04.03.1983
Efri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2502 í B-deild Alþingistíðinda. (2318)

184. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Allshn. Ed. hefur fjallað um þetta frv. og mælir með að það verði samþykkt. Hér er um að ræða stjfrv. sem má segja að sé flutt í framhaldi af þeim lagfæringum sem gerðar voru á lögum um kosningar til Alþingis og ég ásamt fleiri hv. þm. Ed. flutti frv. um á sínum tíma.

Það eru ýmis atriði hér sem mig langar til að minnast á. Varðandi 2. gr. frv. kom það í ljós eftir að kjördagur var fluttur frá sunnudegi til laugardags að ýmsir töldu sig af trúarástæðum ekki geta sótt kjörfund á kjördegi. þ. e. laugardegi. Þessari breytingu mun ætlað að koma til móts við þessa aðila, enda þykir sjálfsagt að taka tillit til slíks.

Síðan eru það margumræddir stimplar sem um er fjallað í 3. gr. frv. Er hér lagt til að áfram verði sá valkostur að menn geti ýmist skrifað eða stimplað bókstaf þess lista sem viðkomandi vill kjósa. Eins og mörgum hv. alþm. mun vera minnisstætt fóru þessir stimplar nokkuð fyrir brjóstið á þeim embættismönnum sem annast undirbúning kosninga og bera ábyrgð á þeim. Það er ef til vill skiljanlegt þegar um slíkar nýjungar er að ræða að menn vilji fara varlega, en ég vil ítreka það að stimplarnir varðandi utankjörstaðaratkvæðagreiðslu voru í fyrsta lagi hugsaðir til að auðvelda blindum, sjóndöprum og handarvana að kjósa hjálparlaust, þ. e. að nota þau mannréttindi sem leynileg atkvæðagreiðsla er án aðstoðar, og í öðru lagi til að fækka ógildum atkvæðum.

Eftir sveitarstjórnarkosningar á síðasta vori óskaði ráðuneytið eftir greinargerð kjörstjóra um reynslu af notkun stimplanna við utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Einnig var leitað álits yfirkjörstjórna í kaupstöðum og Blindrafélagsins. Það er ánægjulegt til þess að vita að niðurstöður yfirkjörstjórna voru þær að stimplanotkunin hefði komið sér vel í störfum þeirra. Hún hefði auðveldað talningu og fækkað vafaatkvæðum verulega. Að vísu lét yfirkjörstjórnin í Reykjavík þess getið, að til hennar hefði verið kvartað yfir því, að það hefði mátt sjá af röðun stimplanna, þegar kjósandi hafði lokið kosningu, hvaða stimpil hann hafði notað. Sömuleiðis hefði mátt sjá í gegnum atkvæðaseðilinn hvernig kosið var væri seðillinn borinn upp að ljósi. Nú hefur það nú að vísu ekki með stimplana að gera hvernig atkvæðaseðlarnir hafa verið útfærðir, en langflestar yfirkjörstjórnir mæltu með áframhaldandi notkun stimpla við utankjörfundaratkvæðagreiðslu.

Svör kjörstjóranna voru nokkuð mismunandi, en þó töldu langflestir stimplanotkunina vera til bóta. Getið er um bæði kosti og galla varðandi notkun stimplanna. Gallarnir eru fyrst og fremst taldir tæknilegir, t. d. að blindraletrið á stimplunum hafi ekki verið af réttri stærð og því erfitt fyrir blinda að átta sig á því, að merking með bókstöfunum hafi ekki verið nógu greinileg fyrir sjóndapra og að stimplarnir hafi viljað festast við notkun.

Blindrafélagið taldi reynslu af notkun stimplanna jákvæða, en bendir jafnframt á að lagfæra þurfi stærð letursins.

Mér þótti rétt að koma hér aðeins inn í þessi atriði. Einnig langar mig að koma því hér að varðandi útfærsluna á svonefndum „skapalónum“, sem áttu að fylgja stimplunum, að hún var fyrir neðan allar hellur. Á sínum tíma hafði verið látið fylgja skapalón með stimpli, þegar ráðuneytinu voru send þessi gögn, en útfærslan á þeim er með ólíkindum. Ég vildi láta þessa getið hér vegna þess að ég hef komið ósk á framfæri við ráðuneytið um að úr þessu verði bætt. Það er ekki mikill kostnaður sem því fylgir að skera út eitt lítið pappaspjald með ramma af réttri stærð fyrir stimpilinn sem nota á. Þetta er það sem ráðuneytið lét útbúa.

Þetta er eins og það á að vera. Það þykir mér rétt að komi hér fram.

Nefndinni þótti rétt að samþykkja það að framlengja þennan valkost, þ. e. að menn geti enn valið um að rita eða stimpla á kjörseðilinn þann bókstaf sem þeir velja, og fá lengri reynslutíma í trausti þess að reynt verði að finna lausn á þeim tæknilegu göllum sem fram hafa komið og bent hefur verið á.