó að hann sé orðinn langleitur eftir þessu frv., ég lái honum það ekkert — en þá mun ég skýra mína afstöðu. Það skal ekkert standa á mínum rökum eða efnislegum yfirlýsingum. En ég ætla að láta hv. 10. þm. Reykv. vita að ég hef ekki skrifað hæstv. forsrh. bréf og ég mun ekki segja „eins og stendur í bréfinu“. Ég legg fram mína efnislegu afstöðu. Hitt er rétt hjá hv. þm., að mikið ákaflega reyni ég að beita mér fast í þessum orlofsmálum. Ég hélt nú satt að segja að hann mundi — á þessum árstíma, þegar kannske er stutt til kosninga — jafnvel lýsa yfir stuðningi. En þeir gullnu strengir sem liggja til Vinnuveitendasambandsins orsaka það að svo er ekki. Engu að síður er ég þeirrar trúar að meiri hl. Alþingis vilji samræma orlof landsmanna og vilji ekki una því að almennt verkafólk búi þar við verri kost en aðrir launþegar.

Ég vona að ég hafi þá í ýmsum meginatriðum svarað hv. 10. þm. Reykv.

Í sambandi við Evrópuferðir, eða einhver ferðalög innanlands eða utan, vona ég að ég þurfi ekki að gefa skýrslu. Og umfram allt bið ég hv. þm. að fara ekki að gefa húsgagnalýsingu á íbúð minni. (Gripið fram í.) Ég þakka þér fyrir.