04.03.1983
Efri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2496 í B-deild Alþingistíðinda. (2300)

211. mál, lán vegna björgunar skipsins Het Wapen

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Í tilefni af ummælum hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar varðandi langlánanefndina vildi ég aðeins upplýsa það fyrir þá sem kannske eru því ekki svo kunnugir hvernig þau mál ganga til, að langlánanefndin starfar þannig að hún heldur fundi reglulega og tekur fyrir mál. Hún afgreiðir þau. Síðan ganga fundargerðir til allra ráðh. og ef þeir hafa ekki gert aths. við afgreiðsluna innan viku gengur ályktunin fram sem ákveðin hefur verið af langlánanefndinni. M. ö. o., þessi mál heyra þannig undir alla ríkisstj. og hafa gert um áratugi að ég ætla. Eigi að síður er það alveg rétt hjá hv. þm. að þessi mál heyra undir viðskrn. sem slík og ráðuneytisstjóri viðskrn. er formaður í langlánanefnd.

Hins vegar hefur það oft komið fyrir að ríkisstjórnir hafa tekið ákvarðanir um lántökur af ýmsu tagi. Sérstaklega er það vegna atvinnumála, vegna skipakaupa eða einhvers því um líks, og það hefur jafnvel verið gert enda þótt langlánanefnd hafi synjað um slíkar lántökur.

Ég vildi aðeins upplýsa þetta að gefnu tilefni.