04.03.1983
Neðri deild: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2524 í B-deild Alþingistíðinda. (2339)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Hæstv. menntmrh. gat þess, að of miklar umr. hefðu farið fram um þetta mál. Það vill svo til að svo er alls ekki. Þessu máli var útbýtt á síðasta ári í hv. deild. Það gengur athugasemdalaust til nefndar. Það kemur frá nefnd athugasemdalaust og er lagt til að það verði samþykkt. En það er fyrst við framhald 3. umr. að menn sjá ástæðu til að gera aths. svo að um munar og taka málið efnislega til meðferðar og tala sig meira en dauða. Ég veit ekki betur en ég eigi að vera hér í þjónustu m. a. hæstv. ríkisstj. til að koma fram málum hennar tugum saman áður en þingi lýkur, en samt þykjast menn hafa efni á því að verja tímanum í þessar umr. endalaust. Ef þessu fer fram sem nú horfir hlýt ég að taka þetta mál endanlega út af dagskrá.