04.03.1983
Efri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2500 í B-deild Alþingistíðinda. (2306)

211. mál, lán vegna björgunar skipsins Het Wapen

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Þetta mál á ákaflega sterk ítök í mörgum þm. að því er virðist og mér sýnist að sumu leyti óskiljanlega sterk. Það er alveg rétt sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði áðan, að hér er ekki um venjubundið mál að ræða. Það er kannske mergurinn málsins. Sömuleiðis má segja um þá félaga, hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 11. þm. Reykv., að þeirra málflutningur í þessu máli og þeirra rök voru heldur ekki venjubundin. Satt best að segja sé ég ekki alveg með hverjum hætti Katanesdýrið kemur málinu við. Þó má kannske segja það með þeim hætti sem hv. þm. gerði hér og okkur til skemmtunar. Síðan var rekstri Akranesferjunnar. Akraborgar, flækt hér inn í umr. Það gerði hv. 11. þm. Reykv. Ég sé heldur ekki með hverjum hætti það mál tengist þessu. En þetta er nú kannske önnur saga og ég ætla ekki að blanda mér í þær umr. sem hér hafa orðið um lánsfjáráætlun.

Þegar þetta mál var til umr. í Sþ. við meðferð fjárlaga minnist ég þess, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson flutti langa og mjög hástemmda ræðu um menningarverðmæti. Það er alveg rétt, þetta eru menningarverðmæti. En þetta eru hollensk menningarverðmæti. Þessi verðmæti snerta ekki Ísland eða íslenska sögu nema aðeins með þeim mjög óbeina og tilviljanakennda hætti, að þetta skip skyldi reka hingað undan ofviðri og stranda. Þetta skip átti aldrei að koma hingað og átti hingað ekkert erindi. Þetta eru hollensk menningarverðmæti. (Gripið fram í.) Vissulega. Og hvers vegna þá ekki? Ef þetta mál er jafnmikilsvert þeim Hollendingum og hér er látið í skína hljóta þeir, eftir að hafa kynnt sér gögn málsins, að vera meira en fúsir til að ganga í nokkra ábyrgð og freista þess að bjarga þessum verðmætum, sem eru einstæð fyrir hollenska sögu, en skipta okkur og íslenska sögu, íslenska menningu ákaflega litlu máli. Er þar kannske forvitnilegt hliðarspor, tilviljanakennt þó.

Mér sýnist að ef þetta mál er jafnglæsilegt og þær vonir, sem við björgunina eru bundnar, jafngylltar og hér er óspart látið í skína, þá eigi auðvitað að gera þetta með þessum hætti. Það er ekki nokkur ástæða til þess að íslenskum þegnum sé bökuð fjárhagsleg ábyrgð og þeir taki á sig fjárhagslegar skuldbindingar vegna þessa framtaks nokkurra dugmikilla einstaklinga. Það er líka furðulegt að hér skuli mönnum vera álasað fyrir það að vilja nú fara varlega með þeim rökum að það hafi nú ekki verið farið varlega áður. Slíkur málflutningur er auðvitað gersamlega með endemum. Ég held að það sé rík ástæða til þess að fara hér varlega, m. a. af þeim ástæðum sem ég rakti hér áðan, þeim mikla vanda sem við eigum við að stríða um þessar mundir. Atvinnuöryggi er í hættu út um allt land. Þm. Vesturlands sátu á fundi í morgun með fulltrúum útgerðarfyrirtækis í Ólafsvík þar sem blasir við stöðvun. Þar er um smávægilega upphæð að ræða miðað við þetta. Það gengur illa að fá eðlilega fyrirgreiðslu í því máli til að tryggja atvinnu á þeim stað. Hvernig í ósköpunum er svo hægt að ætlast til að menn hlaupi til og rétti upp hendina þegar beðið er um 50 millj. kr. lánstryggingu, gegn tryggingum í því sem við vitum ekki hvort er til? Hvernig í ósköpunum er hægt að ætlast til þess`? Mér finnst ekki hægt að ætlast til þess.