04.03.1983
Efri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2499 í B-deild Alþingistíðinda. (2304)

211. mál, lán vegna björgunar skipsins Het Wapen

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það er óþarfi að gera lánsfjáráætlun og lánsfjárlagafrv. að umræðuefni hér nú. (ÓRG: Hæstv. ráðh. gerði það áðan.) Það verður upplýst hér síðar hvernig að þeim málum er unnið. Það mætti fræða hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson talsvert um það hvernig unnið er að lánsfjáráætlun, því að hann virðist ekki vel að sér í þeim efnum. svo að ekki sé meira sagt. Það eru nokkrar stofnanir sem undirbúa hana undir forustu fjmrh. Í fyrsta lagi er það Seðlabankinn. Seðlabankinn hefur skrá yfir öll lán og allar ráðstafanir, sem hafa verið teknar, og ákvarðanir varðandi lán. Síðan er það Framkvæmdastofnun ríkisins varðandi Framkvæmdasjóð Íslands og Þjóðhagsstofnun. Þetta eru þær stofnanir sem vinna að undirbúningi lánsfjáráætlunar. Viðskrn. kemur ekki þar nærri sem slíkt, þó að ég hafi unnið að henni sem ráðh. ásamt fjmrh. og dómsmrh. Það er annað mál. En ég skal ekki ræða nánar um þetta atriði nú. Það gefst tækifæri til þess síðar.

Varðandi það mál sem hér er á dagskrá vildi ég aðeins upplýsa það að mér er kunnugt um að fyrirtækið, sem stendur að þessum tilætluðu björgunarframkvæmdum, hefur leitað eftir láni til banka og fengið þau svör að ekki sé um að ræða lánveitingar nema þá erlent lán og þá því aðeins að ríkisábyrgð fáist fyrir allri upphæðinni. Þetta tel ég rétt að komi fram þegar við 1. umr. málsins hér í Ed.