04.03.1983
Neðri deild: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2518 í B-deild Alþingistíðinda. (2335)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Í framhaldi af orðum síðasta hv. ræðumanns vil ég aðeins segja, að sá kjarni sem fram gekk af hans munni er ástæðan fyrir því af hverju maður telur stundum að svona lagasetningu beri að forðast eða a. m. k. megi vera mjög hræddur við hana.

Hann ræddi um innfluttar kvikmyndir sem hættulegar væru frá ýmsum sjónarmiðum. Kjarni málsins er sá, að það er ekki til nema einn endanlegur dómari um það, hvað almenningi hentar í þessum efnum og öðrum skyldum, og það er almenningur sjálfur. Og ef við erum að tala um hluti eins og menningarstig er auðvitað aðeins einn endanlegur dómstóll og mælikvarði á það, hvert menningarstig er og með hverjum hætti, og það eru þeir sem menningarinnar neyta og njóta. Sú haftahugsun, sú menningarlega haftahugsun, sú forsjárhyggja, sem fram kom í máli síðasta hv. ræðumanns, það er nákvæmlega þetta sem menn hafa ástæðu til að óttast þegar til lengri tíma er litið.

Ég undirstrika að þetta er eitt mál. Annað mál er hitt, að tilteknar fáar kvikmyndir, sem hér hafa verið fluttar inn, hafa kannske haft skaðleg áhrif á þá sem ungir eru og sem fyrir vikið hafa verið að sjá hluti sem óhollir og óheilbrigðir geta talist fyrir æsku sakir. Það er allt annað mál.

En mér heyrðist einmitt að í síðustu ræðu hv. þm. hafi verið saman dregið í örstuttu máli nákvæmlega það sem óttast ber við lagasetningu af þessu tagi. Sannast sagna verður maður hræddur ef einhver lesari Alþingistíðinda fer í framtíðinni að draga dóm af því hvað þessi lög þýði af ræðu hv. síðasta ræðumanns.

Á þessu, herra forseti, vildi ég vekja athygli eftir síðustu ræðu. Því brýnna er að „sólarlagsaðferðinni“ sé beitt vegna þess að hinn endanlegi dómari um almenningsheill í þessum efnum og öðrum er ekki hv. þm.

Halldór Blöndal, heldur almenningur sjálfur.