03.03.1983
Sameinað þing: 60. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2485 í B-deild Alþingistíðinda. (2286)

Umræður utan dagskrár

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Það fer ekkert á milli mála að langhæfasta umsækjandanum var hafnað, umsækjandanum sem hefur bestu menntunina, mestu reynsluna og lengsta starfsaldurinn hjá flugmálastjórn, 18 ár. En sá sem skipaður var hefur verið þar í tvö og hálft ár.

Hæstv. ráðh. segir að hans sé valdið og hann megi beita því að vild. Til hvers, hæstv. ráðh., segir í lögum að ráðh. skuli skipa flugmálastjóra að fengnum tillögum flugráðs? Til hvers stendur það í lögunum? Auðvitað til þess að eftir því sé farið. A. m. k. þegar lögboðnir umsagnaraðilar eru algerlega sammála, eins og hér var raunin á.

Flugráð er að mestu kosið af Alþingi. Það er fulltrúi Alþingis. Það er þingkjörin nefnd sem er hunsuð. Það er Alþingi sem er hunsað. Það er oft deilt á skipanir ráðh., embættisveitingar og með mismunandi miklum rökum. En ég man þó ekki til þess að ráðh. hafi gersamlega hunsað algerlega einróma tillögur lögboðinna umsagnaraðila, allra aðal- og varamanna þingkjörins ráðs.

Herra forseti. Hér er um herfilega valdníðslu að ræða af hendi hæstv. ráðh. og ber að mínu mati vott um sorglega mikla siðblindu. Og eins og hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði, þetta er áfall fyrir íslenska stjórnsýslu, mikið áfall.