04.03.1983
Neðri deild: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2543 í B-deild Alþingistíðinda. (2375)

130. mál, málefni fatlaðra

Frsm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. félmn. um frv. um málefni fatlaðra. Þetta frv. hefur fengið mjög ítarlega umfjöllun í n., bæði á þessu þingi og eins á síðasta Alþingi eða 104. löggjafarþingi, þegar það var fyrst lagt fram. Á því þingi gerði félmn. við það margar brtt. og skilaði nál. um málið, en lengra en til 2. umr. komst málið ekki á því þingi. Þegar málið var á nýjan leik lagt fram á yfirstandandi Alþingi hafði það tekið þeim breytingum að upp voru teknar inn í frv. allar brtt. félmn. frá fyrra þingi og frv, lagt fram í þeim búningi, en sem fskj. með frv. voru lagðar fram brtt. frá samráðsnefnd um málefni fatlaðra, sem fjallað hafði um málið á milli þinga. Hefur nefndin haft þær brtt. til hliðsjónar nú við afgreiðslu málsins í nefndinni, auk þess sem málið var á nýjan leik sent til fjölmargra aðila til umsagnar, eins og fram kemur í nál. félmn. nú.

Áður en ég geri grein fyrir brtt., sem félmn. flytur á sérstöku þskj., er rétt að geta þess, að einstakir nm. lögðu til við umfjöllun nefndarinnar um málið ýmsar aðrar brtt. við nokkrar greinar frv., sem ekki náðist samstaða um í n. En til þess að ná samkomulagi um málið nú á þessu Alþingi og freista þess að fá afgreiðslu, jafnvel þótt einstakir nm. væru ekki fullkomlega sáttir við ýmis ákvæði frv. varð það þó niðurstaða n. að afgreiða málið úr nefndinni með sameiginlegum brtt., sem fluttar eru á þskj. 426. Í því sambandi má nefna að gildistaka laganna er ekki fyrr en 1. jan. n. k., nema ákvæðis til bráðabirgða, sem nefndin leggur til að taki gildi strax. Ýmis ákvæði frv. krefjast nokkurs undirbúnings. svo sem að koma á fót og skipa svæðisstjórnir á hverju svæði og skipa stjórnarnefnd, auk þess sem á fjárlögum á yfirstandandi ári er ekki gert ráð fyrir þeim kostnaði sem af frv. leiðir. Því gefst tækifæri á næsta Alþingi að gera breytingar á einstökum greinum, sem einstakir nm. leiða hjá sér á þessu stigi málsins að gera brtt. um. til að freista þess að ná samkomulagi í deildum þingsins og afgreiða málið nú fyrir þinglok.

Ég vil þá gera grein fyrir brtt. n. Í fyrsta lagi telur n. rétt að þar sem málefni fatlaðra heyra undir þrjú rn. samkv. frv. sé eðlilegt að úrskurði um ágreiningsatriði sé vísað til ráðh. sem það mál heyrir undir sem ágreiningurinn stendur um. Í 1. tölul. í brtt. er lagt til að 1. mgr. 3. gr. orðist svo:

„Nefndin úrskurðar ágreiningsatriði, sem upp kunna að koma vegna framkvæmdar laga þessara, en vísa má þeim úrskurði til viðkomandi ráðh.“

Félmn. leggur til að í 3. tölul. 6. gr. sé bætt inn ákvæði um námsráðgjöf, en í þeirri grein er talin sú þjónusta sem á að vera á hverju svæði.

Í 6. gr. frv. er talin upp sú þjónusta sem stefnt skuli að að sé á hverju svæði. Þar er tekið fram að veita skuli fötluðum þjónustu á almennum stofnunum eftir því sem unnt er, og er það auðvitað meginreglan, að eftir því sem við verður komið fái fatlaðir þjónustu á almennum stofnunum.

En í 7. gr, eru taldar upp þær stofnanir sem eru fyrir fatlaða. Í grg. með frv. er skilgreint hvað við er átt með hverri stofnun, sem þar er upp talin, en nánari skilgreining hefði þó þurft að vera á 5. tölulið um meðferðarheimili. Þar er einkum átt við heimili fyrir börn og unglinga með geðrænar truflanir eða aðrar meiri háttar fatlanir. Heimili af þessu tagi eru m, a. ætluð börnum og unglingum sem þarfnast dvalar um lengri tíma. Einnig má benda á varðandi skóladagheimili að það hefði þurft nánari skilgreiningar við í grg., en hér er átt við dagvistunaraðstöðu fyrir börn á skólaskyldualdri sem geta lítið eða ekkert séð um sig sjálf og ekki þykir ástæða til eða allsendis ófært að hafa á almennum skóladagheimilum.

Í 8. gr, er fjallað um umsóknir og vistun á stofnunum fatlaðra, og er þar ákvæði um að svæðisstjórn á viðkomandi svæði mæli með vistun á stofnunum fatlaðra að höfðu samráði við forstöðumann stofnunar og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Nefndin leggur til að í stað „Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins“ komi: viðkomandi greiningar- og ráðgjafaraðili. — Þykir rétt að binda samráð ekki eingöngu við Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, enda gæti í einhverjum tilfellum greining og meðferð á fötluðum einstaklingum farið fram á hinum einstöku svæðum, sem ráð er fyrir gert í frv., og verið í höndum sérfræðinga utan Greiningarstöðvar ríkisins. Gera má þó ráð fyrir að í flestum tilfellum verði samráðsaðili Greiningarstöð ríkisins.

Sama á við um 10. gr., en þar er lagt til að í stað „Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins“ komi: viðkomandi greiningar- og ráðgjafaraðili.

Í 14. gr. frv. er fjallað um tilkynningarskyldu, en þar segir, með leyfi forseta:

„Komi í ljós einkenni eftir fæðingu, er benda til þess að barn geti verið fatlað, ber viðkomandi heilbrigðisstarfsmanni í samráði við foreldra að tilkynna það svæðisstjórn. Jafnframt skal í heilsugæslustöð fara fram frumgreining. Skal foreldrum gerð grein fyrir hugsanlegri fötlun. Tilkynna skal niðurstöður frumgreiningar til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins ef þurfa þykir.“

Sú efnisbreyting, sem félmn. Nd. leggur til í þessari grein, er að svæðisstjórn og Greiningarstöð ríkisins verði ekki tilkynnt um hugsanlega fötlun fyrr en fram hefur farið greining sem leiði í ljós að þörf sé frekari greiningar og meðferðarúrræða. Þessi mál eru viðkvæm og vandmeðfarin og óþarfi að tilkynna það svæðisstjórn eða greiningarstöð nema niðurstaða frekari greiningar leiði í ljós nauðsyn frekari greiningar og frekari meðferðarúrræða.

Þá kem ég að IV. kafla frv. um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Umfjöllun um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hefur verið mjög ítarleg í nefndinni, bæði meðan þetta mál var í n. nú og eins á síðasta þingi. Því er ekki að leyna að um þennan kafla frv. hefur verið mikill ágreiningur. Þó einstakir nm. hafi haft efasemdir um Greiningarstöð ríkisins, m. a. í ljósi umsagna um málið, tel ég að allir nm. hafi lagt sig verulega fram í að finna ásættanlega lausn á þessum kafla frv. og góð samstaða hafi verið í nefndinni um að leysa þennan erfiða þátt frv.

Ágreiningurinn um þennan kafla frv. var fyrst og fremst milli menntmrn. og félmrn., auk þess sem ýmsir umsagnaraðilar, svo sem læknafélagið, höfðu aths. við þennan kafla frv. Ágreiningurinn milli ráðuneyta fólst í því, að fulltrúi menntmrn., Magnús Magnússon sérkennslufulltrúi ríkisins, taldi að óþarfi væri að setja á fót sérstaka Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, sem IV. kafli frv. gerir ráð fyrir, en taldi nægjanlegt að bæta við 13 sérfræðingum inn á þær stofnanir sem fyrir eru, sem að einhverju leyti sjá nú um greiningu og meðferð fyrir fatlaða. Það má segja að hér sé um stefnubreytingu að ræða, ef sú er skoðun menntmrn., því að það er ekki lengra síðan en tvö ár er Greiningarstöð ríkisins var eitt af forgangsverkefnum menntmrn.

Í Athugunar- og greiningardeildinni, Kjarvalshúsi, hefur farið fram frá árinu 1975 greiningar- og ráðgjafarstarfsemi hliðstæð þeirri sem ráð er gert fyrir í frv. Þessi deild hefur verið stjórnunarlega í tengslum við Öskjuhlíðarskólann undir yfirstjórn menntmrn. Ég tel engum vafa undirorpið að sú starfsemi, sem þar hefur farið fram við mjög þröngan kost, hefur þegar sannað hvílík nauðsyn er á því starfi sem þar fer fram. Það væri of langt mál að fara að rekja það starf, sem þar hefur farið fram, og rökstyðja frekar nauðsyn þess þó efalítið væri á því full nauðsyn miðað við þá gagnrýni sem fyrirhuguð Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hefur fengið, en það segir sína sögu að þar er nú tveggja ára biðlisti barna sem bíða eftir því að komast þangað. Starfið sem þarna fer fram byggist aðallega á greiningu á fötlun, að leita réttra meðferðarúrræða svo og ráðgjöf fyrir foreldra. Sú þjónusta, sem þarna fer fram, er því ómetanleg og mikilvæg undirstaða þess að mikið fatlað barn hafi möguleika til að ná sem bestum andlegum og líkamlegum þroska og kannski ekki síst það, að strax þegar fötlunarinnar verði vart dragist ekki að finna rétt meðferðarúrræði. Félmn. Nd. kynnti sér með sérstakri heimsókn starfsemina, sem fer fram í Athugunar- og greiningardeildinni, og sú heimsókn varpaði mjög skýru ljósi á hve brýn og nauðsynleg sú starfsemi er sem þarna fer fram. Það er í raun aðdáunarvert hverju fámennt starfslið fær þar áorkað í allt of litlu húsnæði.

Ég tel rétt, herra forseti, þar sem svo margar efasemdir eru á lofti um réttmæti Greiningarstöðvar ríkisins, sem ráð er fyrir gert í þessu frv., sem einnig hafa komið fram opinberlega, að vitna í örfá atriði úr greinargerð sem félmn. fékk frá Athugunar- og greiningardeildinni. Þar segir, með leyfi forseta, um það starf sem þar fer fram.

„Við athugun og greiningu á fötluðum einstaklingi er samvinna margra sérfræðinga, sem hafa faglega sérhæfingu á mörgum sviðum. forsenda þess, að rannsóknarniðurstöður verði marktækar og gagnlegar fyrir einstaklinginn. Þá er samtímis litið á alla þá þætti er skipta máli þegar lagt er mat á andlegan og/eða líkamlegan og félagslegan þroska einstaklingsins og þroskamöguleika hans. Foreldrar og aðrir, sem til málanna þekktu, börðust fyrir því á s. l. áratug að einn staður hefði með höndum athugun, greiningu og hlutlaust mat á þörf fyrir þjónustu, þjálfun og kennslu. Á þennan stað gætu allir leitað þegar um væri að ræða frávik í þroska eða grun um það. Þaðan yrði engum vísað frá. Reynsla fjölmargra foreldra fyrir þennan tíma var bæði ómannúðleg og óverjandi. Sérstaklega þegar sýnt hefur verið fram á að unnt er að byggja þjónustuna upp á annan veg en þá tíðkaðist. Áður þurftu foreldrar að ganga milli margra sérfræðinga, staða og stofnana. Þótt stundum tækist að fá upplýsingar um eðli og orsök vandamálsins skorti oftast meðferðarúrræði, sem síðan leiddi til óeðlilegrar tafar í meðferð og þjálfun og gat jafnvel haft það í för með sér að foreldrar gæfust upp á píslargöngu sinni. Mikils ósamræmis gætti oft bæði í greiningu og meðferð og enginn einn aðili bar ábyrgð á því að fatlað eða þroskaheft barn fengi viðeigandi sérþjálfun og meðferð að greiningu lokinni.“

Í bréfi Athugunar- og greiningardeildarinnar kemur fram, að ef leggja á niður greiningar- og ráðgjafarstarf eins og fram fer í Kjarvalshúsi boði það afturhvarf til þess tíma þegar foreldrar voru á vergangi með börn sín til að leita að þjónustu, sem var alls staðar og hvergi, og enginn bar ábyrgð á að tryggja sjálfsagða og nauðsynlega þjónustu. Ennfremur kemur fram, að með því að greining fari fram á einum stað skapist meira öryggi, að börn fari þegar í upphafi á rétta meðferðarstofnun og ekki fari dýrmætur tími til spillis í leit að þeirri meðferðarstofnun sem við á hverju sinni.

Þá er ennfremur bent á að mikilvægt sé að benda á þá hættu, sem er því samfara að foreldrar gefist upp í leit að úrræðum fyrir barn sitt, vegna þess að meðferð mistókst á einni eða fleiri meðferðarstofnunum, — ekki vegna hæfileikaskorts starfsfólks stofnunarinnar, heldur vegna þess að viðkomandi stofnun var ekki réttur meðferðaraðili. Áður gat það skeð að börn týndust þannig í kerfinu og jafnvel fóru mörg dýrmæt ár til spillis.

Herra forseti. Ég gæti rakið ýmislegt annað fróðlegt í þessari grg., sem ég hef vitnað til frá Athugunar- og greiningardeildinni Kjarvalshúsi, en ég læt þetta nægja að sinni.

Ég taldi nauðsynlegt, herra forseti, að ræða nokkuð ítarlega þennan kalla og mun gera frekar, ef tilefni er til, við umr. um þetta mál í þessari hv. deild. Eins og fram kemur í nál. hefur sá ágreiningur, sem uppi var um þennan kafla milli rn., nokkuð tafið afgreiðslu málsins úr n. og eins og þar kemur fram taldi n. nauðsynlegt að fá á sinn fund menntmrh. og félmrh. N. telur þó að með ákvæði sem flutt er til bráðabirgða, svo og breytingu sem gerð er á 16. gr., sé eftir atvikum sá ágreiningur leystur, en í því sambandi tel ég ástæðu til að draga hér fram einn þátt er varðar greiningarstöðina, sem ég tel að hafi átt drjúgan þátt í að móta andstöðu margra á móti greiningarstöðinni.

Í lögum um aðstoð við þroskahefta, sem samþ. voru á Alþingi 1979, var ákvæði um að komið yrði á fót Greiningarstöð ríkisins. Með stoð í þeim lögum liggur nú fyrir nokkur skipulags- og hönnunarvinna vegna byggingar greiningarstöðvar. Um er að ræða byggingu ca. 3000 fermetra húsnæðis, sem margir telja óeðlilega stóra og dýra byggingu, ekki síst með tilliti til þess fjármagns sem Framkvæmdasjóður öryrkja hefur yfir að ráða, en áætlaður kostnaður er um 70 millj. Ekki síst óttast margir, að þegar sjóðurinn þarf að taka á sig slíka fjárhagslega byrði hafi hann næstu árin ekki fjárhagslegt bolmagn, miðað við stöðu hans, að taka á sig nema að mjög takmörkuðu leyti uppbyggingu annarra þjónustuþátta fyrir þroskahefta og öryrkja, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Undir þessar efasemdir get ég tekið varðandi aðra þjónustuþætti.

Ég tel það einnig vera skoðun margra, m. a. flestra nm., að hér væri, miðað við aðstæður, ráðist í of stóra byggingu, ekki síst með tilliti til þess að erfitt var að skipta henni í áfanga. En þó að þessar efasemdir séu uppi varðandi stærð byggingarinnar er ekki verið að draga í efa nauðsyn þeirrar starfsemi, sem þar fer fram, en þessu hefur of mikið verið ruglað saman. Því hefur nefndin orðið ásátt um það ákvæði til bráðabirgða, sem flutt er á þskj. 426, að skipuð verði sérstök nefnd sem geri tillögur um fyrirkomulag og framtíðarskipulag Greiningarstöðvar ríkisins og tillögur nefndarinnar þar að lútandi verði lagðar fyrir Alþingi. Nefndarmenn telja eðlilegt að það verði gert í formi þáltill., sem fjvn. fjallaði síðar um, þar sem upplýsingar kæmu fram um fyrirkomulag ásamt upplýsingum um rekstur og stofnkostnað. Nefndin flytur brtt. við 16. gr., þar sem lagt er til að upphaf 16. gr. verði svohljóðandi:

„Auk þeirrar greiningarstarfsemi, sem fer fram á svæðunum samkv. 6. gr., skal ríkið starfrækja eina aðalgreiningar- og ráðgjafarstöð o. s. frv.“

Þetta ákvæði er sett til að gefa því aukið vægi að ekki er eingöngu fyrirhugað að greiningar- og ráðgjafarstarf fari fram í þessari einu greiningarstöð, heldur verði einnig um að ræða ákveðna greiningarstarfsemi um land allt í samræmi við ákvæði 6. gr. frv.

Við þessa grein leggur n. einnig til þrjár aðrar brtt.: 1. Að það verði ekki bundið við ákveðinn aldur hverjir fá þjónustu á Greiningarstöð ríkisins, þannig að hún sé opin öllum aldurshópum sem þangað þurfa að leita. Í annan stað leggur nefndin til að í 11. tölul. komi Hjálpartækjaþjónusta í stað Hjálpartækjabanki fyrir börn. Í þriðja lagi leggur nefndin til að í 8. tölulið, þar sem kveðið er á um að Greiningarstöð ríkisins eigi að vera umsagnaraðili varðandi umsóknir um þjónustu og vistun á stofnunum fatlaðra, bætist við orðin „þegar þess er óskað“, enda ætti að vera óþarfi að Greiningarstöð ríkisins sé skilyrðislaust umsagnaraðili vegna vistunar á þær þjónustustofnanir, sem upp eru taldar í 8. tölul., svo sem sumardvalarheimili.

Við 22. gr. leggur nefndin til, í kaflanum um atvinnumál í 2. mgr. 22. gr., að niður falli orðin „og Tryggingastofnun ríkisins, sbr. reglugerð nr. 319/1979 um öryrkjavinnu“, en í þessari grein er fjallað um tengsl atvinnuleitar við aðra aðila, sem fjalla um atvinnumál fatlaðra. Heppilegra þykir að í stað Tryggingastofnunar ríkisins og tilvitnunar í reglugerð með stoð í öðrum lógum komi ákvæði um að atvinnuleitin starfi í nánum tengslum við félmrn., vinnumiðlun viðkomandi sveitarfélags, aðila vinnumarkaðarins og aðra hlutaðeigandi aðila. Það er það sem n. bætir við: og aðra hlutaðeigandi aðila.

Félmn. leggur til að 3. mgr. 22. gr. orðist svo: „Svæðisstjórnir skulu hafa eftirlit með, að aðgengi fatlaðra verði sem best tryggt við byggingu nýrra vinnustaða, og gera tillögur um hvernig breyta megi eldri vinnustöðum í sama tilgangi. Jafnframt skulu svæðisstjórnir í samvinnu við stjórnendur fyrirtækja og trúnaðarmenn hlutaðeigandi stéttarfélaga beita sér fyrir fjölgun starfa fyrir fatlaða á vinnustöðum.“

Hér er ekki um neina veigamikla efnisbreytingu að ræða, og má segja, að það áhersluatriði, sem hér er lögð áhersla á, felist í því að í frv. var kveðið á um að svæðisstjórnir skyldu kanna með. viðræðum við stjórnendur fyrirtækja og trúnaðarmann hlutaðeigandi stéttarfélags hvernig fjölga megi störfum fyrir fatlaða. Í brtt. nefndarinnar er kveðið á um að svæðisstjórnir skuli beita sér fyrir fjölgun starfa fatlaðra á vinnustöðum í samráði við stjórnendur fyrirtækja og trúnaðarmenn stéttarfélaga.

Í 24, gr. er fjallað um ef gengið er á rétt fatlaðs manns við veitingu í starf, en samkv. þessu ákvæði getur svæðisstjórn krafið veitingarvaldshafa um greinargerð fyrir ákvörðun sinni í sambandi við stöðuveitingu ef bersýnilega er gengið á rétt fatlaðs manns við stöðuveitinguna. Lagt er til af hálfu n. að orðið „hersýnilega“ falli brott.

Í 1. mgr. 27. gr. er einungis um prentvillu í frv. að ræða. sem er leiðrétt með brtt.

Við 28. gr. gerir n. till. um það ákvæði er snertir kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga- við rekstur tiltekinna þjónustustofnana fatlaðra. Í stað þess að orða það þannig að sveitarsjóður greiði 15% kostnaðarins, þá komi: sveitarsjóðir greiði 15% kostnaðar. Þetta er sama fyrirkomulag og er nú í lögum um aðstoð við þroskahefta. Er litið þannig á, að öll sveitarfélög í hverju svæðisstjórnarumdæmi taki þátt í kostnaði stofnana óháð því í hvaða sveitarfélagi tiltekin stofnun er staðsett.

Í 4. mgr. 28. gr. er ákvæði um að ríkissjóður greiði alfarið reksturskostnað annarra stofnana, sem kveðið er á um í 7. gr., og ekki er kveðið sérstaklega á um kostnaðarskiptingu í þeirri grein.

Í 28. gr. frv. leggur n. til að við bætist eftirfarandi: nema þar sem um sértekjur er að ræða. -Þetta ákvæði er sett inn því að til að mynda á sambýlum greiða vistmenn hluta af örorkulífeyri til reksturs sambýlis og sama má segja um rekstur stofnana, t. d. á vegum Öryrkjabandalagsins, þar sem vistmenn greiða leigu af bótum sínum og lífeyrisgreiðslum.

Í 34. og 35. gr. er fjallað um Framkvæmdasjóð fatlaðra, hlutverk hans og tekjur. Þar leggur nefndin til að í stað þess að ríkissjóður skuli árlega leggja sjóðnum til a. m. k. jafnvirði 33 millj. miðað við l. jan. 1983 komi 55 millj. — Varðandi þessa breytingu er þess fyrst að geta, að þegar félmn. fjallaði um þennan þátt frv. á síðasta þingi lagði nefndin til að 33 millj. rynnu í sjóðinn miðað við 1. jan. 1982, sem síðar fylgdi hækkun byggingarvísitölu. Þegar frv. er lagt fram nú er kveðið á um 33 millj. miðað við 1. jan. 1983 í stað 1982 og því hefur talan ekki verið framreiknuð sem eðlilegt hefði verið, ef taka hefði átt mið af því sem félmn. lagði til á síðasta þingi. Benda má einnig á að Framkvæmdasjóður öryrkja og þroskaheftra, sem nú fjármagnar framkvæmdir sem unnið er að samkv. ákvæðum laga um aðstoð við þroskahefta hefur á yfirstandandi ári tæpar 40 millj. kr. Hér er því um óeðlilega lækkun að ræða, ekki síst með tilliti til þess að verkefni Framkvæmdasjóðs öryrkja og þroskaheftra eru stórlega aukin með ákvæðum þessa frv. Um það ræddi ég við 1. umr. þessa máls og skal ekki endurtaka hér. Auk þess er langt í frá að sjóðurinn geti fjármagnað, miðað við stöðu hans, þær framkvæmdir sem lögin um aðstoð við þroskahefta kveða á um. Reyndar er svo komið að skuldbindingar hans eru orðnar það miklar að hann getur ekki nema að litlu leyti hætt við sig nýjum verkefnum, a. m. k. næstu tvö árin, miðað við óbreytt fjármagn. Hér er ekki um mikla viðbót að ræða, sem lögð er til, en ef samþykkt verður sýnir hún viðleitni löggjafarvaldsins til þess að hægt sé að byrja að hrinda í framkvæmd að einhverju leyti ákvæðum þessa frv.

Í 39. gr. frv. er kveðið á um að svæðisstjórnir skuli fylgjast með framkvæmd laganna og gera tillögur um úrbætur. Nefndin gerir tillögur um að við bætist að tillögur um úrbætur séu sendar viðkomandi rn., sem hefur með höndum þann málaflokk, sem úrbóta er þörf í.

Í 41. gr. er kveðið á um skyldu svæðisstjórna og stofnana fatlaðra til að senda viðkomandi rn. reikning yfir rekstur eigi síðar en fyrir lok febrúar. Svæðisstjórnir hafa lagt áherslu á að í stað febrúar komi mars og telja sig þurfa þann tíma til að skila inn reikningum og skýrslum yfir veturinn. Félmn. hefur fallist á þessa till. og leggur til að í stað febrúar komi mars.

Í 2. mgr. 41. gr. er einungis um leiðréttingu að ræða, þar sem talað er um sundurliðað kostnaðarálit í stað kostnaðaryfirlits.

Í 43. gr. leggur n. til nýja mgr. svohljóðandi: „Reglugerðir, er snerta framkvæmd 10.–16. gr . og 19. gr. laga þessara, skal senda félmn. Alþingis til umsagnar. Hér má segja að sé um nýmæli að ræða, að því er ég best veit, í lögum. Í þessum lögum er gert ráð fyrir setningu allmargra reglugerða, sem nefndin telur rétt að félmn. fylgist með og fái sendar til umsagnar.

Í fyrsta lagi er það reglugerð um Greiningarstöð ríkisins, sem umdeild er eins og ég hef hér áður lýst. Í öðru lagi telur nefndin rétt að fá til umsagnar reglugerð um 19. og 10. gr. laganna, enda útgjöld vegna þessara greina mjög óviss, en í reglugerð má kveða á um skilyrði sem uppfylla þarf til að njóta styrkjar samkv. ákvæðum greinarinnar. Sérstaklega er það 19. gr., sem hægt er að túlka mjög víðtækt, og því ástæða að félmn. sé umsagnaraðili um ákvæði þeirrar greinar.

Í 44. gr. gerir n. tillögur um breytingu á gildistöku ákvæði greinarinnar, þannig að lögin taki gildi um næstu áramót, enda þurfa sum ákvæði frv. nokkurs undirbúningstíma við, auk þess sem á fjárl. nú er ekki gert ráð fyrir fjármagni vegna framkvæmda þessara laga. Nefndin undanskilur þó ákvæði til bráðarbirgða, sem fjallar um Greiningarstöð ríkisins, er nefndin leggur til að öðlist þegar gildi. Annars vegar er um að ræða skipun nefndar til að gera tillögur um framtíðarskipan Greiningarstöðvar ríkisins í samræmi við ákvæði 16. gr. laganna og ég hef áður lýst. Hins vegar er um að ræða ákvæði sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

Menntmrn. skal þegar í stað gera ráðstafanir til að leigja eða kaupa hentugt bráðabirgðahúsnæði fyrir starfsemi Athugunar- og greiningardeildarinnar í Kjarvalshúsi.

Kostnað vegna bráðabirgðahúsnæðis skal fjármagna úr Framkvæmdasjóði öryrkja og þroskaheftra. Verði um kaup að ræða á húsnæði sem ekki hentar framtíðarskipan Greiningarstöðvar ríkisins, sbr. 16. gr. skal endursöluverð þess húsnæðis renna til Framkvæmdasjóðs öryrkja, sem fjármagnar stofnkostnað, sbr. I. lið ákvæðis til bráðabirgða II.“

Um það eru allir sammála, að það þolir enga bið að finna húsnæði til bráðabirgða fyrir þá starfsemi sem nú fer fram í Kjarvalshúsi, þ. e. starfsemi Athugunar- og greiningardeildarinnar, eins og ég hef hér áður rakið. Bæði er það húsnæði mjög óhentugt til starfseminnar og allt of lítið fyrir þá starfsemi sem nú fer þar fram. Nokkur tími getur liðið þar til lausn finnst á framtíðarfyrirkomulagi Greiningarstöðvarinnar, ekki síst ef ákvörðun verður tekin um byggingu. Í þessu sambandi minni ég á þann tveggja ára biðlista, sem þegar er til staðar, og þau fjölmörgu börn, sem hafa ekki fengið þá nauðsynlegu þjónustu, sem Athugunar- og greiningardeildin veitir, og ég tel það ekki verjandi að lausn finnist ekki á vandamálum þess stóra hóps sem nú bíður eftir að komast í greiningu og meðferð. Auk þess er mér kunnugt um að það starfslið, sem nú vinnur í Athugunar- og greiningardeildinni, er hreinlega að gefast upp á aðstæðum og aðbúnaði í Kjarvalshúsi. Nefndin leggur til að þessi tvö ákvæði til bráðabirgða öðlist þegar í stað gildi.

Herra forseti. Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir þeim brtt. sem n. flytur á þskj. 426. Ég vil þó ekki skilja við þetta mál án þess að geta lauslega um álit fjárlaga- og hagsýslustofnunar á kostnaði við þetta frv., en félmn. leitaði eftir kostnaðarmati fjárlaga- og hagsýslustofnunar.

Það gefur auga leið að mjög erfitt er að gera kostnaðarmat á þessu frv., sérstaklega þar sem ekki er vitað hvað stór hópur það er í raun og veru sem þjónustuúrlausn fær samkv. ákvæðum þessa frv. Minni ég í því sambandi á skilgreiningu frv. í 2. gr. á hvað orðið „fatlaður“ merkir, en þar segir:

„Orðið fatlaður í þessum lögum merkir þá sem eru andlega eða líkamlega hamlaðir.“

Segir það sig sjálft að ógerningur er að kveða upp úr með hve stór sá hópur er og þá um leið hver verða útgjöldin t. d. samkv. 7. gr., þar sem talað er um stofnanir fyrir fatlaða, hve margir þurfi t. d. á að halda sambýlum, sumardvalarheimilum, meðferðarheimilum. vernduðum vinnustöðum o. s. frv. Fjárlaga- og hagsýslustofnun telur viðbótarkostnað vegna þessa frv., umfram það sem er samkv. gildandi lögum um fatlaða, rúmar 90 millj. Auk þess bendir fjárlaga- og hagsýslustofnun á ýmis ákvæði frv., sem ógerningur sé að meta hvaða áhrif hafa á útgjöld, þannig að hér er örugglega um töluvert meiri útgjaldaaukningu að ræða. Einnig kemur fram hjá fjárlaga- og hagsýslustofnun að árleg útgjaldaaukning ríkissjóðs vegna samþykktar frv. verður að lágmarki 26 millj., vegna aukins reksturs, en þetta er meira en tvöföldun fjárveitingar 1983 til framkvæmdar laga um aðstoð við þroskahefta, en hún er 19.8 millj., segir í umsögn fjárlaga- og hagsýslustofnunar.

Ég tel að útgjaldaaukningin, sem fjárlaga- og hagsýslustofnun bendir á, sé síst ofmetin og jafnvel í sumum tilfellum frekar vanmetin, eftir því sem ég hef kynnst þessum málum. og á ég þá sérstaklega við 7. gr. um stofnanir þroskaheftra, þar sem fjárlaga- og hagsýslustofnun telur kostnaðaraukningu vera um 3.3 millj., en ég tel, eins og ég hef áður bent á, að hafi í för með sér miklu meiri útgjaldaaukningu þar sem umtalsverð fjölgun verður á þeim hóp sem mun njóta réttar samkv. þessum lögum frá því sem var samkv. ákvæðum laga um aðstoð við þroskahefta.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mál mitt frekar en orðið er. Ég ítreka það, sem ég hef áður sagt, að í þessum brtt. felast þau ákvæði sem hægt var að ná samkomulagi um í n. Ég er sjálf ekki fullkomlega ánægð með ýmis ákvæði frv. og hef gert grein fyrir því í n., en tel þó eftir atvikum að sú samstaða sem náðist í nefndinni sé viðunandi og mun því ekki flytja brtt.. þó að ég hefði viljað sjá ýmis ákvæði frv. öðruvísi frá gengin en raun varð á. Ég vil leyfa mér að vænta þess. að þetta frv. verði að lögum á þessu þingi, þó stutt sé til stefnu. Æskilegra hefði verið að þetta mál hefði komið fyrr frá nefndinni, en ég tel mig hafa skýrt nægjanlega hvers vegna tafir urðu á afgreiðslu málsins. Auk þess er um viðamikinn lagabálk að ræða, sem krefst ítarlegrar yfirferðar og umfjöllunar, enda hefur málið fengið mjög ítarlega skoðun í n., bæði á þessu þingi og því síðasta.