07.03.1983
Neðri deild: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2651 í B-deild Alþingistíðinda. (2469)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður.

Vegna orða hv. 2. þm. Norðurl. e. og fleiri þm. ítreka ég það, sem ég hef áður sagt í umr. um dagskrármálið, að mér finnst mjög miður að ekki skyldi takast að afgreiða stjórnarskrármálið í heild á þessu þingi. Ég hefði einnig kosið að ný kosningalög væru afgreidd á þessu þingi, en um það náðist ekki samkomulag. Auðvitað gæti svo nýtt þing síðar breytt þeim lögum eins og öllum öðrum lögum.

Margir hv. þm. hafa talað mikið um að þetta frv. sé svo sem ekki neitt, aðeins fjórar greinar, og segja að lítið hafi komið út úr mikilli vinnu formannanna. Auðvitað gekk vinnan fyrst og fremst út á að ná samkomulagi um drög að frv. að nýjum kosningalögum. Í því lá vinnan fyrst og fremst og í því er samkomulag formannanna fólgið þó að frv. sem hér er á dagskrá nái ekki að forminu til til þess atriðis.

Herra forseti. Ég lýsi fullum stuðningi við brtt. hv. þm. Stefáns Valgeirssonar og Ólafs Þ. Þórðarsonar á þskj. 469, enda hef ég og fleiri þm. Alþfl. hvað eftir annað flutt lagafrv. sem ganga í sömu átt, en ekki fengið nægilegan stuðning hv. þm. og ekki heldur hv. flm. þessarar brtt. En batnandi mönnum er best að lifa. Ég tel að ákvæði það sem felst í brtt. á þskj. 469 eigi fullan rétt á sér í stjórnarskrá okkar og styð það eindregið.