04.03.1983
Neðri deild: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2530 í B-deild Alþingistíðinda. (2360)

61. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Frsm, meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. gerir ráð fyrir því að framlengja sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði á þessu ári. Sams konar frv. var fyrst flutt að mig minnir haustið 1978 og kom til framkvæmda á árinu 1979. Síðan hefur þessi skattlagning verið viðhöfð. Sjálfstfl. lýsti yfir fullri andstöðu við þennan skatt þegar slíkt frv. var fyrst flutt og skoðun okkar er óbreytt og hefur verið síðan. Við teljum óeðlilegt að leggja sérstakan skatt á húsnæði fyrir einhverja eina ákveðna atvinnugrein í landinu. Því höfum við verið andvígir þessu frv.

Auk okkar skrifar undir þetta nál. fulltrúi Alþfl., Magnús H. Magnússon. Alþfl. lýsti því yfir fyrir ári síðan að hann vildi lækka þennan skatt um helming á þessu ári, því að þegar þessi skattur hafði upprunalega verið lagður á hafði verið reiknað með að hann yrði til mjög skamms tíma. Flokkurinn hafði svo tekið ákvörðun um að greiða atkv. gegn skattinum á árinu 1983. Við skipum því meiri hl. í fjh.- og viðskn. í þessu máli. Leggur þessi meiri hl. n. til að frv. verði fellt.