08.11.1982
Neðri deild: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Námsgagnastofnun er vissulega ung að árum, en áður en hún kom til var starfandi Ríkisútgáfa námsbóka. Það má því segja, að að hluta til sé um framhald sömu starfsemi að ræða. Ég minnist þess, að það kom of oft fyrir að sú stofnun lenti einnig í því að geta ekki gefið út bækur og á réttum tíma. Vissulega skapar það ávallt mikil vandamál í skólastarfi þegar slíkt gerist. En hitt hygg ég að hafi gleymst í þeirri umr. sem hér hefur farið fram, að það hefur orðið m jög mikill sparnaður í útgáfu námsbóka. Sá sparnaður liggur í því, að réttur nemenda til að fá ókeypis námsbækur hefur verið skertur stórlega. Þetta vita allir sem hafa kynnt sér þessi mál. Ef skoðað er í tölum hvað gamla aðferðin mundi kosta mikið liggur Ijóst fyrir að hér er um mjög háar upphæðir að ræða. Ég tel þess vegna að það blandist engum hugur um að Námsgagnastofnun hefur verið haldið í vissu fjársvelti þó að ég fagni þeim áföngum, sem þar hafa náðst, að starfsmenn eru komnir í húsakynni og hafa tekið upp ýmsar nýjungar.

Það þarf út af fyrir sig ekki að efa að sú gagnrýni, sem hér hefur komið fram á fjársvelti stofnunarinnar, á vissulega við rök að styðjast. En ég fagna því, sem fram hefur komið hér hjá fjvn.-manni, að taka eigi myndarlega á vandamálum Námsgagnastofnunarinnar og ekki síður ef þeim er alvara með þeirri hvatningu að við óbreyttir þm. berum upp tillögu um hækkun á framlögum stofnuninni til handa, ef okkur finnst ekki nægilega vel vera að henni staðið í fjárlögum.