03.03.1983
Sameinað þing: 60. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2464 í B-deild Alþingistíðinda. (2277)

32. mál, hafsbotnsréttindi Íslands í suðri

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. utanrmn. fyrir afgreiðslu þessa máls. Eins og frsm. nefndarinnar gat um áðan varð fullkomið samkomulag í nefndinni. Það var mikið unnið að athugun málsins. Fagna ég mjög þeirri niðurstöðu sem þar varð. Eina efnislega breytingin er sú, að utanrmn. starfi með stjórnvöldum að framgangi málsins í stað þess að Alþingi kjósi fimm manna nefnd. Það gat ég samþykkt, auðvitað að því áskildu að utanrmn. haldi sérstaka fundi um þetta langmikilvægasta mál þessa Alþingis og langmikilvægasta mál landsins í dag, að ég tel, og að nú verði ekki beðið lengur og þrýst mjög á um að þessara réttinda okkar verði gætt til hins ýtrasta og leitast við að ná samkomulagi við nágranna okkar um það.

Hans G. Andersen kom á fund nefndarinnar að hennar ósk og utanrrn. og flutti mjög ítarlega og greinargóða skýrslu. Í þeirri skýrslu er í rauninni staðfest allt það sem sagt hefur verið um að við eigum mest réttindi á Rockall-svæðinu, allt það sem sagt hefur verið nú í 41/2 ár, þannig að engum getur lengur dulist að þarna er langstærsta sjálfstæðismál okkar á ferðinni.

Þetta sokkna land er eins og menn vita álíka stórt og Ísland. Það er talið að þar geti verið bæði olía og gas, en auk þess tilheyra allir skelfiskar, krabbadýr og slíkt botninum og þess vegna er mikilla réttinda þarna að leita. En það gæti verið hætta á að við töpuðum þarna rétti ef ekki er haldið vel á málum. Þess vegna er það samdóma álit utanrmn. að leitað verði samninga við Færeyinga eða Dani fyrir þeirra hönd, Íra og Breta, enda þótt ljóst sé að Írar og Bretar eigi samkv. 76. gr., sbr. 83. gr. hafréttarsáttmálans, langminnstra réttinda að gæta þarna, kannske eigi þeir í raun engar kröfur á réttindum á Rockall-svæðinu, heldur séu það fyrst og fremst Íslendingar og svo Færeyingar. Engu að síður viljum við semja við þá t. d. þannig, að við ættum t. d. helming þessa svæðis, Færeyingar kannske 30%, en Bretar og Írar sín 10% hver. En þessa samninga þarf að taka upp og hraða þeim nú sem mest má verða. Og við treystum því auðvitað að Hans G. Andersen, sem er einhver þekktasti og hæfasti þjóðréttarfræðingur veraldarinnar, verði okkur þar að liði og forustan verði í hans höndum, þ. e. samhliða auðvitað utanrrn., sem hlýtur að vinna að málinu.

Þessi skýrsla hefur ekki verið birt enn, en þó hefur Hans G. Andersen, með leyfi nefndarinnar, skýrt frá nokkrum atriðum í henni. Eins og ég sagði er þar staðfest allt sem við, sem höfum verið að berjast fyrir þessu, höfum sagt, og meginefnið er raunar í grg. með þáltill., sem hér er til umr., — allt sem þar er sagt er staðfest.

Hér er gífurlegra réttinda að gæta. Og menn skyldu hafa í huga að það eru ekki einungis lífverurnar á botninum sem við getum verndað þegar við höfum náð yfirráðum á þessu svæði og á Reykjaneshrygg, sem hér er til umr. líka, heldur hlýtur það að leiða af sjálfu sér, að þegar fiskveiðar eru stundaðar á þessum svæðum, eins og t. d. karfaveiðar Rússa á Reykjaneshrygg, þá getum við sent varðskipin þar til eftirlits, og komi þeir upp með skelfisk og krabba er það okkar eign og við getum stuggað þeim út fyrir. Og auðvitað verður þróunin sú, að sá sem á hafsbotninn hefur líka yfirráð yfir hafinu þar yfir. Þess vegna er þetta eitt af stærstu málum sem Íslendingar hafa barist fyrir í allri landhelgisbaráttunni. Þetta er gífurlega þýðingarmikið mál og það má ekki fresta því deginum lengur að gera allt sem hugsanlegt er til að tryggja þessi réttindi.

Ég lofaði, herra forseti, að vera stuttorður og skal reyna það.

Í gærmorgun gerðist það, að í Morgunblaðinu birtist grein um að Færeyingar veiddu nú lax í miklum mæli utan sinnar efnahagslögsögu, þ. e. á opna svæðinu austur af Íslandi. Ég hafði þá samband við hæstv. utanrrh. og óskaði eftir því að hann svaraði nokkrum spurningum frá mér utan dagskrár í Ed. í gær, en að samkomulagi varð að það yrði gert hér í Sþ. í dag og þá í þessum umr. til að tefja tímann ekki meira en nauðsyn krefur. En þarna er um mjög mikið alvörumúl að ræða.

Ég vil sérstaklega undirstrika það, að þegar Færeyingar veiða nú utan sinna 200 mílna brjóta þeir ekki einungis hafréttarsáttmálann, því að grundvöllur hafréttarsáttmálans er sá. að laxveiðar skuli alls ekki stunda á úthafinu utan efnahagslögsögu, nema í sérstökum undantekningartilfellum, sem alls ekki geta átt við þarna,-það er ekki nóg með að þeir brjóti 66. gr. hafréttarsáttmálans, heldur þverbrjóta þeir líka þann samning sem gerður var hér í fyrra og þeir eru aðilar að eða Danir fyrir þeirra hönd. Besta ákvæði þess samnings er í upphafi 2. gr., þar sem segir: „Laxveiðar eru bannaðar utan fiskveiðilögsögu strandríkja“, ósköp einfalt, stutt og laggott. Veiðarnar eru algjörlega bannaðar. Þarna eru Færeyingar sem sagt að veiðum nú. Þeir eru að veiða íslenskan lax. Það vill svo til, að stórlaxinn í norðlensku ánum er að verða útdauður. Ég held að það sé svo um Laxá í Aðaldal, að það munu vera til um 20 þús. eins árs seiði af þeim stofni. Hann er sem sagt að verða útdauður. En spurningar mínar eru þessar:

Hefur utanrrn. nú þegar mótmælt þessum veiðum Færeyinga utan 200 mílna sinna? Ef ekki, hvenær verða slík mótmæli þá fram borin?

Og númer tvö: Hefur það verið hugleitt að senda varðskip þarna út á miðin til að gæta þess réttar sem við þar höfum að gæta?

Og í þriðja lagi: Hefur nú verið leitað samstarfs við aðrar upprunaþjóðir laxastofnsins, önnur upprunaríki Atlantshafsstofnsins, um þessa réttargæslu, og á ég þar ekki síst við Norðmenn og nágranna okkar aðra?

Ég tel algjörlega nauðsynlegt að fljótt verði brugðist við og treysti því að utanrrn. geri þetta, því að Færeyingar gætu hugsanlega unnið sér réttindi, ef þeir væru látnir óáreittir við þessa rányrkju, ekki einungis innan sinna 200 mílna, sem líka er lögbrot á hafréttarsáttmálanum. heldur jafnvel utan 200 mílnanna. sem er bæði brot á hafréttarsáttmálanum og þeim samningi sem gerður var hér í Reykjavík fyrir um það bil ári. Ég vænti svara frá hæstv. utanrrh.