04.03.1983
Efri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2494 í B-deild Alþingistíðinda. (2298)

211. mál, lán vegna björgunar skipsins Het Wapen

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég vil taka undir með þeim hv. þm. sem hér hafa talað, hæstv. utanrrh. og hv. þm. Eiði Guðnasyni, í því efni, að mér finnst vera ýmsir meinbugir á því, eins og ástatt er hér á Alþingi nú, að samþykkja þetta mál. Ég skal ekki ræða frekar um málið sjálft. Það kemur fram í grg. hvers eðlis það er. En ef litið er til þess að nú er Alþingi að fást við frv. til lánsfjárlaga, þá er auðvitað alveg ljóst að í þeirri miklu verðbólgu, sem nú er og sem verið hefur um langa hríð, er einn mesti vandinn varðandi lánsfjáráætlun einmitt að safna saman nægilegum fjármunum til þess að standa undir þeirri fjárfestingu sem þar er ráðgerð. Ég held að flestir hv. þm. og raunar fleiri séu sammála um það að ekki sé ráðlegt, svo að ekki sé meira sagt, að ganga lengra en gert hefur verið í því efni að taka erlend langtímalán. Sú stefna sem nú hefur verið mörkuð í lánsfjáráætlun varðandi langtímalántökur er að þær hækki ekki að raungildi frá því sem var um s. l. áramót.

Ég geri ráð fyrir því að þetta verði talsvert erfitt verkefni eins og ástatt er og það verði einnig talsvert erfitt verkefni að afla þess fjár innanlands sem gert er ráð fyrir í lánsfjáráætlun. Hér er um að ræða framkvæmd sem kostar verulegt fé og sem vitanlega verður að fjármagna á meðan. Það verður að fjármagna hana annaðhvort með innlendu fé eða þá með öðrum hætti. Um annað er ekki að ræða. Og þegar af þeirri ástæðu hversu þröngt er um fjáröflun til nauðsynlegra framkvæmda, til lífsnauðsynlegs rekstrar atvinnuveganna víðs vegar um landið, held ég að það yrði ekki Alþingi til sæmdar að samþykkja þetta mál eins og það liggur fyrir, þó að ég vilji í sjálfu sér ekkert nema gott eitt um málið sjálft segja. Það er, eins og hér hefur komið fram, lofsvert framtak manna. En það er allt annað mál hvort það á að koma inn á Alþingi og hvort á að samþykkja ríkisábyrgð til þess að standa undir hugsanlegu tapi vegna þessa verks. Ég fyrir mína parta get því vel lýst þeirri skoðun minni að ég verð andstæður þessu máli.