03.03.1983
Neðri deild: 49. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2452 í B-deild Alþingistíðinda. (2235)

14. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég tel algjörlega óeðlilegt að setja ákvæði af þessu tagi inn í lög um tekju- og eignarskatt og miklu nær sé að koma til móts við þá, sem þurfa að leita tannlækninga, með öðrum hætti, þ. e. í gegnum almannatryggingakerfið. Spurningin í þessu efni hefur jafnan snúist um það, hvort Alþingi væri reiðubúið að stofna til þeirra útgjalda sem ákvæði af þessum toga hefðu í för með sér. Samkv. því nál. sem fyrir liggur frá heilbr.- og trn. hv. deildar, þá virðist hv. deild reiðubúin til slíks og með tilliti til þess held ég og hef ég talið að það væri eðlilegra að nota fjármunina öðruvísi. Af þeim ástæðum var þetta mál tekið fyrir í ríkisstj. í morgun. Þar var ákveðið að heimila mér að breyta reglugerð um greiðslu sjúkrasamlaga í tannlækniskostnaði á þann veg að endurgreiða hinum tryggðu 20% kostnað við tannlæknaþjónustu, sem er þá viðbót við það sem almannatryggingar þegar greiða í þessu efni. Af þessari ástæðu og fleirum, herra forseti, segi ég nei við frv.