03.03.1983
Sameinað þing: 60. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2474 í B-deild Alþingistíðinda. (2282)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Síðustu orð hæstv, samgrh. eiga svo sannarlega ekki við hann samkvæmt þeim ummælum sem eftir honum eru höfð í blaðaviðtölum, þar sem hann segir sjálfur að það sem réði hans afstöðu við ráðningu flugmálastjóra hafi verið þrýstihópur hér og þrýstihópur þar, flugvallaeftirlitsmenn úti á landi, sem eru þrír, formaður Vélflugfélagsins og svo áskoranir þar fyrir utan. Það er eins og aukaatriði að viðkomandi og núverandi flugmálastjóri hafi staðið sig sæmilega vel í þeirri stöðu sem hann gegndi fram að þeim tíma.

Það er alveg furðulegt hvað margir vildu Lilju kveðið hafa og hvað margir st.jórnmálamenn. sem skortir yfirleitt allt til þess að vera valdhafar, vildu vera Bjarni Benediktsson í dag. En ég lái þeim það ekki.

Ég sagði í lok viðtals í Morgunblaðinu 27. febr., sem er næstum við hliðina á viðtalinu sem Morgunblaðið hafði við hæstv. samgrh., að það væri ekki öllum gefið að fara með völd. S. l. þriðjudag kom hér upp sígætur hæstv. ráðh., sem er séní á mörgum sviðum, og undirstrikaði þetta svo sannarlega, þegar hann sagði: Hæstv. samgrh. skortir ýmislegt annað en hugrekki. Ég vil taka undir það. Hann skortir ýmislegt annað.

Nú vil ég undirstrika alveg sérstaklega ummæli mín um Pétur Einarsson og hans störf. Hans samstarf við flugráð þann tíma sem hann hefur starfað þar, og ég mun gera nánari grein fyrir þeim tíma síðar í minni ræðu, hefur verið mjög gott. En í ummælum hæstv. samgrh., þegar hann vitnar í mín ummæli, kemur fram sá tónn að Pétur Einarsson hafi gegnt embætti flugmálastjóra. Það hefur hann alls ekki gert. Hann var á sínum tíma ráðinn án umsagnar flugráðs, þrátt fyrir umsagnarrétt flugráðs, sem gæslumaður flugvalla og þar ber honum að fara eftir ákvörðunum flugráðs og að fjárhagsáætlunum og að sjálfsögðu undir stjórn flugmálastjóra.

Þessu starfi hefur hann gegnt vel, en það er bókstaflega engin reynsla á manninum sem flugmálastjóra. Því starfi hefur hann gegnt frá andláti fyrrverandi flugmálastjóra í samtals tvo mánuði, sem er eins og meðal sumarfrí, og aldrei á þann hátt, sem felst í starfi flugmálastjóra, að taka þátt í erlendum samningagerðum og erlendum samskiptum almennt.

En áður en ég kem frekar að því langar mig til að fara nokkrum orðum um ýmislegt sem hefur komið fram hjá hæstv. ráðh. Hann segir að valdsvið ráðh. sé að skipa flugmálastjóra að fenginni tillögu flugráðs. Einarðari tillögu flugráðs og flugráðsmanna en gerð var var ekki hægt að fá. Þarna eru menn sem koma frá hægri og vinstri í þjóðfélaginu, hafa ólíkar skoðanir, koma úr ólíku umhverfi og hafa ólíkar hugsjónir, sem þeir bera í brjósti, enda valdir af hinum pólitísku flokkum, en þeim tekst að ná algjöru samkomulagi. En ráðh. kýs að hunsa það samkomulag á — ja. mig langar til að segja á svívirðilegan máta, gagnvart þeim mönnum, sem sitja kjörnir fulltrúar Alþingis Íslendinga í flugráði, og taka frekar mark á þrýstihópunum úti um land, sem eru þó fámennir, frekar en þá þrýstihópum fagfélaga. sem hann var að upplýsa úr þessum virðulega ræðustól að hefðu skrifað og mælt með Leifi Magnússyni.

Virðulegur ráðh. sagði líka að margir vel hæfir menn hefðu sótt um stöðuna. Það er líka alveg rétt. Þeir voru allir með mjög góð prófskírteini og reynslu á þessu sviði og verkfræðingar, sem við þurfum á að halda því það er mikið um verklegar framkvæmdir og undirbúning að verklegum framkvæmdum, og eru tæknimál rædd undir stjórn flugmálastjóra. Það veit hæstv. ráðh. manna best, sent ekki einungis var í flugráði, heldur er í flugráði. Mér var sagt það ítrekað. bara af því ég vildi fá staðfestingu á því, að hann væri ennþá flugráðsmaður.

Þá erum við komnir að ráðuneytinu sjálfu. Ráðuneytið er mjög ánægt með störf Péturs Einarssonar. Flugráð er mjög ánægt með störf Péturs Einarssonar. sem eru á allt öðru sviði en flugmálastjórasviðinu. Ég get tekið undir þetta. En ég hef þær fréttir úr ráðuneytinu að ráðuneytismenn hafi mælt með Leifi Magnússyni. Ráðh. getur komið hingað upp og sagt að það sé rangt. Ég skal þá trúa ráðh. (Sjútvrh.: Það er rangt.) Það er rangt, kallar ráðh. Þá skal ég trúa honum. En trúverðugir menn sögðu mér þetta.

Þá á það að vera framlag til þessa máls frá hæstv. ráðh. að Leifur Magnússon skyldi taka tímabundið við annarri stöðu. Það var einmitt vegna þess að viðkomandi fyrirtæki vantaði hæfasta manninn til að endurskipuleggja ákveðna deild, manninn með mestu þekkinguna, og fékk lánaðan til að byrja með Leif Magnússon, sem ílengdist svo. En að það eitt skuli vera álitið nóg til þess að maðurinn missi þann rétt, sem hann hafði og hafði áunnið sér um 17-20 ára starfsaldursskeið hjá flugmálastjórn sem yfirmaður þar, er furðuleg fullyrðing.

Þá vil ég líka geta þess að allar þær tilvitnanir, sem ráðh. hefur gripið til í mín orð og sem mæla með Pétri í því starfi sem hann hefur verið í og gegnt ágætlega, grípur hann í eins og hálmstrá í rökfærslu með sínum vondu gjörðum. En það eru rök sem koma fram eftir að ráðherra hefur valið í stöðu flugmálastjóra. Það er billegt. Það er eins billegt og að bera sig saman við stjórnmálamann á borð við Bjarna Benediktsson. Það er alveg rétt að ráðh. hefur völd, en ráðh. verður líka að gera sér það ljóst að völdum fylgir ábyrgð. Það er ekki öllum gefið að fara með slík völd.

Ráðh. segi: í blaðaviðtali við Morgunblaðið 27. febr.. með leyfi forseta:

„Það fer ekki á milli mála, að bæði Pétur Einarsson og Leifur Magnússon eru hæfir menn, eins og reyndar margir aðrir umsækjendur, sem flugráð hefði mátt velta fyrir sér. Þá hef ég ekki fengið nema bestu umsagnir um störf Péturs. en hann hefur starfað á þriðja ár sem varaflugmálastjóri“ — sem er rangt – „aðfinnslulaust. og við í samgrn. erum mjög ánægðir með hans störf og ég held að ég geti fullyrt að svo er ennfremur með fjmrh.“

Hér er verið að gefa til kynna að Leifur Magnússon hafi þá staðið sig illa. Það var þó 17–18 ára reynsla af hans störfum. ekki bara heima fyrir, eins og hjá Pétri Einarssyni, heldur erlendis líka á öllum þeim sviðum sem flugráð kallar á og krefst í því starfi, en ekki bara við umsjón með flugvallagerð innanlands og eftirlit með verklegum framkvæmdum. Og ég undirstrika: Það er rangt sem ráðh. segir, að núverandi flugmálastjóri hafi gegnt því starfi varaflugmálastjóra, sem hér er vitnað til, í þrjú ár. Það eru tveir mánuðir og á þessum tveim mánuðum veit ég ekki til þess að neitt hafi komið upp sem hafi kallað á hans vinnu og samstarf við útlönd. Ég veit það ekki en það gæti svo sem hugsast.

Síðan kemur hérna í sömu grein, með leyfi forseta: „Mér finnst reyndar ekki drengilegt að ganga fram hjá manni. sem hefur gegnt starfinu aðfinnslulaust við erfiðar aðstæður í veikindum fyrrverandi flugmálastjóra.“

Hvað var það í starfi flugmálastjóra sem á reyndi fyrir fyrrverandi varaflugmálastjóra og kom upp á þessum tveim mánuðum? Ekki eitt einasta atriði sem flugráðið hefur verið upplýst um. Ég vissi ekki einu sinni að það væri búið að skipa hann flugmálastjóra í veikindaforföllum. Flugráði var ekkert tilkynnt um það. Það er eins og allt annað sem við fréttum.

Síðar segir ráðh. í þessu sama viðtali:

„Það, sem hins vegar vegur þyngst hjá mér, er sú staðreynd að ég hef ekki fengið neinar aðfinnslur við störf Péturs og því finnst mér ekki drengilegt að ganga fram hjá honum.“

Þá segi ég: á þessum 17–18 ára ferli Leifs Magnússonar, sem gekk inn í störf flugmálastjóra á öllum sviðum, komu upp margar aðfinnslur. Er það aðalástæðan að kvartað var undan störfum Leifs Magnússonar. en þessa tvo mánuði, sem Pétur Einarsson hefur gegnt starfi flugmálastjóra, hafa ekki komið neinar aðfinnslur? Það er alveg furðulegt, alveg dæmalaust. Ég undirstrika það orð vegna þess að það á við þegar menn tala til hæstv. samgrh.

Ennfremur stendur, með leyfi forseta, í sama blaðaviðtali.

„Mér finnst ákaflega einkennilegt hvernig staðið var að málum í flugráði.“

Hvaða sneið er þetta til flugráðs? Hvað var svona einkennilegt? Er það einkennilegt að flugráðsmaður skuli koma undirbúinn á flugráðsfund? Er þetta sama og ráðh. segði við flugráðsmenn: Þið megið helst ekki undirbúa ykkur undir fundi. Þið verðið að koma algjörlega óundirbúnir og helst ekki vita nokkurn skapaðan hlut um málið áður en þið komið. Síðan megið þið ekki tala ykkur saman. Þið verðið að taka ákvarðanir, án þess að bera ykkur saman, þegar til fundar kemur.

Þá segir hæstv. ráðh. í sama viðtali, með leyfi forseta: „Einn ráðsmaður skrifar upp tillöguna fyrir fund ráðsins og lætur síðan hina skrifa undir fyrir fundinn.“

Hvaðan hefur ráðh. þessar upplýsingar? Það sem er rétt í þessu máli er að sjálfsögðu það sem kom fram hjá virðulegum 4. þm. Vesturl. og hann rakti hér úr ræðustól s. l. þriðjudag, þegar ráðh. hafði minni tíma til að gegna skyldustörfum hér en vera viðstaddur veisluhöld. Ég er að tala um sjötugsafmæli virðulegs utanrrh. Hann átti afmæli allan daginn og ráðh. gat farið á hvaða tíma sem var þangað. — Hvaðan hefur ráðh. þessar upplýsingar? Það rétta er, að eins og oft vill verða með þm. tala þeir saman á Alþingi þar sem þeir starfa. Ég talaði hér við Skúla Alexandersson, virðulegan þm., og sagði honum minn hug. Það kom í ljós að ákvarðanir okkar lágu saman. Ég skrifaði þá tillögu sem þarna var gerð og kom með hana á fundinn og lagði hana fram á sama hátt og mörgum sinnum hefur skeð í flugráði og hæstv. ráðh. hefur tekið þátt í með mér. Ég hef áður skrifað tillögur sem aðrir hafa skrifað undir. Í þessu tilfelli voru menn ekki beðnir um það. Það kom bara í ljós að menn höfðu kynnt sér málið. Þeir höfðu lesið þau gögn sem samgrh. sendi flugráðsmönnum fyrir fundinn. Það voru umsóknir umsækjenda ásamt upplýsingum um starfsferil og námsferil hvers og eins. Allir flugráðsmenn og varamenn höfðu lesið gögnin og þeim bar saman um að enginn af umsækjendum hefði betri eiginleika en Leifur Magnússon til að vinna starf flugmálastjóra á þann hátt sem flugráð vissi af reynslu að yrði til sóma fyrir ráðherra og flugráð og landið í heild, vegna þess að samskipti við útlönd eru stór hluti af starfi flugmálastjóra.

Ég mótmæli fullyrðing hæstv. ráðh., að við flugráðsmenn hefðum ekki einu sinni skoðað þau gögn sem hann sendi. Við komum það vel undirbúnir og það vel lesnir að ekki var talið nauðsynlegt að lesa öll gögn upp þann morgun. Hvernig dirfist ráðh. að fullyrða að málið hafi verið afgreitt fyrir fram? Hvaðan hefur ráðh. þessar upplýsingar? Er nauðsynlegt fyrir ráðh. að vera að gefa í skyn eitthvað sem hann hefur ekki hugmynd um eða er eðli ráðherra að segja meira en hann veit? Ég held að það sé. Ég held að honum sé ekki sjálfrátt, aumingja manninum.

Ég er alls ekki ánægður með þessa afgreiðslu. Það er eðlilegt. Menn voru allir vel undirbúnir. Ráðh. vildi hafa þá óundirbúna. Ég sé ekki hvað er svona einkennilegt við málið allt. Málið verður ekki einkennilegt fyrr en hæstv. ráðh. fer að hafa afskipti af því. Þá er það ekki bara einkennilegt, það er tortryggilegt líka.

Ég vil sérstaklega undirstrika það. og það skal enginn í flugráði segja neitt annað, að varamaður ráðh. í flugráði hefur reynst þau ár sem við höfum setið þarna saman einhver sá sjálfstæðasti sem til er í flugráði þegar taka þarf ákvarðanir. Enginn reyndi að hafa áhrif á hans ákvörðun, en hún var samstiga okkar. Ég hef óljósan grun um að ráðh. hafi þó reynt að hafa samband við hann, en varafulltrúinn er vanur að standa og falla með sínu. Það skyldi þó aldrei eiga eftir að ske að hann verði hreinlega rekinn úr flugráði og kannske flæmdur úr Framsfl. vegna þess að hann er sjálfstæður maður.

En hann segir mér, með leyfi forseta, í Morgunblaðinu frá 27. febr.:

„Það er í raun ákveðin lífsreynsla að lenda í því, að ráðh. telur sig ekki þurfa að fara eftir vilja flugráðs aftur og aftur í mjög veigamiklum málum. Í þessu máli er verið að velja flugmálastjóra, en ekki pólitískan frambjóðanda og ég er því mjög ósáttur við þessa veitingu persónulega.“

Þetta er flokksbróðir og trúnaðarmaður ráðh. í flugráði. Og þetta er þungur dómur á gerðir ráðh., ekki bara í þessu máli, því hann sér ástæðu til þess að taka aðrar ákvarðanir ráðh. inn í þetta svar sitt, ákvarðanir sem ég þekki ekki, ég held mér við það sem er til umræðu.

Það fer ekki mikið milli mála að ráðh. telur flokksskírteini í Framsfl. ofar öllum prófum. Ef hann hefði viljað fara eftir skírteinunum einum held ég það hafi verið annar maður fremri og fremstur hvað snertir prófskírteini. En flokksskírteini í Framsfl. er öllum prófskírteinum ofar.

Ég er hér með grein sem ég get ekki dagsett en ég reikna með að hún sé frá 27. febr. Hún var í Tímanum og ágætis vel upp sett. Þm. hafa eflaust séð hana. Greinin er hægra megin á blaðinu. Ráðh. er spurður hvort hann óttist ekki að honum verði núið því um nasir að þetta væri flokkspólitísk ákvörðun, og hæstv. ráðh. svarar:

„Eflaust verður það gert, en ég vil hins vegar segja að enginn framsóknarmaður eigi að gjalda þess að vera framsóknarmaður ef ég fæ nokkru ráðið.“

Fyrr má nú vera! Að öðru jöfnu hefði verið farið eftir prófskírteinum, hefði verið farið eftir starfsaldri, hefði verið farið eftir reynslu í starfi og störfum innan stofnunarinnar. Þá skiptir engu máli hvaða flokksskírteini menn hafa. En hér er eingöngu farið eftir flokksskírteini í Framsfl., eins og kemur fram í viðtali við fulltrúa ráðh. og Framsfl. í flugráði: „Það er í raun ákveðin lífsreynsla“ o. s. frv. Og varafulltrúinn heldur áfram: „Og ég er því mjög ósáttur við þessa veitingu persónulega.“ Það er vegna þess að hún er pólitísk.

Það er mikið vitnað í starfsreynslu Péturs Einarssonar. Hann er búinn að vera varaflugmálastjóri og flugmálastjóri í þrjú ár, aðallega varaflugmálastjóri, samkvæmt viðtali við ráðherra. sem hann hefur ekki leiðrétt. En starfsferillinn er svohljóðandi:

Pétur Einarsson hefur verið hjá flugmálastjórn í tvö ár og einn mánuð, frá 1. ágúst 1978 til 31. ágúst 1980, sem fulltrúi hjá flugmálastjórn. Í tvö ár og fjóra mánuði, eða frá l. sept. 1980 til 23. des. 1982, hefur hann verið framkvæmdastjóri flugvalladeildar og jafnframt varaflugmálastjóri, en skipaður í báðar þessar stöður af Steingrími Hermannssyni án umsagnar flugráðs.

Til samanburðar vil ég geta þess, að það er litið fram hjá þeim starfsferli Leifs Magnússonar að hann var hjá flugmálastjórn samtals 17 ár og 9 mánuði, þar af 5 ár og 3 mánuði sem varaflugmálastjóri, og er ekki minnst á það neins staðar að Leifur Magnússon hefur tekið þátt í 45 ráðstefnum um flugmál og Pétur Einarsson hefur aldrei komið sem fulltrúi Íslands á slíkan fund.

Við skulum ekki bera saman störf þessara tveggja manna. Þau eru ekkert sambærileg.

É.g ætla ekki að fara út í þá skýrslu sem flugráð hefur látið fara frá sér, en hún er undirrituð af öllum aðalmönnum í flugráði. Varamenn voru ekki beðnir um að undirskrifa hana og áttu ekki kost á að undirskrifa þessa skýrslu, en hún er undirrituð af öllum í flugráði, hvort sem þeir eru framsóknarmenn eða annarra flokka menn. Ætlar ráðh. líka að segja að það sé ekkert mark takandi á henni? Í þessari skýrslu frá 28. febr. er málið í heild rakið að gefnu tilefni vegna blaðaummæla og vegna framkomu ráðh., sem hefur verið svo forkastanleg og ósæmandi ráðherra Íslands að hann ætti að koma hér fram fyrir stólinn á hnjánum og biðja Alþingi afsökunar á gjörðum sínum. (Sjútvrh.: Fyrir framan Albert Guðmundsson.) Ég vil gefa ráðh. orðið á eftir ef hann óskar eftir því. — Fyrir framan Albert Guðmundsson, já, sem flugráðsmann. Ég hef visst stolt sem fulltrúi Alþingis út á við, í flugráði í þessu tilfelli. Það er kominn tími til fyrir ráðh. að átta sig á því að hann er ráðh. Vegna þess að hann situr hátt er kannske betur tekið eftir því hvað hann gerir og hvernig hann gerir það.

Ég ætla ekki að bera saman frekar en orðið er umsækjendur, en þetta mál er ráðh. til skammar og það verður eins mikið honum til skammar og þau orð voru Bjarna Benediktssyni til virðingar sem hann mælti. Það er ekki hægt að bera saman þessi tvö mál. En hæstv. ráðh. hefði getað tekið annað mál og borið það saman, vegna þess að það var líka gert að flokksmáli, og það var ráðning í yfirlæknisstöðu á fæðingardeildinni fyrir nokkrum árum. þegar annar framsóknarmaður gegndi ráðherrastöðu.