04.03.1983
Neðri deild: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2519 í B-deild Alþingistíðinda. (2336)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessa umr. miklu lengur, en mig langar þó til að koma með nokkrar ábendingar fyrir hv. þd. til athugunar.

Í frv. segir að bannið sem hér um ræðir nái ekki til kvikmyndar vegna listræns gildis hennar. Nú langar mig að spyrja hv. menntmnm.: Hver á að dæma um hvað sé listrænt ofbeldi? Eru það stjórnendur menntamála þjóðarinnar, hverjir eru það? Sjónvarpið? Þetta bann nær ekki til sjónvarpsins. Eigum við ekki að gefa íslenskum foreldrum kröfurétt á sjónvarpið, ef það sýnir ofbeldiskvikmynd sem að mati foreldra skaðar börn þeirra?

Mat manna á þessu og öðru er ákaflega breytilegt. Við skulum taka sem dæmi skoðanir almennings á því hvað felst í orðinu „klám“. Hv. þm. Halldór Blöndal sagði í framsöguræðu sinni, með leyfi forseta, á þessa leið:

„Við teljum í menntmn. að þetta orðalag sé nægilega skýrt til þess að það taki til svokallaðra klámkvikmynda. Við teljum að þar sé um misþyrmingar á mönnum að ræða og teljum að slíkar kvikmyndir felist innan þeirrar skilgreiningar sem hér er gefnu á orðinu „ofbeldiskvikmynd“.“

Nú liggur fyrir að það sem fyrir nokkrum árum var talið klám í kvikmyndum þykir í dag eðlilegt að sýna sem eðlileg samskipti karls og konu. Ég veit satt að segja ekki hvernig menntmn. þessarar hv. deildar fær þessu komið undir ofbeldi. Ég verð að biðjast velvirðingar á því, en ég skil það ekki.