07.03.1983
Efri deild: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2585 í B-deild Alþingistíðinda. (2453)

143. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls kvaðst ég mundu ásamt fleirum flytja brtt. við frv. þetta við 3. umr. ef dagskrártillaga mín og minna félaga um frávísun málsins væri ekki samþykkt. Nú er svo komið að frv. er til 3. umr. og ég hef ásamt hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni, Eyjólfi Konráði Jónssyni og Salome Þorkelsdóttur borið fram brtt. við frv. á þskj. 501.

Ég vil strax taka fram að það kann að hafa verið ástæða til þess að bera fram fleiri brtt. en hér er gert, því að svo miklir gallar og meinbugir eru á því frv. sem hér liggur fyrir. Hins vegar hefur okkur þótt rétt að beina athyglinni fyrst og fremst að því sem mest ríður á að fá breytt, og höfum við því látið liggja á milli hluta ýmis önnur atriði frv., sem vissulega hefði komið til greina og verið eðlilegt að breyta, ef vandaðri endurskoðun laganna hefði farið fram. Ég ætla ekki við þessa umr. að fara að ræða almennt um þetta frv. eða almennt um galla þess, en vísa í því efni til þess sem ég sagði við 1. umr. um frv. Ég mun þá snúa mér beint að því að gera grein fyrir brtt. okkar á þskj. 501.

Fyrsta brtt. er við 1. gr. frv. og fjallar um tvö atriði. Annars vegar er að það sé tekið upp í frv. ákvæði um að tekjur skuli ganga til Byggingarsjóðs ríkisins með árlegum framlögum af byggingarsjóðsgjöldum, 1% álagi, er innheimta skal aukalega á tekju- og eignarskatt og 0.5% á aðflutningsgjöld samkv. tollskrá. Við höfum talið rétt að gera brtt. um þetta efni. Þetta er raunar ekkert annað en var í lögum eins og gengið var frá lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins frá 1970, og raunar var ákvæði sem átti að þýða þetta í lögunum frá 1980, en hefur ekki verið framkvæmt vegna þess hve óljóst þetta lagaákvæði var. Þetta ákvæði hefur ekki mikla þýðingu, hvorki sem tekjumissir fyrir ríkissjóð né tekjuauki fyrir Byggingarsjóð, en við höfum talið rétt að það stæði sem áður var ákveðið í þessum efnum.

Hitt atriðið, sem varðar breytingu við 1. gr. frv., er aðalatriði varðandi þessa grein. En þar er gert ráð fyrir að til Byggingarsjóðs ríkisins gangi 2% launaskattur samkv. lögum nr. 14/1965 með síðari breytingum. Það er alltaf verið að tala um húsnæðisástandið í landinu og það er mikið verið að tala um að það þurfi að bæta það, það þurfi að efla veðlánastarfsemi til íbúðabygginga og það þurfi að gæta ýmislegs í þeim efnum, sem ekki hefur verið gert áður, útvíkka hlutverk laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins og hlutverk Byggingarsjóðs ríkisins. Okkur er öllum kunnugt um þetta, og það er næstum því stundum eins og menn keppist við að tíunda hvað þurfi að gera, á sama tíma sem ekkert er gert til þess að skapa grundvöll fyrir því að þetta sé gert. Ekki er einungis það að ekkert sé gert til þess að skapa grundvöllinn, heldur hefur það skeð í tíð núv. hæstv. ríkisstj. að kippt hefur verið stoðum undan aðaltekjuöflunarleið Byggingarsjóðs ríkisins, á þann veg að svipta hann þeim hluta af launaskattinum sem byggingarsjóðnum ber samkv. lögum. Ég ætla ekki að fara að rifja það upp á hvaða forsendum launaskatturinn var settur. Hann var settur til þess að efla Byggingarsjóð ríkisins og bæta húsnæðisástandið í landinu. En nú er hann lagður á á fölskum forsendum síðan Byggingarsjóðurinn var sviptur því fjármagni sem inn kemur fyrir launaskattinn. Við viljum með brtt. okkar við 1. gr. frv. bæta úr þessu og kveða á um það að 2% launaskattsins skuli ganga til Byggingarsjóðs ríkisins.

Önnur brtt. er við 2. gr. frv. og fjallar um það að sú grein frv. sé felld niður. Þetta er engin efnisbreyting. Þessi grein er algerlega óþörf ef gengið er út frá því, sem ég held að verði nú ekki neitað, að byggingarsamvinnufélög séu framkvæmdaraðilar í byggingariðnaðinum. Auðvitað er það og þarf ekki að taka sérstaklega fram, enda gera lögin ráð fyrir því að sjálfsögðu að svo sé.

Þriðja brtt. er sú að á eftir 3. gr. frv. komi ný grein sem fjallar um það að lán Byggingarsjóðsins skuli veitt gegn 1. veðrétti og lánstíminn skuli veru 42 ár. Hér er um að ræða veigamikla breytingu frá núgildandi lögum, því að í lögum er nú kveðið svo á að lánstíminn skuli vera 26 ár, en við gerum brtt. sem felur í sér að lánstíminn verði 42 ár, ekki 26. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um það hvaða þýðingu lenging lánstímans hefur til þess að bæta lánskjör þeirra sem þurfa að taka lán úr Byggingarsjóði ríkisins og er eitt af veigameiri atriðum sem til hagsbóta geta orðið.

Ég kem þá að 4. brtt. sem er við 10. gr. frv. Þessi brtt. fjallar um að 1. mgr. 10. gr. frv. verði felld niður. Hvers vegna skyldi það nú vera? Það er vegna þess að þar er kveðið svo á, að ákvörðun um vexti af lánum Byggingarsjóðs ríkisins skuli tekin af ríkisstj. að fengnum tillögum Seðlabanka Íslands. Við teljum að þetta sé ekki rétt að gera, viljum halda okkur við löggjöfina eins og hún er, viljum að það sé ákveðið í húsnæðislöggjöfinni eins og hefur verið frá fyrstu tíð, hver vaxtakjörin séu. Og samkv. núgildandi lögum er ákveðið að vextirnir skuli vera 2%. Hví skyldi nú vera lagt til að breyta þessu og fara að óskum Seðlabankans í þessu efni? Það gefur auga leið. Það er til þess að opna leið til að hækka vextina. Við flm. brtt. erum andvígir þessu. Við viljum ekki gera lánskjörin lakari, við viljum gera þau betri. Þess vegna stefnir þetta ákvæði í öfuga átt. En ég veit hvað hv. stjórnarliðar segja sér til varnar í þessu efni því að það hefur komið fram oftar en einu sinni. Þeir segja að það sé nauðsynlegt að hækka vextina til þess að það sé grundvöllur fyrir rekstri Byggingarsjóðsins, vegna þess að þau lán sem Byggingarsjóðurinn þarf að taka til starfrækslu sinnar bera hærri vexti en útlánsvextir sjóðsins eru.

Það er alveg rétt að það þarf að gera ráðstafanir í þessu tilfelli. En höfum þá í huga hvers vegna ástandið er svona. Það er vegna þess að búið er að svipta Byggingarsjóð ríkisins megintekjustofni sínum sem er óafturkræft framlag gegnum launaskattinn. Þetta er afleiðing af því að sjóðurinn hefur verið sviptur launaskattinum. Við viljum ekki gera lánskjörin lakari til að bæta úr þessu. Við viljum taka fyrir orsakir vandans með því að láta Byggingarsjóð ríkisins hafa launaskattinn sem tekjustofn eins og honum ber raunar samkv. lögum um launaskatt.

Þessar ástæður liggja að baki þeirri brtt. okkar að 1. mgr. 10. gr. falli niður.

É,g kem þá að 5. brtt. Hún fjallar um það að í frv. komi ný'grein um það hvernig haga skuli fjármögnun Byggingarsjóðs verkamanna. Er þá gert ráð fyrir samkv. tillögu okkar að 37. gr. laganna taki breytingum sem eru mjög veigamiklar. Samkv. 37. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins er framlag ríkisins bundið við það, að það geti ekki farið fram úr 30% af byggingarkostnaði íbúða verkamannabústaðakerfisins. Jafnframt er gert ráð fyrir í gildandi lögum að framlag sveitarfélaga nemi 10% af byggingarkostnaðinum, þ. e. að samkv. gildandi lögum getur framlag hins opinbera til Byggingarsjóðs ríkisins ekki numið meiru samtals en 40% af byggingarkostnaði. Þetta teljum við að sé hin mesta óhæfa í gildandi lögum og það er augljóst hvers vegna, enda er þetta tilkomið fyrst með lögunum frá 1980. Alla tíð frá því að verkamannabústaðakerfið var sett á stofn um 1930 hefur það verið svo að fjármagnið til þessarar starfsemi hefur komið sem óafturkræft framlag, um 80 eða 90%, frá ríki og sveitarfélögum.

Við flm. þessara brtt. viljum breyta þessu í fyrra horf, enda er stoðum kippt til langframa undan allri eðlilegri starfsemi Byggingarsjóðs verkamanna ef það er ekki gert. Þess vegna leggjum við til að framlag ríkisins nemi 80% af byggingarkostnaði, en óbreytt standi framlag sveitarfélaga 10%. Eigendur leggi svo til 10%.

Þá er önnur veigamikil breyting í þessari brtt. okkar. Í gildandi lögum segir að stefna eigi að því að fjármögnun Byggingarsjóðs verkamanna verði með þeim hætti að sjóðurinn geti fjármagnað a. m. k. 1/3 hluta af árlegri íbúðarþörf landsmanna. Við teljum að þetta sé röng stefna að Byggingarsjóður verkamanna nái til svo margra. Að vísu byggist þessi skoðun á þeirri forsendu að hinn almenni byggingarsjóður, Byggingarsjóður ríkisins, sé þess umkominn að veita nægilega há lán til þess að almenningur í landinu geti komið sér upp íbúðum og með nægilega hagstæðum kjörum til þess að hægt sé að standa undir þeim lánum af almennum launatekjum. Það verður ekki gott ástand í lánamálum til húsbyggjenda fyrr en við erum búnir að ná þessu marki. Það verður að segja eins og er að lengi vel miðaði nokkuð í þessa átt, þó of hægt gengi, þar til bakslagið kom með aðförum og stefnu núv. hæstv. ríkisstj. En ef við göngum út frá því að hinn almenni byggingarsjóður, Byggingarsjóður ríkisins, sé þess megnugur að gegna því hlutverki sem ég hef hér gert grein fyrir, þá á hlutverk Byggingarsjóðs verkamanna ekki að vera annað en að aðstoða, veita aðstoð þeim sem verst eru settir og það er oft af ósjálfráðum ástæðum. Það á að vera ærleg félagsleg aðstoð, ekki til málamynda, heldur í það ríkum mæli að þessu fólki sé hjálpað eins og þarf að hjálpa því. Þannig miða tillögur okkar flm. þessara brtt. á þskj. 501 að því að byggja upp Byggingarsjóð verkamanna í slíkum félagslegum anda.

Ég kem þá að 6. brtt. sem er við 18. gr. frv. og er um það að sú grein frv. falli niður. Það er vegna þess að þessi grein frv. virðist ganga út frá því að það sjónarmið verði útfært betur en nú er orðið, að Byggingarsjóður verkamanna verði nokkurs konar almennur byggingarsjóður við hliðina á Byggingarsjóði ríkisins, en ekki slíkur byggingarsjóður til að aðstoða hina verst settu, eins og ég var að gera grein fyrir nú áður að Byggingarsjóður verkamanna ætti að vera. Hér er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir fari að lána í byggingar verkamannabústaða, en samkv. því sjónarmiði sem ég túlkaði er það óeðlilegt, því að það á að koma óafturkræft framlag frá hinu opinbera, sem nemi 90% af byggingarkostnaðinum, og lífeyrissjóðalán eiga því ekki heima í þessu kerfi. Hins vegar er ærin ástæða að hagnýta þá fjáröflunarmöguleika fyrir Byggingarsjóð ríkisins. Þetta liggur til grundvallar þeirri till. að fella 18. gr. niður.

Þá kem ég að 7. brtt. Hún er við 19. gr. og er um það að 2. og 3. mgr. falli niður. Um 2. mgr. er það að segja, að ef 18. gr. verður felld niður, þá leiðir af sjálfu sér að rétt sé að fella niður 2. mgr. 19. gr. Skal ég ekki fjölyrða frekar um það.

Þá kemur 3. mgr. 19. gr. Okkar brtt. er um það að fella þá mgr. líka niður. Og það er ein veigamesta brtt. sem við leggjum fram. Hvers vegna skyldi það nú vera? Það er vegna þess að ef 3. mgr. frv. er samþykkt, þá er e. t. v. lagt smiðshöggið á það að eyðileggja verkamannabústaðakerfið. Og á hvern hátt? Með því að fella niður úr lögum að það séu ákveðnir 0.5% vextir af lánum Byggingarsjóðs verkamanna. Frv. gerir ráð fyrir að fella þetta niður úr lögum og fela ríkisstj. að ákveða vextina að tillögu Seðlabankans. Ef þetta er gert, þá liggur beint við að vextirnir verða stórhækkaðir. Það er tilgangurinn með þessu ákvæði frv. Það hefði enga þýðingu nema sá væri tilgangurinn. Og þegar svo er komið óttast ég að það geti komið að því, eins og ég orðaði það áðan, að lagt væri smiðshöggið á það óþurftarverk að rífa niður Byggingarsjóð verkamanna, sem að mörgu leyti hefur verið aðalsmerki félagslegrar aðstoðar í hálfa öld.

Við flm. brtt. viljum koma í veg fyrir þessa þróun og leggjum því til að 3. mgr. 19. gr. verði felld niður.

Ég kem þá að 8. brtt. okkar. Hún er við 26. gr. frv. sem fjallar um lán Byggingarsjóðs verkamanna til leiguíbúða sveitarfélaga og annarra aðila. Það er tekið fram að þessi lán megi vera 80% af áætluðum byggingarkostnaði. En í frv. er gerð undantekning frá þessu um það að sum lán til leiguíbúða megi ekki nema hærri upphæð en 65% af byggingarkostnaði. Við flm. viljum ekki gera þennan greinarmun á þeim leiguíbúðum sem 26. gr.,frv. fjallar um. Við viljum að allir þeir aðilar, sem hafa heimild til lána vegna leiguíbúða samkv. 36. gr. laganna, hafi sama rétt til lánanna. Þetta er ekkert hégómamál fyrir þá sem flokkaðir eru samkv. frv. í hinn óæðri flokk. Það eru m. a. stúdentar, svo að ég nefni eitthvert dæmi, en Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur kynnt hv. félmn. skoðanir sínar og óskir í þessu efni, sem falla saman við brtt. okkar félaga, sem ég er hér að lýsa.

En hér er einnig um aðra veigamikla breytingu að ræða samkv. brtt. við 26. gr. frv. Hún er um það að lán til leiguíbúða skuli bera sömu vexti og lán Byggingarsjóðs verkamanna, hin eiginlegu lán til verkamannabústaða, þ. e. að vextirnir séu 0.5%, eins og við viljum hafa þá. j gildandi lögum eru vextirnir 2%, en ríkisstj. vill losa um 2% á þann veg að hafa það opið fyrir ríkisstj. að hækka vextina að fengnum tillögum Seðlabankans. Við viljum koma í veg fyrir allt þetta og það sé ákveðið að vextir til leiguíbúða séu 0.5%. Þessi till. okkar mætir óskum Stúdentaráðs Háskóla Íslands, sem hefur sent okkur bréf um þessi efni, og óskum Leigjendasamtakanna, sem hafa sent okkur bréf um þessi efni einnig, og Félagsmálastofnunar stúdenta. Það er ekki óeðlilegt að þessir aðilar hafi komið á framfæri óskum um þetta efni, þegar litið er á það að það er algerlega óeðlilegt að gera greinarmun á þessum félagslegu ráðstöfunum og þeim, sem felast í verkamannabústöðum, byggingu hinna eiginlegu verkamannabústaða, svo ég tali ekki um að skipta aðilum í tvo flokka, verðuga og óverðuga, þegar um er að ræða leiguíbúðir. Þetta eru ástæðurnar fyrir brtt. okkar við 26. gr. frv.

Ég kem þá að 9. brtt. okkar, sem er um það að 31. gr. frv. falli niður algerlega. Og hvers vegna skyldi sú grein falla niður? Það er vegna þess að í þessari gr. frv. eru ákvæði sem ganga mjög harkalega að æskunni í landinu, menntamönnum, skólafólkinu, mjög harkalega eins og segir í bréfi frá Stúdentaráði Háskóla Íslands. Og það verður að segjast að þegar svo er komið, eftir að hæstv. ríkisstj. hefur svipt Byggingarsjóð ríkisins aðaltekjustofni sínum, að hún sér helst þau úrræði að þrengja að menntamönnum, skólafólkinu í landinu, til þess að rétta við fjárhag Byggingarsjóðs ríkisins, þá er helst til langt gengið. Ég skil ekki hvernig hv. stjórnarliðar geta forsvarað fyrir sjálfum sér, fyrir samvisku sinni, fyrir yfirleitt nokkrum manni að fylgja slíku, sem felst í þessari gr. frv., sem víð leggjum til að verði felld niður.

Þá kem ég að 10. og síðustu brtt. okkar félaga. Hún er um það að 32. gr. orðist svo sem gert er ráð fyrir í brtt. okkar. Það er ákvæði um það að húsnæðismálastjórn sé heimilt að veita viðbótarlán við önnur lán úr Byggingarsjóði ríkisins þeim sem taka út sparifé sitt til þess að kaupa eða byggja íbúð. Húsnæðismálastjórn skal setja nánari reglur um þær lánveitingar, segir í till. okkar. En þessi till. okkar er nú í raun og veru ekki okkar. Við verðum að setja hana fram formsins vegna, þar sem við leggjum til að greinin að öðru leyti sé felld niður, 32. gr. En það sem ég var að tíunda hér að fælist í brtt. okkar felst í 3. mgr. 32. gr. frv. Og það er að okkar mati það eina nýtilega sem felst í þeirri gr. Þess vegna tökum við það upp í okkar breytingu eða tökum fram að það skuli standa. En ég verð að segja að það er að sjálfsögðu ánægjulegt að þetta ákvæði í 3. mgr. 32. gr. skuli standa, þ. e. að það sé hægt að hygla þeim æskumönnum í íbúðalánum sem hafa lotið skyldusparnaðinum. Áður en núv. ríkisstj. fór að hafa afskipti af þessum málum var það í lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins að þetta skyldi gert. En það var fellt úr lögunum frá 1970 þegar endurskoðunin fór fram 1980. Þá var felld brtt. frá mér og öðrum sjálfstæðismönnum um að taka þetta ákvæði þá upp. En mönnum hefur farið fram síðan og nú koma þeir með þetta ákvæði inn í 32. gr. Ég sagði áðan að þetta væri það eina nýtilega í 32. gr. Og meira en það. Það nær ekki nokkurri átt að láta annað efni gr. standa. Þess vegna leggjum við til að greinin falli niður, 32. gr., að öllu leyti nema að því er varðar það ákvæði sem ég hef hér gert grein fyrir.

En hvað felst í því sem við leggjum til að falli niður? Það er sú breyting frá núgildandi lögum, sem nú er lögð til í þessu frv., að námsmenn séu ekki lengur undanskildir skyldusparnaði. Fram að þessu hefur verið gengið út frá því að skólafólk, námsfólk í landinu væri í þeirri aðstöðu að það væri ekki raunhæft eða sanngjarnt að leggja á það þær skyldur að hlíta skyldusparnaðinum. En nú vill hæstv. ríkisstj. breyta þessu. Og þetta sem viðkemur skólafólki í landinu eru einu ráðstafanir til þess að efla Byggingarsjóð ríkisins. Það er eina úrræðið að námsmennirnir, námsfólkið leggi meira fé af mörkum. Er hægt að komast lengra í úrræðaleysinu og óhæfunni í þessum efnum en gert er með slíkri tillögugerð, sem hér liggur frammi frá hæstv. ríkisstj. og lýsir sér í þessu? Ég held ekki. Það er því ekki að ófyrirsynju að við, sem berum fram brtt. á þskj. 501, leggjum til að ekki verði horfið að slíkum ráðum og því verði greinin öll felld niður nema síðasta mgr. sem ég hef gert grein fyrir.

Herra forseti. Ég hef nú farið yfir allar brtt. okkar á þskj. 501, 10 að tölu, og sumar í undirliðum. Ég hef leitast við að stilla máli mínu í hóf. Það hefði verið ærin ástæða að ræða um sum þessi efni, sem ég hef komið inn á, miklu nánar. En ég vænti þess, að það megi vera ljóst af máli mínu að eðlilegt sé að samþykkja þessar brtt. Og ég leyfi mér að vona að það þurfi ekki að vera fyrir fram gefið, að hv. stuðningsmenn núv. ríkisstj. sjái sér ekki annað fært en að fylgja ríkisstj. í þeim verkum sem hún leggur til að við samþykkjum. En mörg þeirra eru hrein óþurftarverk fyrir byggingarmálin í landinu.