07.03.1983
Efri deild: 58. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2573 í B-deild Alþingistíðinda. (2429)

149. mál, kaupstaðarréttindi til handa Ólafsvíkurhreppi

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hér er um sérstætt mál að ræða, a. m. k. eins og það kemur nú til þessarar hv. deildar.

Frv. til laga um kaupstaðarréttindi til handa Ólafsvíkurhreppi er Nd.-mál. Flm. þess þar eru hv. þm. Alexander Stefánsson, Jósef H. Þorgeirsson, Skúli Alexandersson og hæstv. dómsmrh. Friðjón Þórðarson, sem sagt allir þm. Vesturlandskjördæmis sem sæti eiga í Nd. Þegar þetta frv. var lagt fram hljóðaði 2. gr. þess, með leyfi forseta, svo sem hér segir:

„Stofnsett skal sérstakt bæjarfógetaembætti í kaupstaðnum.“

Í meðförum Nd. varð hins vegar sú breyting á, að samþykkt var brtt. frá félmn. hv. Nd. á þá lund að 2. gr. orðist svo, með leyfi forseta:

„Sýslumaður Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu skal jafnframt vera bæjarfógeti kaupstaðarins.“

Nú hefði maður haldið að frv. til laga um kaupstaðarréttindi til handa Ólafsvíkurhreppi, þar sem hæstv. dómsmrh. er einn flm., hefði nokkra möguleika til þess að komast nokkurn veginn óbrenglað í gegnum þá hv. deild sem hér átti hlut að máli. Svo hefur þó ekki orðið í þessu tilviki. Ég finn mig mjög knúinn til við 1. umr. þessa máls í Ed. að fara um það nokkrum orðum og greina frá því, að ég mun við 2. umr. málsins, verði ekki sú niðurstaðan í n. að breyta frv. í upphaflegt form, flytja brtt. við 2. gr. frv. þannig að hún verði orðuð eins og upphaflega var kveðið á um í frv. þegar það var lagt fram. Um mörg undanfarin ár, mjög lengi, hefur verið rík óánægja í Ólafsvík með þá þjónustu sem íbúar staðarins hafa notið frá embætti sýslumannsins í Stykkishólmi. Þangað hafa komið starfsmenn þess ágæta embættis öðru hverju til þess að inna af höndum þá þjónustu sem íbúarnir þurfa að sækja til sýslumannsembættisins einu sinni til tvisvar í viku, kannske á stundum oftar. Í 12(H) manna byggð þurfa menn auðvitað mikið á þessari þjónustu að halda vegna margvíslegra löggerninga og greiðslna opinberra gjalda og þess háttar og það er óhagræði — og það er meira en óhagræði, það er erfitt og oft og tíðum næstum útilokað — að komast þarna á milli á vetrum þegar færð er slæm. Þeir sem búa úti á Hellissandi t. d. þurfa að fara fyrir Enni og Búlandshöfða, þeir sem búa í ólafsvík þurfa að fara langan veg inn í Stykkishólm.

Ég geri ráð fyrir að menn hafi það á móti stofnun bæjarfógetaembættis í kaupstaðnum að því fylgi verulegur kostnaður. Sjálfsagt fylgir því einhver kostnaður, ekki skal ég úr því draga, en það er hins vegar ólíku saman að jafna, Ólafsvík eða þeim stöðum sem síðast fengu hér kaupstaðarréttindi, svo sem Grindavík og fleiri stöðum þar sem menn hafa hlemmiveg og skamman veg að fara til þess að njóta þeirrar þjónustu sem hér um ræðir.

Hér er um hagsmunamál að ræða, sem íbúar Ólafsvíkur hafa lengi barist fyrir. Hinn 22. maí 1982 fór fram skoðanakönnun meðal kjósenda í Ólafsvíkurhreppi um það, hvort æskja skyldi kaupstaðarréttinda fyrir staðinn. Á kjörskrá þar voru 714 einstaklingar, en þátt í skoðanakönnuninni tóku 558 eða 78% kjósenda. 538 af þeim sem atkv. greiddu voru fylgjandi því að Ólafsvíkurhreppur fengi kaupstaðarréttindi, aðeins 9 voru því andvígir, 11 seðlar voru auðir og ógildir. Og ég ítreka það og legg áherslu á það, að meginástæðan að baki þess að svo breiður vilji hefur myndast meðal íbúa kaupstaðarins til þess að sækja um kaupstaðarréttindi er fyrst og fremst að bæta þjónustu í byggðarlaginu. Menn hafa átt ákaflega erfitt með að sætta sig við það að þurfa að sækja þessa þjónustu um svo langan veg sem er frá Ólafsvík inn í Stykkishólm.

Nú er þetta ekki nýtt mál, síður en svo. Um þetta hafa umr. verið á döfinni í meira en áratug. Í janúar 1974 sendi oddviti Ólafsvíkurhrepps bréf til dómsmrn. varðandi óskir hreppsbúa um aukna þjónustu. Síðan hafa töluvert fleiri bréf verið send og raunar fyrr. Í júlí 1973 var þess óskað að þarna yrði breyting á og í janúar 1973 gerði hreppsnefndin í Ólafsvík samþykkt og óskaði þá aðeins þess að fulltrúi með dómararéttindum yrði staðsettur í Ólafsvík til þess að sjá um afgreiðslu dómsmála, tollafgreiðslu o. fl. En þessar óskir íbúanna hafa ekki fengið neinn hljómgrunn eða svo til neina náð fyrir augum yfirvalda.

Sumarið 1980 voru enn uppi miklar óskir um að úr þessu yrði bætt. Þá hafði ég samband við dómsmrn. Frá rn. fékk ég svohljóðandi bréf, sem ég leyfi mér að lesa hér, með leyfi forseta:

„Að beiðni yðar hefur verið farið í gegnum skjöl rn. varðandi aukna þjónustu sýsluskrifstofunnar í Stykkishólmi víð Ólafsvík. Hjálögð fylgja ljósrit af þeim bréfum sem fyrirfinnast, en nokkur bréf virðist vanta.“ — Ég skýt hér inn í: Það er þau bréf ljósrituð sem ég var að vitna til, en eitthvað virðist skjalavörslu ábótavant ef bréf þarna glatast, eins og þetta bréf rn. ber með sér. „Eins og bréfin bera með sér var aldrei neitt loforð gefið um staðsetningu fulltrúa í Ólafsvík og málið afgreitt með vikulegum ferðum.“ — Og ég skýt hér inn í aftur: Það er sem sagt sú þjónusta sem íbúar þessa staðar máttu una við. Það var vikuleg ferð frá sýslumannsembættinu til Ólafsvíkur. Ég held áfram hér, með leyfi forseta: „Á nokkrum stöðum á landinu er í dag veitt sérstök þjónusta utan sýsluskrifstofu, t. d. í Húnavatnssýslu, en þar er farið einu sinni í viku til Hvammstanga og einnig til Skagastrandar, svipað og gildir á Snæfellsnesi. Á Dalvík er sérstök umboðsskrifstofa. Sama er í Grindavík og sama er á Seltjarnarnesi. Skoðun rn. hefur verið sú, að þessi mál þyrfti að afgreiða heildstætt, en ekki láta undan þrýstingi eða ásókn í nýjar umboðsskrifstofur hér og þar. Þá blandast inn í þetta mál umboðsmenn sýslumanna í hverjum hreppi, þ. e. hreppstjórar, og hvert hlutverk þeim er ætlað. Í rn. hefur verið ákveðið að gera úttekt á starfsskyldum og störfum hreppstjóra og er það mál á undirbúningsstigi. Má vænta þess að í kjölfar slíkrar úttektar verði mörkuð stefna varðandi umboðsskrifstofur.

f. h. ráðherra,

Hjalti Zóphóníasson.“

Þetta bréf er dagsett 6. ágúst 1980.

Því miður hefur rn. tekið á þessu mali með þessum hætti, að það eigi ekki að láta undan þrýstingi eða ásókn í nýjar umboðsskrifstofur. Ég verð að lýsa því, að mér finnst þetta alveg furðulegt sjónarmið vegna þess að hér er um að ræða þjónustu sem íbúarnir eiga vissulega kröfu til.

Nú er þess að geta, að eftir að frv. til laga um kaupstaðarréttindi til handa Ólafsvíkurhreppi kom fram og þar sem gert var ráð fyrir stofnun sérstaks bæjarfógetaembættis í kaupstaðnum hefur nokkur breyting orðið á afstöðu rn. og er þess skylt að geta. Það segir í umsögn dóms- og kirkjumálarn. um þetta lagafrv., með leyfiforseta:

„Á undangengnum árum hafa talsvert mörg þéttbýlissveitarfélög óskað eftir og fengið kaupstaðarréttindi. Hins vegar hefur Alþingi ekki fallist á stofnun nýrra embætta í því sambandi um nokkuð langt árabil þótt eftir væri leitað, sem hefur mjög oft verið. Hins vegar hefur á síðasta áratug verið í auknu mæli farið inn á þá braut að stofna til umboðsskrifstofa í þéttbýliskjörnum, gjarnan í tengslum við lögreglustarfsemina. Slík umboðsskrifstofa í Ólafsvík mun taka til starfa á næstunni og á að vera til þess fallin að auka verulega þjónustu við borgarana. Einnig skal vakin athygli á því, að sú vélvæðingarþróun sem fram undan er, tölvur o. s. frv., hvetur frekar til fækkunar en fjölgunar miðstöðva slíkrar starfsemi af hagkvæmni- og kostnaðarástæðum. En sú vélvæðing, sem líkleg er á næsta áratug, verður mjög kostnaðarsöm.“

Það hefur sem sagt orðið sú breyting á afstöðu hins háa rn., að nú hefur það allt í einu verið að láta undan þrýstingi eða ásókn í nýjar umboðsskrifstofur, og liggur beinast við að álykta að það sé vegna þess frv. sem hér liggur nú fyrir. En ekki get ég að því gert að mér þykir þetta svolítið undarleg afstaða af hálfu hins háa rn.

Um þetta mál barst til félmn. Nd., herra forseti, umsögn frá sýslumanni í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu. Sú umsögn er í flestum atriðum mjög neikvæð, og ég ætla að leyfa mér að vitna hér til nokkurra orða þar um. Ég skal ekki gerast langorður. Þetta eru sex vélritaðar síður. Hér segir, með leyfi forseta:

„Stundum eru auðvitað sérstök rök fyrir stofnun kaupstaðar og bæjarfógetaembættis af landfræðilegum ástæðum þótt um fámenn byggðarlög sé að ræða. Dæmi um slíkt eru t. d. Bolungarvík og Ólafsfjörður, en það er síður en svo æskileg þróun að slíkt gerist undantekningarlaust eftir pöntun um löggjöf hverju sinni eða sé tilviljunum háð, jafnvel sem metnaðarmál eða út af metingi milli byggðarlaga.“

Ég verð nú að lýsa svolítilli furðu á þessum umr. Ef landfræðileg rök eru einhvers staðar til staðar eru þau til staðar í Ólafsvík. Þau eru til staðar í Ólafsvík alveg eins og kannske fremur en í Bolungarvík. Þar gildir að vísu sama um samgöngur, nema hvað ennþá lengri leið er fyrir íbúa Ólafsvíkurhrepps en þá sem búa í Bolungarvík. — Síðan segir hér enn á ný, með leyfi forseta:

„Lítum aðeins fram í tímann“ — þetta er umsögn sýslumanns í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu — og skoðum nánar það tilvik sem hér um ræðir. Hljóti Ólafsvíkurhreppur kaupstaðarréttindi með lögum, þá má gera ráð fyrir að hreppsnefnd Stykkishólmshrepps óski einnig fljótlega eftir kaupstaðarréttindum fyrir Stykkishólm, enda hefur það mál þegar verið rætt í hreppsnefnd. Ekki skal ég spá um þróun mála næstu árin í Grundarfirði, sem er þriðji stærsti þéttbýlisstaðurinn í sýslunni og er að vísu enn með nokkuð færri íbúa en fámennasti kaupstaðurinn í landinu. Hins vegar er ljóst að sveitarstjórnarmenn þar gætu sem hægast með sömu rökum þegar íbúafjöldi leyfði sett fram ósk um að Grundarfjörður yrði einnig gerður að kaupstað með lögum.“

Ég verð að segja alveg eins og er að ég sé ekki samhengi þarna á milli. Mér finnst þetta vægast sagt málflutningur alveg á mörkum þess sem opinber embættismaður getur leyft sér. — En síðan segir:

„Þá blasir við sú mynd, að Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla, Snæfellsnesið í allri sinni tign og fegurð, væri á að líta sem stjórnarfarslegur óskapnaður, sýslufélag fjárhagslega lamað og vanmegnugt klofið í sundur af þremur kaupstöðum, alls fjögur lögsagnarumdæmi þar sem verið hefur eitt umdæmi s. l. 112 ár.“

Ég get nú ekki séð að veiting kaupstaðarréttinda til Ólafsvíkur komi mikið við fegurð Snæfellsness, sem enginn dregur í efa og er áreiðanlega óumdeild í flestra hugum.

En mér finnst öll umfjöllun þessa máls bera svolítinn keim af því að menn hafi misst sjónar af því sem þarna er um að ræða. Ég veit að íbúum Ólafsvíkur er þetta mjög mikið kappsmál. Þeir vilja að fólkið þar eigi kost á þeirri þjónustu, sem hér um ræðir, án þess að þurfa að leggja á sig ferðalög um langan veg og oft við mjög erfiðar aðstæður. Mér er einnig kunnugt um það, að hreppsnefnd Ólafsvíkurhrepps hefur í hyggju að koma hingað suður til Reykjavíkur við fyrstu hentugleika, væntanlega á morgun, til þess að ræða við þm. kjördæmisins um þetta mál, sem þeim þykir horfa mjög alvarlega við eftir þá breytingu sem gerð var í hv. Nd.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa um þetta öllu fleiri orð. Eins og ég sagði hér áðan þykir mér furðulega farið með frv. sem hæstv. dómsmrh. stendur að.

Væntanlega hafa honum verið ljósar allar hliðar þessa máls þegar hann skrifaði upp á þetta frv. og gerðist flm. þess. Það er svo handleggur út af fyrir sig hvort ráðh. mega vera flm. þmfrv. Það væri kannske ástæða til að ræða sérstaklega. Það er ný venja, sem verið hefur að skapast hér í þinginu, að ég hygg núna á síðustu árum, og mér finnst ekki vera af hinu góða. Ég held að þarna eigi að vera skil á milli eðli máls samkvæmt. En mér finnst furðulegt hver örlög þessa frv. hafa orðið í ljósi þessarar staðreyndar.

Ég ítreka það, herra forseti, að ég skora á hv. félmn. þessarar deildar að breyta nú frv. aftur í fyrra horf. Sjái n. ekki kost á því og treysti sér ekki til þess mun ég við 2. umr. málsins flytja brtt. sem miðar að því að færa þetta frv. í það horf sem það var þegar það var lagt fram í Nd., og ég mun fylgja þeirri till. eftir.