08.11.1982
Neðri deild: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

Umræður utan dagskrár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Á miðvikudag í síðustu viku gerði ég þingflokki Alþfl. grein fyrir miklum vanda sem Námsgagnastofnun ríkisins er nú komin í. Það var álit þingflokksins að hér væri svo alvarlegt mál á ferðinni að eðlilegt væri að óska eftir því þegar í stað að svör fengjust hjá stjórnvöldum um hvernig leysa ætti. Á miðvikudag í síðustu viku ræddi ég einnig við hæstv. menntmrh. og sagði honum að ég hefði áhuga á að ræða þetta mál sérstaklega. Kvaðst hann ekkert hafa á móti því. Á föstudag fékk ég svo heimild hjá hæstv. forseta fyrir þessari umr. utan dagskrár, sem ég þakka fyrir og mun reyna að stytta eins og mögulegt er.

Námsgagnastofnun ríkisins var komið á fót með lögum 1979. Í reglugerð um stofnunina, sem gefin var út í oki. 1980, segir m.a.:

„Hlutverk Námsgagnastofnunar er að sjá grunnskólum fyrir sem bestum náms- og kennslugögnum. Námsgagnastofnun skal móta starfsemi sína í samræmi við markmið grunnskólalaga, svo og ákvæði aðalnámsskrár grunnskóla eins og þau eru á hverjum tíma. Námsgagnastofnun skal auðvelda grunnskólum hvar sem er á landinu að afla sér náms- og kennslugagna og veita þeim upplýsingar og sérfræðilega aðstoð. Auk gagna sem ætluð eru til almennrar starfsemi skóla skal stofnunin einnig hafa á boðstólum gögn vegna nemenda með sérþarfir. Heimilt er að fela Námsgagnastofnun að annast gerð náms- og kennslugagna fyrir aðra skóla en grunnskóla. Ennfremur er heimilt að fela stofnuninni alhliða þjónustu fyrir skóla og almenningsbókasöfn, svo sem miðskráningu bóka og nýsigagna,“ — ég skýt því hér inn í, herra forseti, að þetta er nýyrði um viðbótarefni — „útgáfu hvers kyns bókfræðilegra gagna og rita, er varða starfsemi bókasafna, svo og að annast útvegun og frágang á safnkosti, svo og dreifingu og framleiðslu bókasafnsgagna.“

Stofnuninni er ætlað að sinna mörgum fleiri verkefnum, en auðvitað er framleiðsla skólabóka fyrir 215 grunnskóla í landinu og 20–30 sérstofnanir langsamlega veigamesta verkefnið. Þessi umr. er hafin vegna þess í fyrsta lagi, að stofnunin hefur látið stöðva alla útgáfu kennslugagna af hvaða tagi sem er vegna fjárskorts. Hún skuldar nú prentsmiðjum og fleiri aðilum um 1 millj. kr. auk skulda í bönkum.

Í öðru lagi getur stofnunin ekki lengur afgreitt bækur til grunnskóla eins og lög mæla fyrir um. Þetta hefur þegar valdið umtalsverðum erfiðleikum í mörgum skólum, þar sem starfsfólk setur nú upp fjölföldunarvélar og ljósritar með ærnum tilkostnaði kennslugögn fyrir nemendur. Skóla landsins skortir sem sagt grundvallarkennsluefni, sem nemendum á að vera tryggt með landslögum. Þetta á bæði við um nýtt efni og endurprentað.

Í þriðja lagi hefur stofnunin orðið á þessu ári að prenta mun minna upplag af hverri bók en æskilegt getur talist. Með þessu móti hefur sjaldnast verið unnt að fullnægja eftirspurn og prentun hverrar bókar orðið dýrari af þessum sökum.

Í fjórða lagi, sem ég tel hvað alvarlegast, hefur stofnunin sáralítið getað gert í útgáfu námsefnis fyrir nemendur með sérþarfir, en til er áætlun um útgáfu þessa efnis á næsta ári fyrir 3.8 millj. kr. Fyrir liggur álit nefndar, sem starfaði á vegum menntmrn., um nauðsyn útgáfu þessa efnis, sem kæmi til góða heyrnarskertum, blindum og hreyfihömluðum.

Í fimmta lagi hefur stofnunin ekkert getað gert til að auka notkun myndbanda í skólum, en á hennar vegum er Fræðslumyndasafn ríkisins sem geymir nær allt sitt myndefni á 16 mm filmum. Stór hluti af því efni er úreltur og uppfyllir hvergi þær kröfur sem nú eru gerðar. Myndbönd eru víðast hvar í nágrannalöndum okkar talin ómissandi þáttur í kennslustarfi.

Í sjötta lagi er þess að geta, að stjórnvöld mótuðu ákveðna stefnu í framleiðslu kennslugagna þegar Skólarannsóknadeild var komin á fót. Hún býr til verkefni sem ekki er hægt að koma á framfæri vegna fjárskorts. Menn geta ávallt deilt um ágæti kennsluefnis. Það er hins vegar óumdeilt að hluti þess verður að vera í stöðugri endurskoðun vegna mikilla þjóðfélagsbreytinga. Það er ótækt að nota kennsluefni sem er skrifað fyrir annað þjóðfélag.

Í sjöunda lagi er þess að geta að starfssvið Námsgagnastofnunar er mjög viðamikið. Í heild eru verkefnin þessi: Núverandi verkefni Námsgagnastofnunar sem slíkrar eru útgáfa námsgagna og útvegun fræðslumynda, rekstur skólavöruverslunar og rekstur kennslumiðstöðvar, en hlutverk skólavörumiðstöðvar er útvegun á sérhæfðum og almennum skólavörum til grunnskóla. Undir útgáfu námsgagna falla grunnbækur, ítarefni, vinnubækur, vinnublöð, kennsluleiðbeiningar, handbækur, upplýsingahefti, skyggnur, glærur, myndspjöld, myndbönd, hljómbönd, námsspil, kort, landabréf, sérkennsluefni o.fl. o.fl.

Hlutverk Fræðslumyndasafns er gæsla fræðslumynda, kennslumynda. Undir það falla filmur, myndbönd, skyggnur, hljómefni. Undir Kennslumiðstöð heyrir: kynning, fræðsla, innlend og erlend námsgögn, ráðgjöf um tækjanotkun, sýningar á tækjabúnaði, gagnasmiðja, fræðslufundir eða námskeið. Auk þess eru til heimildarákvæði þess efnis, að Námsgagnastofnun búi til námsefni fyrir aðra skóla en grunnskóla, annist þjónustu fyrir skóla og almenningsbókasöfn, námsefnisgerð, þ.e. grunnvinnu, og starfi sem skólaminjasafn.

Hjá stofnuninni vinna nú rösklega 30 manns, en verulegur hluti starfsmanna er í svokölluðum óheimiluðum stöðum og launagreiðsla til þeirra er tekin af öðrum fjármunum stofnunarinnar. Þess ber að geta að þetta eru að hluta til gamlar stöður, og í vor þegar samið var um laun þessa fólks voru engar athugasemdir gerðar við þessar stöður.

Í áttunda lagi er þess að geta að af áætlun fyrir 1982, þ.e. fyrir þetta ár, varð stofnunin að fresta verkefnum fyrir 8.7 millj. kr. Í áætlun sem stofnunin gerði í maí s.l. taldi hún sig þurfa liðlega 40 millj. kr. á næsta ári. Er það þá auðvitað framreiknað til næstu áramóta og átt við allan kostnað. Að viðbættum þeim 8.7 millj. í verkefnum, sem frestað var, er fjármagnsþörfin tæplega 49 millj. kr. Fjárlagafrv. fyrir 1983 gerir hins vegar ráð fyrir 15.5 millj. kr. Munurinn er því litlar 33.4 millj. Ég vil geta þess að ef við skiptum þessum 15.5 millj. á þá 40 þús. nemendur, sem stofnuninni er ætlað að þjóna, munu það vera um 400 kr. á nemanda.

Herra forseti. Þetta mál snýst ekki eingöngu um það að leysa tímabundna og mikla erfiðleika Námsgagnastofnunar, heldur verður að fást svar við þeirri spurningu hvað stjórnvöld hyggist gera í næstu framtíð við þá stofnun, sem þjónar 40 þúsund nemendum í landinu, 215 grunnskólum, 20–30 sérstofnunum, er ætlað mikið hlutverk í útgáfu sérkennslugagna, við rekstur Fræðslumyndasafns og jafnvel að sjá framhaldsskólum fyrir bókum.

En það er líka önnur hlið á þessu máli og hún snertir húsnæði stofnunarinnar. Hið fræga Víðishús var keypt árið 1977. Árin 1978 og 1979 voru gerðar áætlanir um nýtingu þess og haustið 1981 var ákveðið að hefja viðgerð. Nýtt þak var sett á húsið með ærnum tilkostnaði, það hreinsað að innan og vinnupallar reistir við það allt. Frá síðustu áramótum hefur hins vegar ekkert verið unnið við húsið. Á neðstu hæð hússins hefur Skólavörubúð og kennslumiðstöð tekið til starfa, en neðsta hæðin liggur nú undir skemmdum vegna vatnsaga. Ég spyr: Hvað á að gera við þetta hús?

Herra forseti. Eftir að ég fór að kynna mér þetta mál fyrri hluta síðustu viku og ræða við skólafólk, þá hefur komið á daginn að menntmrn. virðist eiga í mjög umtalsverðum fjárhagsörðugleikum. Ég vil skjóta því hér inn, að að máli við mig og formann míns þingflokks hefur komið fulltrúi sem þingflokkurinn tilnefndi í nefnd, sem var ætlað það hlutverk að endurskoða störf og rekstur félagsheimila í landinu. Honum ásamt öðrum fulltrúa sem í nefndinni er, fulltrúa Alþb., sem báðir koma utan af landi, hefur ekki hingað til tekist að fá endurgreitt það sem þeir hafa lagt fram úr eigin vasa í ferða- og dvalarkostnað. Á föstudag s.l. var gerð mjög ítarleg tilraun til að fá þessar greiðslur hjá menntmrn., en mér tjáir þessi maður að hann hafi fengið þau svör að peningar væru ekki fyrir hendi og yrðu ekki á næstunni. Ég hef eingöngu hans orð fyrir þessu. Mér er kunnugt um að einn af hv. þm. Framsfl. hefur gert tilraun til að leysa þetta mál, en það var óleyst í gærkvöldi.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þetta lengra. Ég vona að hæstv. menntmrh. geti skýrt nánar frá stöðu þessa máls og fjárhagsstöðu menntmrn. og sagt frá því hvaða hugmyndir eru uppi um lausn málsins. Það er fjarri því að vera vansalaust og raunar mjög alvarlegt, þegar svo er komið, að við getum ekki lengur séð grunnskólum okkar fyrir lögbundnu kennsluefni. Ég vænti þess að hér fáist skýr og greinargóð svör. Mér er það ljóst að menntmrn. er mikill vandi á höndum og ég vil í lokin spyrja hæstv. menntmrh. að því beint, hvort ástandið í fjármálum menntmrn. sé orðið þannig í raun og veru að nánast sé hægt að tala um gjaldþrot rn. Það sé ekki lengur möguleiki fyrir rn. að greiða reikninga og skuldir sem því ber að greiða.