04.03.1983
Efri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2500 í B-deild Alþingistíðinda. (2305)

211. mál, lán vegna björgunar skipsins Het Wapen

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég mun að sjálfsögðu fara að óskum forseta um að tefja ekki þetta mál því að mér er umhugað um að það geti gengið sína leið til nefndar þegar við þessa umr. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að í frv. er kveðið svo á, að bæði skuli afla tryggingar og eins er tekið fram að það eigi að hafa samráð við fjvn. um lokaákvörðun. Þarna er því um að ræða vissar bremsur sem engin leið er að líta fram hjá þegar um málið er fjallað.

Varðandi það sem fram kom hjá hæstv. viðskrh. hér áðan og er að sjálfsögðu óþarfi að ræða nánar, þá var innlegg hans að því leyti gagnslaust sem rök gegn þessu máli, að lánsfjáráætlun og útvegun fjár hennar vegna er allt annað mál en það sem hér er um fjallað. Ég tek undir það sem komið hefur hér fram í þessum umr., m. a. hjá hv. þm. Stefáni Jónssyni, að menn eru mjög bjartsýnir og telja sig nánast hafa vissu fyrir því að skipið sé fundið. Það er að sjálfsögðu hægt að fá vitneskju um það frá mörgum aðilum, bæði erlendum og innlendum. En það sem ég legg nú hvað mest upp úr í þeim efnum eru skoðanir manna sem þekkja til á þessum stöðum og kunna sögur um strönd við sandana í Austur-Skaftafellssýslu. Ég hef oftar en einu sinni og oftar en tvisvar talað mjög rækilega um þetta mál við Ragnar í Skaftafelli, sem kann sögu þessa skipsstrands mjög rækilega og veit mjög greinilega hvernig varningur úr þessu skipi dreifðist. Hann hefur sínar skoðanir á því hvernig sá farangur sem var neðan þilja í skipinu muni hafa varðveist, m. a. vegna þess að það hafi ekki verið unnt að bjarga honum. Skoðanir þessa mæta manns hafa mjög eflt trú mína á því að þarna væri um merkan skipsfund að ræða.

Ég ætla ekki að tefja þetta frekar, en vænti þess að fjh.- og viðskn. greiði fyrir þessu máli í gegnum deildina.