08.11.1982
Neðri deild: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Mér fannst að strax núna í lok ræðu sinnar væri hv. fyrirspyrjandi. 6. þm. Norðurl. e., kominn niður á jörðina með þetta. (ÁG: Ég hef alltaf verið þar.) Og mér þykir mjög vænt um það. Ég held að við séum nefnilega sammála um að vissulega þurfi að efla Námsgagnastofnunina. Fyrir því hef ég beitt mér og mun gera. En ég hef líka skýrt það hér fyrir hv. þingheimi að þessi stóra stofnun, sem tók til starfa fyrir 1–2 árum, nær ekki fullum styrk á sama degi sem er skrifað undir lög eða skrifað er undir setningarbréf eða skipunarbréf forstjóra. Það er útilokað mál. Stofnun af þessu tagi verður að eflast smám saman. Um það hef ég ítarlega rætt við þá menn sem þar ráða, og ég held að allir séu sammála um að svo hljóti að verða, og að því verður unnið af minni hálfu, enda hef ég gert það.

Ég held að það sé nauðsynlegt og ég hef ekkert á móti því að þessi mál séu rædd hérna. Það er síður en svo. Ég tel að það sé út af fyrir sig gagnlegt að fá þó umræður um fræðslukerfið, um menntamálin og um einstakar stofnanir. Það er vissulega gagnlegt að fá ákveðnar umr. um það hér í hv. Alþingi. Það beinir sjónum manna að vandanum framar því sem kannske oft er, vegna þess að við leiðum hugann oft að vanda annarra þátta í ríkiskerfinu og í okkar þjóðarbúskap fremur en kannske að vanda skólanna og fræðslukerfisins o.s.frv. Það má vel vera að það sé ekki nema gott eitt, og er það reyndar, að við fáum tækifæri til að ræða það og ég vona að þessar umr. hafi þó orðið til þess kannske að opna augu margra þm. fyrir því að þarna er um brýnan vanda að ræða, en ég vara við því og tel það ekkert annað en venjulegt lýðskrum af aumasta tagi ef menn ætla að fara að halda því fram hér að við getum skaffað Námsgagnastofnun eða hvaða annarri stofnun sem er allt það sem hún kann að láta sig dreyma um að geti orðið þegar hún hefur tekið út fullan vöxt og tekið út fullan þroska.

Að sjálfsögðu þarf að vinna að því að efla Námsgagnastofnun. Það þarf að koma því svo fyrir, að hún geti séð skólunum fyrir námsgögnum eðlilega. Og það verður reynt að vinna að því nú í meðferð fjárlaganna, hversu stór sú upphæð þyrfti að vera. Það fer eftir því hvernig við lítum á málin, en lágmarkið er vitanlega að það verði bætt svo úr að stofnunin geti eflt verulega útgáfu sina á næsta ári og aukið hana stig af stigi á næstu árum og þróast þannig eðlilega. Þetta vona ég að okkur auðnist að gera í góðu samstarfi hér í þinginu og ríkisstj. á hverjum tíma og í góðu samstarfi innan Námsgagnastofnunarinnar, við þá sem þar ráða málum.