03.11.1982
Neðri deild: 7. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

55. mál, orlof

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég skal ekki lengja þetta mikið. Eins og hér hefur komið fram hefur Alþfl. lýst stuðningi við þetta mál, en jafnframt boðað hugsanlegan flutning brtt. í samræmi við það frv., sem þm. flokksins hafði lagt fram í Ed., sem gengur lengra til samræmis við aðra launþegahópa í landinu í sambandi við orlofsmálin. Það er rétt sem hér hefur komið fram. Hér er stigið skref til samræmingar. En það er víðs fjarri að full samræming náist hjá láglaunafólki við ýmsa aðra þjóðfélagsþegna í landinu, sem hafa miklum mun rýmri orlofsrétt heldur en það, þó að þetta frv. næði fram að ganga.

Aðeins örfá orð út af því sem hæstv. félmrh. sagði. Ég er undrandi á því að hann telur þá brtt. sem hér hefur verið flutt óeðlilega og að á henni þurfi ekkert að halda. Ég held að þetta sé mesti misskilningur hjá hæstv. ráðh. Ég veit ekki til að það sé afdráttarlaust í almannatryggingalöggjöfinni, að í slíkum tilfellum sem þessum beri ráðh. að hækka lífeyri til öryrkja og annarra slíkra, í samræmi við það sem hér hefur verið talað um, að minnka hugsanlega kjaraskerðingu annarra launþega með ígildi ca. 2% launahækkunar. Hér er verið að slá varnagla við því, hvort sem þessi hæstv. félmrh. verður þá við völd eða ekki, að ráðherra, hver sem með þau mál fer hverju sinni, falli fyrir þeirri freistni að láta ekki elli eða örorkulífeyrisþega fá ígildi þessarar launahækkunar sem talin er. (Félmrh.: Það er bara talað um 1. des. 1982.) Að sjálfsögðu er talað um það og það yrði vegvísir upp á framtíðina, hæstv. ráðh.

Í öðru lagi, til viðbótar því sem hér hefur komið fram varðandi hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson, langar mig til að spyrja hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson aðeins einnar spurningar. (GJG: Hvenær á ég að svara?) Þú getur svarað henni hvenær sem er, hvort sem vera skal í fjölmiðlum eða annars staðar. Spurningin er sú, hvort það kunni ekki að breyta hugsanlegri afstöðu hv. þm. til brbl. hvaða meðferð hið nokkuð margumtalaða lánskjaravísitölumál fengi hjá hæstv. ríkisstj. Ég minnist þess að það var eitt af þeim skilyrðum, sem hv. þm. gat um að yrði að fullnægja, samræming lánskjaravísitölu og verðbótavísitölu, til þess að hans stuðningur fengist við brbl. um kaupskerðinguna. Það væri gott að fá það upplýst hjá hv. þm. hvort þessi afstaða hans er ekki enn óbreytt, að þetta sé eitt af skilyrðunum, að samræming eigi sér stað á lánskjaravísitölu annars vegar og verðbótaþætti kaupgjaldsvísitölu hins vegar, eins og hv. þm. hefur lýst yfir í fjölmiðlum.