04.03.1983
Neðri deild: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2527 í B-deild Alþingistíðinda. (2353)

22. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þá skoðun hv. 1. þm. Vesturl. að það sé ekki rétt að Alþingi sé að skipta sér af því hvaða leiðir sveitarfélög velja til þess að afla sér tekjustofna. En ég vil jafnframt lýsa því yfir að ég hef fulla samúð með þeim aðilum sem eiga sumarbústaði vítt og breitt um landið. Á þá eru lögð ansi mikil gjöld.

Með þeirri till. sem hér er til umr. er býsna langt seilst. Svo sem 1. þm. Vesturl, upplýsti er einnig til meðferðar á hv. Alþingi till. um að fella gjöld af sumarbústöðum í sambandi við sýsluvegaskatt. Ég tel það miklu fýsilegra að sú leið verði farin. Það verður að viðurkenna að sá skattur er óeðlilegur og ranglátur vegna þess að sýsluvegir að þessum sumarbústaðabyggðum eru mjög lítið gerðir. Aftur á móti verða sveitarfélögin að halda ýmissi þjónustu uppi vegna þessara sumarbústaðabyggða. Ég teldi því eðlilegt að meðan mál um sýsluvegaskattinn er í athugun í samgn. verði beðið með að afgreiða þetta mál. Ég tel að það væri mjög góð lausn fyrir sumarbústaðaeigendur ef það fengist í gegn að gjöld til sýsluvegasjóðs verði felld niður af sumarbústöðum. Þá mætti hitt óbreytt standa, þ. e. tekjurnar til sveitarfélaga.