03.03.1983
Sameinað þing: 60. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2479 í B-deild Alþingistíðinda. (2283)

Umræður utan dagskrár

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Það er dálitið erfitt að koma hér upp í ræðustól eftir þessa þrumuræðu hv. 3. þm. Reykv., þar sem hann hefur flutt mál okkar flugráðsmanna mjög rækilega, tíundað rök okkar og bent á veika punkta í málflutningi hæstv. samgrh. í þessu máli.

Hæstv. samgrh. valdi þann kost að hafna tillögu flugráðs um skipun Leifs Magnússonar í embætti flugmálastjóra þótt flugráð stæði einhuga að þeirri tillögu bæði aðal- og varamenn í ráðinu. Á fundi sínum s. l. mánudag samþykkti flugráð greinargerð og mótmæli gegn þessari ákvörðun ráðherra. Þeirri samþykkt hefur verið dreift til allra hv. alþm. og fjölmiðla. Ég vænti þess að allir hv. alþm. hafi kynnt sér mótmælin og efni greinargerðarinnar. Ég sé því ekki ástæðu til að rekja efni hennar hér.

Þegar blaðamaður Morgunblaðsins spurði mig hvort ég liti ekki á ákvörðun ráðh. sem vantraust á flugráð og hvort flugráð mundi ekki segja af sér af þessu tilefni svaraði ég því til að stofnun eins og flugráð yrði að taka ýmsum aðgerðum ráðh. án þess að segja af sér. Ég vil láta það koma fram að með þessu svari mínu taldi ég mig vera að reyna að forða því að aðgerðir ráðh. bitnuðu á áframhaldandi starfi flugráðs. Ég var mjög óánægður með ákvörðun ráðh. og að hann skyldi ekki hafa tekið einróma samþykkt og tillögu flugráðs til greina, en að embættisveitingunni gerðri taldi ég ekki rétt að svara með stóryrðum og stofna í hættu áframhaldandi starfi flugráðs.

Rök flugráðs fyrir því að mæla með Leifi Magnússyni voru einföld og skýr, en í bókun flugráðs og samþykkt segir svo, með leyfi hæstv. forseta. — Þessi samþykkt hefur reyndar verið lesin upp hér í ræðustól áður, en ég tel rétt að ítreka þetta og svo góð samþykkt má vel birtast nokkrum sinnum í þingtíðindum. Tillaga okkar og samþykkt var þannig: „Flugráð leggur samhljóða og eindregið til að Leifur Magnússon verði skipaður flugmálastjóri. Hann hefur ótvírætt að baki víðtækustu reynslu og þekkingu umsækjenda á öllum þáttum íslenskra flugmála, þar á meðal varðandi starfrækslu íslensku alþjóðaflugþjónustunnar á Íslandi ásamt öðrum alþjóðlegum samskiptum á sviði flugmála.“

Þarna er sagt fyrst og fremst: Hann hefur ótvírætt að baki víðtækustu reynslu og þekkingu umsækjenda á öllum þáttum íslenskra flugmála. — Þetta var sameiginlegt álit allra flugráðsmanna um það, á hvern hátt Leifur Magnússon skæri sig úr hópi umsækjenda. Þetta voru rök okkar fyrir því að hann yrði skipaður flugmálastjóri, jafnt mín og þeirra sem voru á stundum taldir svolítið hallir undir skoðun ráðh., þegar mál voru afgreidd í flugráði, sem og annarra manna sem flugráð skipa.

Hæstv. ráðh. féllst ekki á tillögu okkar. Þótt maður spyrði sig þeirrar spurningar, hver væri eiginlega tilgangur þess að flugráð skyldi hafa tillögurétt um skipun manns í þessa stöðu og hvort ráðh. hefði ekki með þessari afstöðu sinni verið að lýsa yfir tilgangsleysi flugráðs, þá fannst mér rétt að viðurkenna ekki að slíkt gæti legið að baki ákvörðun ráðh.. Enn væru þó í gildi lög sem segðu fyrir um stjórn flugmála og þar væri svo mælt fyrir um flugráð að það hefði á hendi stjórn flugmála á Íslandi.

Ég varð því meira en lítið undrandi þegar umsagnir hæstv. ráðh. um þessa embættisveitingu fóru að heyrast og birtast í fjölmiðlum og þá fyrst það atriði að aðrir umsagnaraðilar hefðu verið teknir gildari en við í flugráði. Það er furðulegt að ráðh. skuli upplýsa að hann hafi tekið meira mark á umsögnum annarra en þess aðila sem samkv. lögum á að hafa umsagnarrétt í þessum málum. Slíkum vinnubrögðum mótmæli ég.

Þá er í annan stað að geta um furðulegar fullyrðingar hæstv. ráðh. um einkennileg vinnubrögð flugráðs í þessu máli. Ég vil til viðbótar við það sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um þessar umsagnir ráðh. fara nokkrum orðum um þær.

Í Morgunblaðinu, líkast til 27. febr. s. l., segir ráðh.: „Einn ráðsmaður skrifar upp tillöguna fyrir fund ráðsins og lætur síðan hina skrifa undir fyrir fundinn“.

Ég lýsti því hér á fundi s. l. þriðjudag, hvernig tillaga þessi hefði orðið til og hv. 3. þm. Reykv. jók við þær upplýsingar nokkuð í ræðu sinni áðan. En ég ætla enn á ný að segja frá því, hvernig þessi tillaga varð til.

Hún varð til á þann máta, að við hittumst hér við Albert Guðmundsson í þann mund að ég var að fara úr þinghúsinu. Ég þurfti að sinna öðrum störfum og því miður á þingfundartíma. Þá kemur í ljós að við höfum sömu skoðun í þessu máli, eftir að hafa kynnt okkur þær umsóknir sem okkur höfðu verið sendar. Ég fer fram á það við Albert Guðmundsson frekar en að Albert hafi boðist til þess, að hann undirbúi till. sem við svo flyttum í þessu máli þegar við kæmum á flugráðsfund. Þegar við síðan komum á flugráðsfund kemur í ljós að það eru fleiri flugráðsmenn en við Albert Guðmundsson á þeirri skoðun að sjálfsagt sé að mæla með Leifi Magnússyni. Það býðst hver flugráðsmaðurinn af öðrum til að skrifa undir þessa till. okkar. Þannig voru hin einkennilegu vinnubrögð sem við í flugráði höfðum í frammi í sambandi við tillögugerð og sú er skýringin á að undirskriftir áttu sér stað áður en fundur hófst í flugráði.

Í annan stað lætur hæstv. ráðh. hafa eftir sér í Morgunblaðinu: „Þeir höfðu ekki einu sinni fyrir því að skoða umsóknirnar og ræða þær á fundinum.“

Hv. 3. þm. Reykv. hefur reyndar rætt um þennan þátt mála og bent á að við flugráðsmenn reynum að kynna okkur mál áður en við komum á fund, þó að vitaskuld séu mál undir ýmsum kringumstæðum tekin til frekari yfirvegunar þar, sem eðlilegt er. En undir þessum kringumstæðum höfðum við kynnt okkur málin og tekið afstöðu. Frekari umræður og vangaveltur yfir þeim 11 umsóknum, sem þarna lágu fyrir, voru algerlega tilgangslausar.

Hæstv. ráðh. telur sig þurfa að setja ofan í við flugráð vegna ákvörðunar í sambandi við þetta mál, en það sýnir ekkert annað en að sú ákvörðun, sem hæstv. ráðh. tók, er röng. Hann er að reyna að réttlæta sínar gerðir með því að gera okkar gerðir eitthvað tortryggilegar.

Í þriðja lagi hefur hæstv. ráðh. talað um að það hafi verið ódrengilegt að taka ekki tillit til starfs Péturs Einarssonar sem varaflugmálastjóra og starfsmanns flugmálastjórnar í 21/2 ár. Það getur vel verið að hæstv. ráðh. líti á það sem ódrengilegt að viðurkenna ekki góð störf manna. Þá er hann reyndar að segja það, að við höfum verið ódrengilegir að viðurkenna ekki þessi störf Péturs. En hvað mikill ódrengskapur er hafður í frammi þegar viðurkennd eru ekki öll þau störf sem Leifur Magnússon hefur innt af hendi við flugmál á Íslandi? Það er ástæðulaust að jafna því saman.

Allt það sem ráðh. er að segja um störf flugráðs í sambandi við þetta mál eru rökleysur.

Ég mótmæli því að hæstv. samgrh. skuli leyfa sér að vera með slíkar ósannar aðdróttanir á hendur stofnun sem heyrir undir hann sjálfan og skora á hann að færa frekari sönnur á það sem ég hef hér eftir honum haft. Þessar rangfærslur ráðh. hvað snertir vinnubrögð flugráðs eru til þess eins að reyna að réttlæta hans eigin vafasömu gerðir. Ekkert sannar betur en slík vinnubrögð hve vafasamar gerðir hæstv. ráðh. hafa verið. Þegar slíkar rangfærslur bætast við fyrri gerð hans í sambandi við embættisveitinguna hlýtur sú spurning að vakna hvort stofnun eins og flugráð hafi nokkurn tilgang, a. m. k. á meðan hæstv. núverandi samgrh. situr í samgrn.