07.03.1983
Efri deild: 58. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2579 í B-deild Alþingistíðinda. (2436)

148. mál, notkun fasteignamats til viðmiðunar eignarskatts

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Við þm. Eyjólfur Konráð Jónsson flytjum brtt. við þetta frv. á þskj. 393. Sú brtt. er í hátt við frv. sem nokkrir þm. Sjálfstfl. hafa flutt, en hún orðast svo, með leyfi forseta:

„1. gr. orðist svo:

Allar fasteignir, hverju nafni sem nefnast, skal telja til eignar á gildandi fasteignamati. Fasteignir, sem notaðar eru til íbúðar, skulu sem skattstofn eignarskatts þó ekki hækka meir milli ára en nemur hækkun skattvísitölu.“

Eins og hv. þm. er kunnugt er skattvísitala hækkuð í ár miðað við árið í fyrra um 52%. Það er gert ráð fyrir að tekjur manna milli áranna 1982 og 1983 hækki um nálægt 52%. Að vísu er mér ekki kunnugt um nýjar athuganir á þessu sviði, en þegar fjárlög voru afgreidd var gengið út frá því. Við teljum að eignarskattar af íbúðarhúsnæði eigi ekki að hækka meira en sem nemur tekjum manna almennt. Það skapast ekkert nýtt fjármagn í húsnæði sem hækkar að fasteignamati meira en sem tekjunum nemur. Þessi rökstuðningur er á bak við okkar till.

Við teljum á hinn bóginn að þetta frv. sé út af fyrir sig réttlætismál, að fasteignamat hækki jafnt á landinu sem eignarskattsstofn, en ekki meira hér á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar. En það sýnir að menn hafa áhyggjur af því að eignarskattsstofn hækki langt umfram það sem nemur þeim tekjum manna sem þeir hafa til að greiða þessa skatta.

Herra forseti. Þetta er sem sagt sú brtt. sem við flytjum, enda skrifum við undir nál. með fyrirvara um að flytja eða fylgja brtt. En við erum út af fyrir sig samþykkir þessu frv. sem slíku.