03.03.1983
Sameinað þing: 60. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2484 í B-deild Alþingistíðinda. (2285)

Umræður utan dagskrár

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það hefur nú þegar verið sagt nógu mikið um þetta mál, þannig að ég þarf ekki að vera margorður.

Þetta er ákaflega leiðinlegt mál. Við vitum að hæstv. samgrh. hefur farið rangt að og við vitum líka að hann veit það sjálfur. Þess vegna neyðist hann til að setja sig í leiðinlegar varnarstellingar til þess að reyna að afsaka þessi mistök. En þessi mistök verða líklega ekki aftur tekin og ber að harma að ráðh. í ríkisstjórn misbeiti valdi sínu eins gróflega og raun ber vitni.

Það er alltaf ákaflega erfitt að ræða um mál á opnum fundi í Alþingi, það sem snertir einn eða tvo einstaklinga, eins og í þessu tilfelli, því að ef menn tala ekki gætilega gæti ræðan komið þannig út að maður væri að draga annan umsækjandann niður um leið og maður reynir að hefja hinn upp.

Ég hef haft, herra forseti, nokkurn áhuga, held ég að mér sé óhætt að segja, á íslenskum flugmálum um alllangt skeið. Hins vegar hef ég ekki ráðið þar miklu, og er það skaði fyrir flugmálin auðvitað. Ég þekki þessa menn báða, sem hér er um að tefla, og hef unnið með þeim báðum. Ég verð að segja að samvinna við þá báða var góð, þó að samvinna mín við Leif Magnússon nái yfir langtum lengri tíma, margfalt lengri tíma. Ég var kominn úr flugráði þegar ég vann að dálitlu verkefni með tveimur öðrum mönnum um að breyta lögum um flug á Íslandi og lappa upp á einhverjar reglugerðir. Þau mál hafa nú gengið hægt í gegnum kerfið og hefði betur verið búið að afgreiða þau fyrir löngu því að þó að þau verk séu ekki fullkomin voru þau aðeins lagfæring á vissum atriðum í þessum málaflokki.

Við sem vorum í flugráði og þeir sem voru með mér í flugráði — ég var nú þar í átta ár — urðum aldrei varir við mikil völd hjá þeirri stofnun, og ef það er rétt, sem hv. þm. Árni Gunnarsson segir, að með hinu nýja frv. sé verið að skerða stórlega völd flugráðs, er ekki mikið eftir. Ég segi þetta ekki síst með tilliti til þess að hæstv. ráðh., sem leitar eftir tillögum frá flugráði, hunsar algjörlega einróma niðurstöðu. Til hvers eru menn yfirleitt að spyrja flugráð um eitt eða neitt þegar þeir eru fyrir fram ráðnir í því að hafa álit þess að engu ? Hvað svo sem segir í gömlum eða nýjum lögum um flugráð og vald þess hefur hæstv. ráðh. gert áhrif þess og völd nákvæmlega að engu.

Því miður er það svo, að ráðh. getur leyft sér að ganga algjörlega á móti einróma samþykkt flugráðs. Það voru margir ágætir umsækjendur sem sóttu um þetta starf og sumir þeirra mjög vel menntaðir. Pétur Einarsson, núverandi flugmálastjóri, er einnig vel menntaður. Hann er lögfræðingur, hann hefur unnið við fasteignasölu og ýmislegt af því tagi og unnið flest til lands, eins og hann segir sjálfur í sinni umsögn, og hefur brugðið fyrir sig logsuðu og alls konar suðu og kannske niðursuðu, það veit ég ekki. Það er alltaf gott að kunna þetta. Hann er einnig trésmiður, sem sýnir að hann getur unnið á mörgum sviðum, og hann er duglegur einnig.

Ég er ekki að gera lítið úr þessari menntun, síður en svo, en hún passar ekki í þetta starf. Hversu vel sem menn eru menntaðir í þessum greinum hentar það ekki þessu embætti. Hins vegar er Leifur Magnússon ekki aðeins búinn að vinna að íslenskum flugmálum í meira en tvo áratugi, eða má segja að alla sína ævi hafi hann starfað að flugmálum, heldur er hann einnig hámenntaður í sinni grein, þrautreyndur í starfi og margsannaður afbragðsmaður í því efni. Hann hefur líklega meiri reynslu í þessum efnum, sem tillit þarf að taka til varðandi slíka umsókn, en nokkur annar maður í landinu. En auðvitað er þetta pólitísk veiting. Það veit ég og það veit hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson einnig. Flokksskírteini í Framsfl. er tekið fram yfir allt annað, menntun, hæfileika og fyrri störf, og það er ömurleg staðreynd.

Hæstv. samgrh. hefur sagt í fjölmiðlum að það væri ódrengilegt að ganga fram hjá Pétri Einarssyni. Ég tel, eins og ég sagði áðan, Pétur Einarsson alls góðs maklegan, en í þessu tilfelli verður maður að bera saman eins og segir í öllum auglýsingum um ákveðnar atvinnuumsóknir. Það er beðið um aldur, menntun og fyrri störf. Það er það sem þarf að skoða. Það hefur hæstv. ráðh. ekki skoðað, heldur bara áðurnefnt skírteini. En það var auðvelt fyrir hæstv. ráðh. að afsaka sig með því að það væri erfitt að ganga á móti þessum umsækjanda, vegna þess að hæstv, ráðh. setti sjálfur þennan mann inn í stofnunina fyrir tveimur til þremur árum. Hann hefur kannske ekki verið ráðh. þá, en hann hefur verið með puttana á hljóðfæri Framsfl. alllengi.

Því miður verð ég að segja það, að ég er jafnvel enn leiðari yfir þessari embættisveitingu vegna þess að svo ágætur maður eins og Steingrímur Hermannsson, hæstv. ráðh., á í hlut. Ég harma að þetta mikla slys hefur komið fyrir og vona satt að segja að hann láti slíkt ekki henda sig aftur.